Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 13:35:51 (1379)

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af því að til stóð að mæla fyrir þessu frv. tók ég saman fáeinar tölur um þróun framlaga til menntamála á Íslandi síðustu missiri. Ég skoðaði fjárlagafrv. fyrir árið 1993 þar sem mér sýnist að heildarframlög til menntamála séu 15 milljarðar kr. Mér sýnist að ríkisútgjöldin séu um 111 milljarðar kr. Framlögin til menntamála eru þannig 13,5% af ríkisútgjöldum sem er lægsta hlutfall sem verið hefur frá árinu 1986. Sem sagt, við þurfum að fara sex til sjö ár aftur í tímann til þess að finna dæmi um jafnlítil framlög til menntamála og gert er ráð fyrir á árinu 1993.
    Þjóðarframleiðslan er talin verða, þ.e. verg landsframleiðsla á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv., um 390 milljarðar kr. Hlutfall menntamála af 390 milljörðum kr., 15 milljarðar, eru um 3,8% af vergri landsframleiðslu til menntamála á árinu 1993. Þar með erum við vissulega áfram fyrir ofan lægstu ríki OECD en aðeins rétt fyrir ofan þau. Við erum aðeins örfáum prósentubrotum fyrir ofan Tyrkland og Grikkland. Þetta er niðurstaðan af þeirri menntamálastefnu sem er verið að reka í landinu um þessar mundir. Gallinn er auðvitað sá að afleiðingarnar af þessum niðurskurði til menntamála munu því miður ekki birtast strax. Þær munu aðallega sjást eftir nokkur ár, eftir fimm ár eða tíu ár eða fimmtán ár, vegna þess að þessi niðurskurður til menntamála mun birtast í lakari lífskjörum á Íslandi en annars þyrfti að vera. Það er almennt viðurkennd staðreynd að niðurskurður til menntamála komi niður á lífskjörum þegar fram í sækir, einkum og sér í lagi í samanburði við aðrar þjóðir en grannþjóðir okkar verja allt að tvisvar sinnum hærra hlutfalli af þjóðartekjum til menntamála en gert er ráð fyrir að gera hér. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni, virðulegi forseti. Auðvitað er niðurskurðurinn á Lánasjóði íslenskra námsmanna mjög stór þáttur í þessu efni.
    Ég ætla í framsöguræðu minni fyrir þessu frv. sem við flytjum öll, þingmenn Alþb., að gera grein fyrir nokkrum atriðum.
    Í fyrsta lagi ætla ég að fara lauslega yfir meðferð málsins í vor.
    Í öðru lagi ætla ég að víkja sérstaklega í stuttu máli að hlut Alþfl.
    Í þriðja lagi ætla ég að rekja nokkur dæmi um það sem hefur breyst í útlánareglum sjóðsins eftir að Alþingi samþykkti lögin en það eru ótrúlegir hlutir sem stjórn lánasjóðsins hefur samþykkt eftir að Alþingi afgreiddi lögin fyrir sitt leyti þannig að í rauninni hlýtur Alþingi að velta því mjög fyrir sér hvort það voru ekki alvarleg mistök að ætla stjórn sjóðsins eins mikið vald og gert er ráð fyrir í lögunum eins og þau hljóða nú. Mér sýnist að stjórn sjóðsins eða meiri hluti hennar hafi verið í samfelldu stríði við íslenska námsmenn í stjórninni allan tímann frá því að lögin voru sett.
    Í fjórða lagi ætla ég að rekja afleiðingarnar af þessu almennt að svo miklu leyti sem þær liggja fyrir.
