Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 14:17:25 (1384)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mun, eins og hv. 1. flm. þessa frv., rifja upp nokkur atriði varðandi lánasjóðsmálið. Margt af því ræddum við auðvitað á síðasta þingi þegar það frv., sem varð að lögum þá, var hér til umræðu. Af eðlilegum ástæðum verður mín upprifjun með nokkuð öðrum hætti en hv. 1. flm. sem talaði áðan.
    Mér virðist það vera einkum tvennt sem ráði flutningi þessa frv. Í fyrsta lagi er það sjálfsagt þörfin fyrir að standa við stóru orðin frá því á síðasta þingi, frá umræðunni um lánasjóðinn þá. Í öðru lagi sýnist mér að það sé þörfin fyrir að ögra formanni þingflokks Alþfl. eins og fram kemur í grg. með frv. Ef hann væri hér staddur væri hann vafalaust fær um að svara fyrir sig. Í grg. er vitnað í það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi lýst því yfir við afgreiðslu frv. að hann mundi beita sér fyrir breytingum á 6. gr. ef hún hefði þau áhrif í framkvæmd að námsmönnum fækkaði, eins og segir í grg. Hér er ranglega vitnað í ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar við afgreiðslu frv. Hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég ítreka það hins vegar að leiði reynslan í ljós að 6. gr. hindri menn í að stunda nám sitt með eðlilegum hætti, þá áskil ég mér allan rétt til að eiga þátt að breytingum á því ákvæði í framtíðinni.``
    Þetta voru orð þingflokksformannsins.
    Nú er það svo að fækkun námsmanna er ekki mælikvarði á það hvort eitthvert eitt atriði hindri þá í að stunda nám sitt með eðlilegum hætti og mjög hæpið er að halda því fram að nú þegar sé komin reynsla á það hver áhrif 6. gr. hefur í framkvæmd. Í grg. með frv. er því haldið fram að námsmönnum hafi þegar fækkað að því er verður skilið vegna nýrra laga og reglna um LÍN. Það hefur hins vegar víða komið fram í fjölmiðlum að í raun sé ógerningur að svo stöddu að meta nákvæmlega hvernig þróun fjölda lánþega LÍN muni verða milli skólaársins 1991--1992 og þess skólaárs sem nú er nýhafið. Í ár giltu aðrar reglur um umsækjendur en á síðasta ári. Í fyrra var litið svo á að fólk sem var í námi næsta skólaár á undan væri sjálfkrafa umsækjendur. Nú í ár var þessu breytt þannig að allir þurfa að sækja um lán. Ekki er sjálfkrafa litið á þá sem nutu lána á síðasta skólaári sem umsækjendur. Með þessu móti er mun hægara um vik fyrir lánasjóðinn að áætla fjölda lántakenda en áður var. Af þessum sökum er alls ekki hægt að álykta á grundvelli fjölda umsækjenda í ár, eins og gert hefur verið, um fækkun fólks í námi eða fækkun einstakra hópa miðað við fjölskylduaðstæður. Þetta verður líkast til fyrst hægt að gera með sæmilegri nákvæmni eftir næstu áramót.
    Á hinn bóginn er ljóst að gífurleg fjölgun lánþega varð hjá sjóðnum á tímabilinu 1988--1991 eða um 40% í námi hér á landi. Þá fjölgaði foreldrum hlutfallslega meira en einstaklingum sem fengu aðstoð sjóðsins. Búist var við að draga mundi úr þessari bylgju alveg án tillits til breytinga á reglum. Þetta hefur gerst og nú eru vísbendingar um að hlutfall foreldra og einstaklinga sé svipað og það var áður en þessi mikla fjölgun átti sér stað eða um 30% foreldrar og 70% einstaklingar. Það eru því lítil efni til þess að draga þær ályktanir sem flm. og forustumenn námsmanna hafa gert af þróun lánþegafjölda hjá lánasjóðnum.
