Jöfnun verðlags

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 11:42:18 (1358)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom í ljós eins og mig grunaði að hv. 5. þm. Austurl. er sammála efni frv. Hitt fannst mér dálítið kostulegt að fylgjast með því hvernig hann fór í kringum fjárlagafrv. og þau áform sem þar eru eins og köttur í kringum heitan graut. Hann lét sig meira að segja hafa það að fagna því að það ætti að verja 80 millj. kr. til þess að greiða niður húshitun á köldu svæðunum. Hann gat ekki um hina hliðina sem eru áformin um að hætta að endurgreiða innskatt til hitaveitna og rafveitna sem hefur miklu meiri áhrif. Er hv. þm. ókunnugt um það að Samband ísl. hitaveitna hefur reiknað það út að þessi áform muni kosta hitaveitur innan þeirra sambands 540 millj. kr. og er þá ótalinn sá kostnaður sem rafveiturnar verða fyrir? Ég hef ekki tölur um það. Upp í allan þennan kostnað ætlar ríkisstjórnin að verja 80 millj. kr. og hv. 5. þm. Austurl. fagnar ákaflega. (Gripið fram í.) Já, minnstu nú ekki á það ógrátandi, virðulegi þingmaður.
    Ég vil benda hv. þm. á það líka að samkvæmt útreikningum stjórnar Orkubús Vestfjarða er minnsta möguleg hækkun sem menn geta fundið út 20%. Rafveita Vestmannaeyja hefur reiknað út að þeir þurfi að hækka hitataxtana hjá sér um 14--20%. Ef það ætti að eyða áhrifum af þessum breytingum hjá Orkubúi Vestfjarða að fullu þyrfti allt að 70 millj. kr. --- 70 millj. kr. af þessum 80 millj. Það yrði lítið eftir fyrir köldu svæðin á Austurlandi, virðulegi forseti, ég er hræddur um að kjósendur hv. 5. þm. Austurl. þættu reikningarnir hækka dálítið mikið ef fyrst yrði jafnað vestur á fjörðum og afganginum síðan skilað til Austurlands til að jafna út hækkunina sem hann ætlar að standa að ásamt öðrum stjórnarliðum í fjárlagafrv.