    Sl. vor urðu miklar sviptingar um þessi mál á Alþingi eins og hv. þm. þekkja. Þingmenn stjórnarandstöðunnar fluttu fjölmargar brtt., m.a. fluttu þeir tillögu um að það ætti að stuðla að jafnrétti til náms. Sú tillaga var felld. Flutt var tillaga um að það ætti að taka tillit til fjölskyldustærðar og félagslegrar stöðu námsmanna að öðru leyti. Tillögur okkar í þeim efnum voru líka felldar. Fluttar voru tillögur um að Iðnnemasamband Íslands mætti eiga aðild að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þær voru var felldar. Að allt þetta þrennt, sem ég hef nefnt, jafnrétti til náms, var fellt, tillit til fjölskyldustærðar, var fellt og aðild Iðnnemasambandsins, var fellt hefur núna á síðustu mánuðum birst íslenskum námsmönnum sem ískaldur veruleiki, m.a. iðnnemum þannig að nú er hætt að lána til grunnnáms, m.a. þannig að ekki er lengur lánað til náms við undirbúningsdeild Tækniskóla Íslands, m.a. þannig að þegar um er að ræða veikindi eða önnur hliðstæð vandamál námsmanna hefur stjórn lánasjóðsins meðhöndlað lögin af ótrúlegu hugarfari, miklum kulda, gagnvart því fólki sem stundar nám þannig að með ólíkindum er og bersýnilegt þess vegna að það að fella út orðið jafnrétti, það hefur verið litið á það sem stefnumótandi yfirlýsingu af hálfu meiri hluta stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að það ætti ekki að fylgja jafnréttisstefnu í ákvörðunum sjóðsins, eins og ég mun koma að í ræðu minni á eftir.
    Þegar þetta frv. var til meðferðar hér, virðulegi forseti, gerði formaður þingflokks Alþfl. ítarlega grein fyrir máli sínu við atkvæðagreiðsluna með býsna eftirminnilegum hætti. Formaður þingflokks Alþfl. sagði að ef lögin mundu hafa miklar breytingar í för með sér þá mundi hann beita sér fyrir breytingum á lögunum. Ef lögin yrðu sérstaklega neikvæð fyrir námsmenn, ef námsmönnum mundi fækka eða eitthvað því um líkt gerast út af setningu laganna þá mundi hann beita sér fyrir breytingum í þessu efni. Og aðeins örfáum vikum, ég hygg tveimur til þremur vikum eftir að formaður þingflokks Alþfl. mælti þessu fleygu orð, var haldið flokksþing Alþfl., mjög frægt flokksþing, sem menn fylgdust með í fjölmiðlum. Þar var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða að beita sér fyrir breytingum á lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna þannig að eftirágreiðslureglurnar í 6. gr. yrðu afnumdar en í staðinn gætu námsmenn fengið lán jafnóðum eins og verið hafði um langt árabil. Og Alþfl. lét ekki hér við sitja heldur setti niður nefnd, sérstaka nefnd að mér skilst, á vegum þingflokksins þar sem formaður nefndarinnar mun vera hv. 7. þm. Norðurl. e., Sigbjörn Gunnarsson. Alþfl. hefur gefið það í skyn með afgerandi hætti í þrjú skipti að það beri að taka mark á honum í þessu efni. Formaður þingflokksins gefur yfirlýsingu, Alþýðuflokksþingið gerir sérstaka samþykkt, þingflokkur Alþfl. setur niður sérstaka nefnd, þannig að það er auðvitað ástæða til að ætla það, virðulegi forseti, og ég vona að svo sé að eitthvað sé að marka það sem Alþfl. segir í þessum efnum, að hann muni taka þátt í að breyta lögunum og þá sérstaklega 6. gr. Það var með hliðsjón af því að við ákváðum í þingflokki Alþb. að flytja tillögu um breytingar á 6. gr. einni til að láta reyna á þennan pólitíska vilja Alþfl. alveg sérstaklega. Kanna hvort eitthvað sé að marka það sem Alþfl. segir í sínum yfirlýsingum eða nefndaskipunum. Þess vegna er það sem við takmörkum okkur við þessa einu grein þó að það sé auðvitað þannig að við séum fyrir okkar leyti tilbúin með frv. um Lánasjóð íslenskra námsmanna og heildarendurskoðun á þeim lögum. Ég teldi hins vegar skynsamlegt að kanna fyrst hvort hægt sé að fá þessu eina atriði, sem er í rauninni eitt það alversta í lögunum um lánasjóðinn, breytt. Þess vegna er það mjög mikilvægt, virðulegi forseti, um leið og ástæða er til að þakka fyrir að menntmrh. er viðstaddur, að í salnum er fulltrúi Alþfl. í menntmn. sem ég vona að eigi kost á því að taka þátt í þessum umræðum.
    Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, hafa ýmsar breytingar verið gerðar á reglunum um lánasjóðinn eftir að Alþingi samþykkti sín lög sl. vor. Fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur rakið þessar breytingar ítarlega á opinberum vettvangi. Hann hefur sagt að aðalafleiðingarnar séu sem hér segir:
    Í fyrsta lagi, segir hann: Stærsti hópurinn sem hættir námi --- en þegar liggur fyrir að fólki fækkar --- eru konur vegna þess að makinn er gjarnan í námi og þau treysta sér ekki til að fara í banka með alla upphæðina, eins og fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands orðar það, þau treysta sér ekki til að fara í banka með alla upphæðina og taka hana þar að láni. Þau hafa heldur varla ábyrgðarmenn til að skrifa upp á alla þessa tölu. Þetta er niðurstaða hans númer eitt, það eru konur sem eru að hætta námi.
    Við erum með öðrum orðum að stíga aftur í gamla kerfið þar sem stúlkurnar unnu fyrir strákunum meðan þeir voru í námi og síðan fór það svo að þær áttu oft mjög erfitt með að komast nám síðar þó þær gjarnan vildu af því að fjölskylda þeirra var búin að vefja sig fasta í skuldir vegna húsnæðis og af fleiri ástæðum.
    Í öðru lagi segir fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands í stjórn LÍN: Einstæðar mæður leggja ekki í háskólanám þar sem þær treysta sér ekki í banka með sína framfærslu. Þær treysta sér ekki til að sækja þetta lán í bankana. Þær vilja ekki hætta vinnu, segir hann, og fara í nám til þess að standa svo uppi atvinnulausar ef þær ber upp á sker í náminu. Ef það t.d. gerist að barnið þeirra eða börnin veikjast meðan þær eru í prófum þá missa þær lánsrétt nema þær hafi lokið meira en helmingi þeirra prófa í prófalotunni sem þarf að ljúka til að ná fullri námsframvindu. Þær taka ekki þessa áhættu að sleppa kannski öruggri vinnu og fara í skóla. Þetta kalla ég til marks um það að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur litið svo á að úr því að Alþingi felldi út orðið jafnrétti þá bæri að túlka lögin með þessum hætti.
    Kona í námi sem er í miðjum prófum og hefur kannski lokið þremur til fimm einingum eða svo en þarf að ljúka fimmtán til að skila fullri námsframvindu, barnið veikist, hún getur fengið bætt við þetta samkvæmt áætlun 25% eða komið einingafjöldanum á skrá hjá sjóðnum upp í sex til sjö en það dugir ekki og hún fær ekkert lán.
    Ung efnalítil stúlka sem ætlar í nám við þessar aðstæður og hefur fasta vinnu hún fer ekki í nám því það er of mikil áhætta fyrir hana og barnið hennar. Þetta eru afrekin sem stjórn lánasjóðsins ber m.a. ábyrgð á.
    Í þriðja lagi segir fulltrúi SHÍ í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna: Fólk af báðum kynjum sem ætlar að fara í framhaldsnám, hefur t.d. lokið BA-prófi, hættir við að fara í framhaldsnám. Við þekkjum mörg dæmi um þetta. Ég geri ráð fyrir því að við öll hér í salnum þekkjum fjöldamörg dæmi um einstaklinga, bæði karla og konur, sem hafa hætt við að fara í framhaldsnám vegna þeirra breytinga sem hér hafa verið gerðar.