    Það er með öllu ótímabært að breyta lögum sem sett voru á síðasta vori um Lánasjóð ísl. námsmanna eins og hér er lagt til. Þau voru sett vegna hins gífurlega vanda sem blasti við sjóðnum sem ekki

síst stafaði af ábyrgðarleysi þeirra sem áttu að gæta hagsmuna hans síðustu árin. Lögunum var breytt til að koma í veg fyrir gjaldþrot sjóðsins. Fyrrv. menntmrh. og 1. flm. þessa frv. sem við erum hér að ræða ákvað með reglugerð að hækka námslán um nálægt 20% fram yfir verðlagsbreytingar á árunum 1989--1990. Þetta þýddi 750 millj. kr. aukin árleg útgjöld fyrir sjóðinn á núverandi verðlagi. Á sama tíma ákvað þáv. fjmrh. svo og þeir þingmenn, sem studdu þáv. ríkisstjórn, að lækka framlög til sjóðsins um 660 millj. kr. á milli áranna 1990 og 1991. Það er nauðsynlegt að rifja þetta upp.
    Á sama tíma og námslán voru hækkuð umfram verðlag um nær 20% rýrnaði kaupmáttur fólks á almennum vinnumarkaði svo um munaði. Þannig var kaupmáttur ráðstöfunartekna um 13% lakari árið 1991 en hann var 1988. Þarna varð því á skömmum tíma stórkostleg röskun á kjörum fólks á almennum vinnumarkaði samanborið við þá sem höfðu námslán sér til framfæris. Til að mæta hækkun námslána og lækkun ríkisframlags til LÍN voru slegin lán. Á árinu 1991 jukust þessar lántökur um 1.560 millj. kr. Þessi lán eru tekin til skamms tíma og þau eru nú orðin svo þung byrði á sjóðnum að afborganir og vextir af þeim einum saman stórauka fjárþörf hans árlega á næstu árum ef ekkert verður að gert.
    Þessar aðgerðir fyrrv. menntmrh. og mikil fjölgun lánþega í kjölfarið gerðu það að verkum að námsaðstoð jókst úr rúmlega 2.900 millj. kr. árið 1989 og stefndi í 4.500 millj. á föstu verðlagi árið 1991 ef óbreyttar úthlutunarreglur hefðu gilt allt það ár. Hækkun námslána var að raungildi um það bil 1.600 millj. kr. eða rúmlega 50% á tveimur árum. Á sama tíma lækkuðu fjárveitingar til sjóðsins, eins og ég sagði áðan, um 660 millj. kr. Þetta var vandinn sem sjóðurinn stóð frammi fyrir og við þessar aðstæður hafði ég og stjórn LÍN engan annan kost en að taka í taumana til að forða lánasjóðnum frá þroti og reisa fjárhag hans við þannig að hann gæti áfram gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki fyrir námsmenn og raunar þjóðina alla.
    Úthlutunarreglum var breytt vorið 1991. Þær breytingar fólust fyrst og fremst í því að teknar voru til baka þær óraunhæfu hækkanir á lánum umfram verðlag sem ákveðnar höfðu verið. Þessar aðgerðir drógu úr fjárþörf sjóðsins um 250 millj. á árinu 1991 og að auki um það bil 750 millj. kr. á yfirstandandi ári. Lögum um LÍN var síðan breytt eins og hv. þm. er kunnugt. Nýju lögin treysta fjárhag sjóðsins verulega til frambúðar. Með nýjum úthlutunarreglum fyrir skólaárið 1992--1993 var svo enn dregið úr fjárþörf sjóðsins.
    Það er rétt að gera sér grein fyrir því hverju var breytt með nýjum lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna þótt reyndar hafi farið fram viðamikil umræða um það mál á síðasta þingi. Með nýjum lögum um LÍN var fyrst og fremst leitast við að treysa fjárhagslegan grundvöll sjóðsins til frambúðar og leggja þannig grunn að því að hann geti starfað áfram og gegnt hlutverki sínu. Það má öllum vera ljóst að gjaldþrota lánasjóður tryggir engum jafnrétti til náms. Þetta var gert með því að setja í lögin ákvæði um lága vexti á námslán og auka endurgreiðslu til sjóðsins frá því sem áður var. Þá var gert ráð fyrir því að námsmenn fengju ekki lán fyrr en eftir þeir hefðu sýnt fram á námsframvindu á hverju missiri eða önn. Þessi síðasttalda breyting varð, eins og kunnugt er, aðalatriði gagnrýni hér á hinu háa Alþingi. Í raun er það meginefni þess frv. alþýðubandalagsmanna sem hér er til umræðu, að afnema ákvæði nýsettra laga um þetta efni.
