Jöfnun verðlags

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 11:16:19 (1355)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að þakka flm. fyrir það að hreyfa þessu máli í frumvarpsformi. Þetta er eitt af brýnustu málum sem landsbyggðarmenn bera fyrir brjósti og hefur oft verið ályktað um þau á ýmsum vettvangi samtaka sveitarstjórna. Það er dálítið athyglisvert að það skuli í raun vera þannig í dag að ýmsar nauðsynjar lífsins skuli ekki vera jafnaðar milli landsmanna eins og símaþjónusta, orka og heildsöluverð á vörum. En aðrar vörur, sem ómögulegt er að kalla lífsnauðsynjavörur eins og áfengi og tóbak, er jafnað að fullu og fleira mætti nefna. Maður spyr sig um áherslur. Mér finnst þetta ákaflega einkennilegar áherslur, virðulegi forseti, ef það reynist vera svo að ekki sé vilji til að ganga frekar í átt til jöfnunar en orðið er og við búum við nú.

    Það skal vissulega viðurkennt að Póstur og sími hefur að mínu mati staðið sig býsna vel eins og fram kemur í greinargerð með frv. og auðvitað notið handleiðslu áhugasamra samgönguráðherra eins og fyrrv. hæstv. samgrh., Steingríms J. Sigfússonar, og fleiri reyndar sem hafa haft áhuga á að jafna á þessu sviði. Ég vil því nota tækifærið og koma því á framfæri að mér finnst Póstur og sími hafa staðið sig nokkuð vel í að framfylgja þeirri stefnu sem honum hefur verið falið að framfylgja á hverjum tíma. Ég spyr í tilefni af því að nýlega hefur verið lagt fram fjárlagafrv.: Hver er stefna núv. ríkisstjórnar í þessum málum? Eru það áform núverandi stjórnarflokka að auka jöfnuðinn eða draga úr honum á þessu sviði?
    Það liggur fyrir í fjárlagafrv., miðað við þá greinargerð sem þar er, að greinileg eru áform um að auka mismuninn í orkunotkun, kostnaði við hitun húsnæðis. Það er ekki annað hægt að sjá úr þeim töflum sem þar eru birtar en uppi séu áform um að auka þennan mismun. Það er verulegur skaði að hæstv. iðnrh. skuli ekki sjá sér fært að vera viðstaddur þessa umræðu. Hann hefði vissulega getað lagt hér orð í belg og verið það ljós í því myrkri sem við erum hér í um stefnu núv. ríkisstjórnar í þessum málum. Við höfum ekki einu sinni kertaljós til að horfa á í hans stað. Ég vil því, virðulegi forseti, til að leita þó eftir einhverri afstöðu stjórnarliða í þessu máli, spyrja hv. þm. sem málið varðar, t.d. hv. 1. þm. Vesturl. eða hv. 5. þm. Austurl. eða hv. 3. þm. Vestf.: Er sú stefna, sem mörkuð er í fjárlagafrv. og þau áform sem uppi eru um aukna mismunun á þessu sviði, á sviði húshitunar, í samræmi við þeirra stefnu og er hún gerð með þeirra samþykki? Ég veit ekki annað en fjárlagafrv. sé lagt fram fyrirvaralaust af hálfu þessara þriggja þingmanna sem ég nefndi sem dæmi um þingmenn sem ég hefði búist við að hefðu allt aðrar áherslur en fram koma í fjárlagafrv.
    Ég tel, virðulegi forseti, ekki ástæðu til að orðlengja frekar um efni frv. Ég tel það mjög þarft og vil skora á hv. þingheim að afgreiða frv. hið snarasta í gegnum þing svo það megi sem fyrst verða að lögum, íbúum landsbyggðarinnar til hagsbóta.