    Ég ætla síðan, virðulegi forseti, til að sanna það með beinum hætti hvað lánasjóðsstjórnin hefur beitt miklu gerræði gagnvart námsmönnum að nefna 13 dæmi um breytingar á reglum lánasjóðsins sem stjórn sjóðsins hefur beitt sér fyrir. Ég ætla ekki að nefna dæmi um einstaklinga sem ég hef tugum saman í fórum mínum. Ég ætla ekki að gera það. Ég ætla ekki að nefna dæmi um hvernig vafamálanefnd lánasjóðsins hefur afgreitt mál af ótrúlegu skilningsleysi. Ég ætla ekki að fara út í það vegna þess að þar er um að ræða persónulega hluti. Ég ætla bara að nefna 13 dæmi um afgreiðslu stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna til þess að sanna mál mitt.
    1. Stjórn lánasjóðsins setur þá reglu að ef barn námsmanns veikist í prófum megi bæta við 25% vegna þess að veikindin eiga sér stað. Niðurstaðan af þessu er sú að ef námsmaður hefur lokið 6 einingum þegar barnið veikist getur einingafjöldinn farið upp í 7 eða 8 einingar en samt missir námsmaðurinn lánsrétt og getur raunar ekki haldið áfram námi á lánum frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Hann þarf þá að skríða til bankakerfisins til þess að biðja um framhald og hafa ábyrgðarmann til þess að skrifa upp á sig.
    2. Segjum að það gerist að stúlka sé í miðjum prófum, verði léttari í prófum en hafi lokið tilteknum hluta prófanna. Segjum að hún hafi aðeins lokið rétt innan við helmingi prófanna, 6 einingum af 15 ef hún er í BA-námi. Hún missir lánsrétt. Og það er engar undanþágureglur í þessum skrautprentuðu ritum lánasjóðsstjórnarinnar frá þessu.
    3. Auðvitað er talsvert um það, svo að ég nefni eitt dæmi enn, að námsmenn eru með meðlagsskyld börn en ekki beint á sínu framfæri. Niðurstaða núverandi stjórnar sjóðsins er sú að námsmaðurinn fær ekki meðlagsgreiðslurnar metnar inn í lánsfjárþörfina. Niðurstaða: Menn hætta námi. A.m.k. veit ég um eitt dæmi þess.
    4. Þegar lánasjóðnum er sagt að 9 einingar á önn séu taldar fullt nám í mastersnámi í Bandaríkjunum, þá segir lánasjóðurinn allt annað af því að hann veit auðvitað mikið betur. Lánasjóðurinn segir að það sé mögulegt að taka 12 einingar og því séu 9 einingar aðeins 75% námsframvinda. Fram til þessa hefur sjóðurinn verið sammála skólunum um að hæfilegur tími til að ljúka mastersnámi sé tvö ár. Nú styttir Lánasjóður ísl. námsmanna námið hjá sér í háskólum í Bandaríkjunum eins og þeir leggja sig. Miklir menn erum vér, Hrólfur minn. Lánasjóðsstjórnin styttir námið um hálft ár og afleiðingarnar: Fólk siglir í strand og hættir nema það eigi að ábyrgðarmenn sem eru tilbúnir til þess að skrifa upp á mismuninn í bankakerfinu.
    5. Frestir sem settir eru til að sækja um lán eru túlkaðir svo strangt af stjórn sjóðsins að tugir manna hafa misst lánsrétt fyrir þessa önn af þeim ástæðum.