    Á það hefur margoft verið bent að þetta ákvæði laganna er beinlínis forsenda þess að þeir, sem stunda nám sitt af alúð og skila eðlilegum afköstum í námi, fái eftir sem áður fullt framfærslulán þrátt fyrir sparnaðaraðgerðir. Það er kjarni málsins að því er varðar þessa breytingu á lögunum.
    Ég tel rétt að árétta, þótt mikið hafi verið rætt um þetta atriði í umræðum um frumvarpið um LÍN á síðasta þingi, að með þessu ákvæði um að námslán greiðist eingöngu eftir að árangur liggur fyrir er gert kleift að tengja upphæð námslána afköstum í námi þannig að maður sem lýkur t.d. 75% afköstum fái í samræmi við það 75% af fullu láni. Þannig er í raun krafist 100% námsframvindu til þess að fullt lán sé veitt. Með þessum hætti er dregið verulega úr fjárþörf LÍN og þannig er hægt að forðast að sá niðurskurður, sem ákveðinn hefur verið á heildarframlögum til námsaðstoðar, bitni á mikilvægustu sérkennum íslensks námslánakerfis. Þar er án efa einna mikilvægast ríkt fjölskyldutillit. Þá er einnig sneitt hjá því að sparnaðaraðgerðir komi niður á því fólki sem stundar nám sitt og skilar eðlilegri námsframvindu samkvæmt skipulagi skóla. Þetta ákvæði nýju laganna er einnig forsenda fyrir því að hægt er að sníða ýmsa afar slæma galla af fyrri reglum sjóðsins. Þar má nefna að námsmenn sem skila ekki upplýsingum um námsárangur eða fullnægja ekki skilyrðum sjóðsins um námsafköst fá einfaldlega ekki lengur lán. Vonast er til þess að ofgreiðslulán verði úr sögunni eftir þessar breytingar. Einnig er vonast til þess að komið verði í veg fyrir að fólki verði synjað um aðstoð sjóðsins vegna ófullnægjandi námsárangurs ef það hyggur á nám eftir nokkurt hlé.
    Því miður hefur það verið of algengt að fólk hefur fengið námslán vegna missiris eða skólaárs, hætt við svo búið í námi og ekki lokið tilskildum árangri. Óski þetta fólk eftir aðstoð LÍN eftir nokkur ár, þegar það hefur hug á að hefja nám að nýju, hafa reglur sjóðsins verið þannig að því er synjað um lán þar til ströngum skilyrðum er fullnægt. Slíkum bakreikningum verður ekki til að dreifa þegar fólk þarf að skila árangri áður en námslán er greitt út.
    Ég vék að því áðan að með úthlutunarreglum fyrir skólaárið 1992--1993 hefur verið dregið úr fjárþörf sjóðsins. Það munu vera um 500 millj. kr. Þetta var nauðsynlegt til að ná endum saman í fjármálum LÍN á næsta ári. Í raun hafði stjórn sjóðsins tvo kosti í þessum efnum. Annar var að skerða öll námslán þar á meðal almenna grunnframfærslu. Láta mun nærri að skerða þyrfti framfærslulán til námsmanna

um 17--18% ef þessi leið hefði verið farin til að ná fjárþörf sjóðsins á næsta skólaári niður í 3.400 millj. kr., en það er sú upphæð sem ætlað er að verja til námsaðstoðar samkvæmt fjárlagafrv. Hinn kosturinn var að grípa til betri nýtingar fjármagns fyrst og fremst með kröfum um eðlilega námsframvindu og að auka festu í framkvæmd lánveitinga, draga úr aukalánum o.s.frv. Eins og kunnugt er ákvað stjórn LÍN að velja síðari kostinn. Sú ákvörðun var ekki síst byggð á því að með þeim breytingum væri hægt að komast hjá því að hrófla við meginundirstöðum námslánakerfis okkar. Breytingar á úthlutunarreglum sem samþykktar voru af stjórn sjóðsins í byrjun sumars fólu m.a. í sér breyttar kröfur um námsframvindu, lækkun lána vegna bókakaupa, breytingu á ferðastyrkjum í ferðalán og lækkun barnastuðla. Þær fólu í sér minni fjárþörf sjóðsins en ella. Á hinn bóginn var frítekjumark hækkað til að auðvelda námsmönnum að afla meiri tekna til fjármögnunar á haustlánum sínum. Að auki er gert ráð fyrir að hækka lán til að vega upp á móti vaxtakostnaði vegna breytinga á útgreiðslu lána.