    6. Undirbúningsnám iðnnáms, grunndeildir málmiðnaðarins, byggingariðnaðarins, er strikað út og undirbúningsdeildir í Tækniskólanum og Samvinnuháskólanum eru strikaðar út. Niðurstaða: Grunninum að þessum skólum og þessari tegund menntunar er kippt undan fólki. Tækniskólinn t.d. er mjög þýðingarmikill skóli einmitt fyrir iðnaðarmenn þar sem fólk er kannski komið nokkuð yfir tvítugt og hefur verið úti á vinnumarkaði um skeið. Aðgangur að þessum skóla verður miklu efiðari en ella.
    7. Ég nefni hvernig staðið hefur verið að málum gagnvart bönkunum, sem menn eru þó að hrósa sér af, þar sem niðurstaðan er sú að námsmenn eru að borga 13,5--14% vexti á sama tíma og verðbólga er talin 2%. Þessi sérstöku vildarkjör bankanna sem menntmrh. var að tala um í vor eru 12% raunvextir á námstímanum hjá þessu fólki.
    8. Ég nefni þá staðreynd að þegar um er að ræða svokallað launað nám erlendis, sem snertir aðallega lækna í framhaldsnámi, missa þeir algerlega lánsrétt þegar þeir fá 50--60 þús. kr. á mánuði þó þeir séu með fjölskyldu. Þetta hefur orðið til þess að sumir þessara manna hafa ákveðið að nota ekki réttinn til launa úti til þess að geta fengið lán út á sig og fjölskyldu sína. Það lítur líka hlálega út að ekki sé meira sagt. Þegar hlið við hlið eru Íslendingar þar sem annar stundar framhaldsnám í læknisfræði og gæti átt rétt á launum en hinn í líffræði og á ekki rétt á neinum launum, þá lítur þetta náttúrlega fáránlega út frá sjónarmiðum þessara aðila.
    9. Til marks um hvernig haldið hefur verið á málum af hálfu stjórnar lánasjóðsins ætla ég að skýra frá því að stjórn Iðnnemasambands Íslands, en Iðnnemasambandið er ekki lengur í Bandalagi ísl. sérskólanema með sama hætti og áður var, fór fram á það að fá áheyrnarfulltrúa í LÍN. Iðnnemasambandið taldi

að það hefði alla ástæðu til að ætla að menntmrh. væri hlynntur þessu. Ég man ekki hvort hann sendi eitthvað frá sér opinberlega um þetta mál. Stjórn INSÍ skrifaði lánasjóðnum fyrir tveimur mánuðum og bréfið hefur ekki fengist tekið fyrir í stjórn lánasjóðsins þannig að Iðnnemasamband Íslands veit ekki enn hvort það getur átt nokkra aðild að þessum málum.
  10. Ég nefni þá staðreynd að með því að hætta að lána til skólagjalda í grunnháskólanámi er verið að útiloka fólk frá svokölluðu grunnháskólanámi í Bretlandi og Bandaríkjunum og yfirleitt í engilsaxnesku löndunum. Með þessu er verið að þrengja möguleika íslenskra námsmanna og þar með íslensku þjóðarinnar á því að ná til þeirrar þekkingar sem þarna getur verið um að ræða. Fólk getur að vísu fengið lán en það eru lán á markaðskjörum til 10 ára og 10 ára frá þeim tíma þegar lánið er tekið, ekki þegar náminu lýkur heldur frá þeim tíma þegar lánið er tekið.
  11. Þá tel ég, virðulegi forseti, að í vinnubrögðum stjórnar lánasjóðsins birtist óvenjuleg lítilsvirðing við allt sem heitir listnám. Staðreyndin er auðvitað sú að listmám t.d. í tónlist, söng sérstaklega, verður ekki stundað nema í einkaskólum þar sem eru skólagjöld. Það er verið að segja við alla þá sem ætla að stunda söngnám á háskólastigi erlendis þar sem eru skólagjöld: Þið getið ekki fengið almenn námslán í þessu skyni heldur aðeins 10 ára lán á markaðsvöxtum. Hvað á þetta að þýða? Og það birtist einnig sem aðför að listnámi að mínu mati þegar fellt er niður lán, eins og stendur víst til að gera, til undirbúnings náms í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Það var rætt um það sl. sumar að fella þau lán niður. Það var ekki gert heldur var því frestað um eitt ár en það var orðað nákvæmlega svona: Því er frestað um eitt ár. Hvaða áhrif hafði þetta? Í staðinn fyrir 130--160 umsækjendur um undirbúningsnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands sóttu hvað margir? 60. Það hefur orðið hrun í þessum hópi, svo ég noti orð Bjarna Daníelssonar skólastjóra í samtali við mig núna rétta áðan.
  12. Þetta kemur líka fram í því sem ég nefni hér, virðulegi forseti, en það er sú staðreynd að það er búið að lækka lán vegna bókakaupa um helming, þ.e. úr 60% af mánaðarframfærslu í 30% af mánaðarframfærslu. En nú er ekki lánað til efniskaupa og það er auðvitað sérstaklega bagalegt í listnámi á háskólastigi, einkum og sér í lagi í myndlist. Það er hrapallegt að menn skuli hafa umgegnist þessa hluti með þessum hætti.
  13. Ég ætla að nefna eitt dæmi enn. Stjórn sjóðsins, svo mögur sem hún er í afgreiðslum á íslenskum stúdentum erlendis eða fólki sem er í listnámi erlendis, er rausnarleg þegar kemur að einkaskólum á Íslandi því að hún hefur ákveðið að veita námslán á tölvubrautir í einkaskólum en hefur hafnað því að veita námslán á tölvubrautir í framhaldsskólum.
    Hér hef ég, virðulegi forseti, nefnt 13 dæmi til marks um það að ég er algerlega sannfærður um að þó að einstakir þingmenn hafi afgreitt hlutina frá sér með tilteknum hætti og gert ráð fyrir því að þar með yrðu þeir svo, þá hefur stjórn sjóðsins og meiri hluti hennar í raun og veru afgreitt þetta með þeim hætti að ég segi fyrir mig af því að ég þekki þingmenn ágætlega sem einstaklinga: Ég trúi því ekki að þeir hafi vitað um þessi vinnubrögð. Ég er sannfærður um að þeir hafa yfirleitt ekki vitað um þau og ég efast um að hæstv. menntmrh. hafi í öllum tilvikum vitað um þessi vinnubrögð.
    Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að það sé óhjákvæmilegt að það verði kannað sérstaklega og rannsakað hvernig stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur unnið, farið ofan í afgreiðslur hennar á einstökum málum lið fyrir lið því að þessi dæmi sem ég hef nefnt eru alveg nægileg sem sönnunarefni um að það er ekki hægt að treysta því að þarna sé með sanngjörnum hætti haldið á málum.
    Niðurstaðan af þessu, virðulegi forseti, hefur svo öll orðið sú sem nú liggur fyrir. Námsmönnum er að fækka. 1990--1991 voru 5.342 einstaklingar á nemendaskrá Háskóla Íslands. Þeir eru núna 5.059. Þeim hefur fækkað um 5%. Skólaárið 1990--1991 voru 2.700 foreldrar í námi og fengu lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna, en eru núna 1.966. Þeim hefur fækkað um 27%. Þetta eru auðvitað fyrst og fremst konurnar. Samtals voru þá hjá lánasjóðnum 8.042 en eru núna 7.025, fækkun 1.023, það er ekki lítið, eða um 12,7%. Með öðrum orðum hefur þeim sem skipta við lánasjóðinn fækkað um 12,7%. Til þess voru kannski refirnir skornir. Það var kannski það sem stóð alltaf til.