    Það er rétt að geta þess að stjórn LÍN hefur á margvíslegan hátt leitast við að auðvelda námsmönnum þá breytingu sem verður á útgreiðslutíma námslána. Meðal þess sem stjórnin hefur samþykkt er að lán vegna skólagjalda þeirra sem stunda nám erlendis verða greidd fyrir fram á svipuðum tíma og tíðkast hefur. Þetta veldur því að skólagjöld að upphæð um 200 millj. kr. greiðast nú strax í haust. Þeir námsmenn sem höfðu fengið staðfesta skólavist í grunnháskólanámi eða sérnámi erlendis fyrir 3. júní sl., þegar úthlutunarreglur fyrir skólaárið 1992--1993 voru gefnar út, fá lán vegna skólagjalda í samræmi við reglur sem giltu á síðasta ári. Ferðalán til þeirra sem stunda nám erlendis verða greidd strax og þeir hafa lagt fram gögn um ferðir sínar og fjölskyldu. Bókalán verða greidd í einu lagi við fyrstu útborgun framfærsluláns til námsmanna.
    Í kjölfar viðræðna stjórnarmanna LÍN við forráðamenn banka og sparisjóða um breyttan útborgunartíma lána úr sjóðnum hafa lánastofnanir keppst við að bjóða námsmönnum aukna þjónustu. Því er ljóst að námsmenn sem svo kjósa geta fengið fyrirgreiðslu hjá bönkum og sparisjóðum á auðveldan hátt. Sérstöku álagi verður bætt ofan á námslánin vegna þess að þau greiðast nú að meðaltali tveimur til fjórum mánuðum síðar en áður. Þetta álag er miðað við 9% raunvexti á ári og bætist við lán allra námsmanna án tillits til þess hvort þeir taka lán eða ekki. Talið er að þetta hækki námslán samtals um 50 millj. kr. á næsta skólaári.
    Ábyrgðarmönnum er gefinn kostur á að taka sjálfskuldarábyrgð á takmarkaðri upphæð námslána. Þetta auðveldar námsmönnum að ganga frá ábyrgðum fyrir lánum sínum og að gefa út eitt skuldabréf fyrir lánum sem þeir hyggjast taka það sem eftir er námsferils þeirra.
    Það hefur verið haft á orði að með nýjum lögum um LÍN hafi verið afnumið jafnrétti til náms á Íslandi. Sem betur fer er hér um algjöra sleggjudóma að ræða. Hv. þm. Svavar Gestsson gerði að umtalsefni að felld hefði verið tillaga eða fellt hefði verið brott úr lögum orðið ,,jafnrétti`` til náms. Það er rétt að tillagan var felld, en þetta orð hefur aldrei staðið í lögum. Það stóð ekki í fyrri lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Eftir gildistöku nýrra laga eru námslán hér á landi eftir sem áður mjög hagstæð. Ég vek athygli á því að þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar voru telur Hagfræðistofnun Háskólans að í raun séu 54% af námslánum styrkur úr ríkissjóði vegna lágra vaxta, óhjákvæmilegra affalla af lánum og hagstæðra lánskjara jafnvel þótt þau endurgreiðist nú fyrr en áður.
    Þegar litið er til þess að höfuðmarkmið Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að stuðla að jafnrétti til náms án tillits til efnahags, er rétt að hafa í huga að áfram er stuðlað að jafnrétti með veitingu námslána samkvæmt hinum nýju lögum. Námlán bera nú 1% vexti en til samanburðar má nefna að 6--8% raunvextir eru á námslánum í öðrum ríkjum Norðurlanda.
    Annað árið í röð er dregið úr skerðingu lána vegna tekna námsmanna og maka þeirra. Á skólaárinu 1990--1991 urðu námsmenn að sæta því að tekjur þeirra sjálfra og maka þeirra sem fóru fram yfir frítekjumark sjóðsins leiddu sjálfkrafa til skerðingar á námslánum sem nam 75% af umframtekjum. Þessi skerðing var minnkuð í 50% á síðasta ári og í úthlutunarreglum fyrir árið 1992--1993 er gert ráð fyrir verulegri hækkun frítekjumarks en með því er átt við að tekjur megi vera mun meiri en áður án þess að til skerðingar námslána komi. Námsmenn eru þannig hvattir til að afla eigin tekna og takmarka lántökur sínar.
    Með markvissum aðhalds- og sparnaðaraðgerðum hefur tekist að treysta í sessi sérstöðu íslensks námslánakerfis. Sú sérstaða felst í miklu félagslegu tilliti, einkum fjölskyldutilliti. Á þessu sviði hafa Íslendingar algjöra sérstöðu t.d. meðal Norðurlandaþjóða. Þegar þetta er skoðað kemur í ljós að sem betur fer er það svo að jafn réttur íslenskra námsmanna til náms án tillits til efnahags er tryggður og treystur með nýjum lögum og reglum um LÍN og enn þá hefur íslenskt námslánakerfi algjöra sérstöðu með félagslegt fjölskyldutillit.
    Það er raunar hafið yfir allan vafa að námsaðstoð við fjölskyldufólk á Íslandi er betri en gerist á Norðurlöndum og þar með yfirleitt í öðrum löndum enda alkunna að Norðurlandabúar standa þar fremstir í flokki meðal þjóða heims.
    Samkvæmt niðurstöðum starfsmanna LÍN sem aflað hafa upplýsinga um reglur sem gilda um námsaðstoð á Norðurlöndum, kemur í ljós að við Íslendingar erum í algjörum sérflokki á því sviði að styðja fjölskyldufólk til náms. Samkvæmt úthlutunarreglum skólaárið 1992--1993, eftir breytingar á reglum LÍN, á

íslenskur námsmaður með maka og tvö börn rétt á námslánum sem nemur 103 þús. kr. á mánuði. Sams konar fjölskylda í Finnlandi á rétt á lánum og styrkjum sem nema rúmlega 42 þús. kr., í Svíþjóð tæplega 64 þús. kr., í Noregi liðlega 73 þús. kr. og í Danmörku ríflega 43 þús. kr. Við erum því í algjörum sérflokki þegar kemur að stuðningi við fjölskyldufólk í námi.
    Menn hafa reynt að drepa þessum staðreyndum á dreif og gripið til þess ráðs að fullyrða að námsmenn fái mun meiri almenna félagslega aðstoð á Norðurlöndum en gerist hér á landi. Í því sambandi er þó þess að geta að íslenskir námsmenn fá sömu styrki frá opinberum aðilum á Norðurlöndum eins og þarlendir námsmenn. Það er þó e.t.v. ekki kjarni málsins svo mikill munur er á námsaðstoð við íslenskt fjölskyldufólk miðað við fjölskyldur á Norðurlöndum að félagslegir styrkir utan námsaðstoðarkerfis bæta þann mun engan veginn upp.
    Eins og ég sagði í upphafi virðist það frv. sem hér er til umræðu fyrst og fremst lagt fram til að standa við stóru orðin frá í fyrra og til að stríða þingflokksformanni Alþfl. Það er ótímabært að leggja til breytingar á lögum sem verið er að hefja framkvæmd á og röksemdafærsla hv. flm. byggir á misskilningi og forsendum sem engan veginn standast.