    En hefur þá framlagið líka lækkað um 12,7%, virðulegi forseti? Hefur það lækkað um 12%? Nei. Frá 1990--1991 til 1992--1993, á sama tímabili og nemendunum sem taka lán hefur fækkað um 12,7%, hefur framlagið á sambærilegu verðlagi lækkað um 35,4%. Framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna samkvæmt fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir er 1.710 millj. kr. Hafa heildarlánin sem gert var ráð fyrir lækkað um 12,7% eins og fólkinu hefur fækkað? Nei. Heildarlánveitingar hafa ekki lækkað um 12,7% heldur 28,8% á sama tíma. Það er þess vegna ekki nóg með að það hafi verið settar reglur sem skera af námsmenn í stórum stíl upp á 1.000 manns heldur er líka það sem þetta fólk fær í hendurnar miklu minna en áður var.
    Ég hef stundum sagt að námsmenn hafi orðið fyrir harðari árásum af þessari ríkisstjórn en nokkur annar hópur hlutfallslega. Ég stend við það. Ég tel mig hafa sýnt fram á það í ræðu minni að námsmenn hafi ekki aðeins orðið fyrir skerðingu sem nemur falli þjóðartekna og kaupmáttar launa, nei. Hrunið í lífskjörum námsmanna er miklu meira og það alvarlega í málinu er svo auðvitað það, virðulegi forseti, að þessar alvarlegu staðreyndir munu ekki birtast okkur sem þjóð, sem heild, fyrr en eftir mörg ár. Menntunin er undirstaða góðra lífskjara í þróuðu þjóðfélagi. Og þegar verið er að brjóta menntunina á bak aftur þýðir það ósköp einfaldlega að það verður færra fólk og lakari árangur í rannsóknum, vísindum og þróunarstarfsemi komandi ára og áratuga. Menn verða því ekki dæmdir fyrir þennan niðurskurð í kosningunum 1995 því að það sést ekki þá en það sést kannski 1999 og 2003. Það er verið að brjóta niður lífskjaragrunn Íslendinga til næstu aldar. Sama fólkið og núna geysist um héruð reynandi að selja Íslendingum þann pakka að við munum leysa allan vanda með því að verða aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Ég ætla ekki að fara út í þau mál hér en ég segi alveg eins og er. Ef það er svo að Evrópskt efnahagssvæði skili einhverjum árangri, þá er verið að strika hann allan út með þessu.
    Hæstv. menntmrh. hefur ákveðið að beita sér fyrir sérstakri rannsókn á stöðu rannsókna-, vísinda- og þróunarstarfsemi hér á landi. Hingað koma útlendir aðilar í þessum mánuði og munu halda sérstaka ráðstefnu um þau mál á lokastigi sinnar vinnu. Það verður haldinn fundur, ég hygg á vegum Rannsóknaráðs ríkisins og Vísindaráðs 30. okt. nk., ef ég man rétt. Ég hlakka til að fá tækifæri til að vera þar og fylgjast með umræðum. En ég er alveg sannfærður um það eftir að hafa fylgst með umræðum um menntamál, vísindi og framlög til vísinda á undanförnum árum, bæði hér og erlendis, að sú staðreynd að við erum komnir niður að Grikklandi og Tyrklandi mun ekki auðvelda það verk sem menn ætla sér að vinna í rannsóknum, vísindum og þróun.
    Ég sé ekki betur, virðulegi forseti, en með þessari heildarstefnu í menntamálum, sem ég hef hér aðeins tæpt á, sé verið að þrengja okkur niður á lífskjarastig Tyrklands og Grikklands. Vilja menn það? Ég er sannfærður um að hv. Alþingi vill það ekki.
    Í trausti þess að undirtektir verði góðar við þetta mál, með hliðsjón af yfirlýsingum Alþfl., með hliðsjón af því að ég er viss um að einstakir þingmenn vita ekki hvernig farið hefur verið með þeirra mál í stjórn lánasjóðsins, með hliðsjón af því öllu treysti ég því að þessu máli verði vel tekið. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.