Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 15:42:33 (1402)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það er að verða sérkennileg háttvísi á hinu háa Alþingi að talað er um mál eins og málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna sem sérstakt áhugamál þingmannsins. Ég er að tala um Lánasjóð ísl. námsmanna fyrir hönd þúsunda íslenskra námsmanna sem eru í verulegum vandræðum vegna skelfilegra aðgerða núv. ríkisstjórnar. En það er auðvitað í stíl við það sem hér kom fram áðan að frv. okkar alþýðubandalagsmanna væri fram komið til að ná sér niðri á hv. þingflokksformanni Alþfl. Við í Alþb. höfum annað þarfara að gera en að sinna hv. þingflokksformanni Alþfl.
    Ég þakka að sjálfsögðu hæstv. ráðherra að lofa að vera hér viðstaddur. Eins og ráðherranum er kunnugt á ég sæti í forsætisnefnd þingsins. Ég hef auðvitað ekki verið að fara fram á umræður við ráðherrann hafi forseti þingsins tjáð mér að hún viti til þess að hann verði ekki viðstaddur þennan eða hinn fundinn. Að sjálfsögðu ekki. Auk þess sem ég hef að sjálfsögðu, eins og aðrir forsætisnefndarmenn, reynt að vinna með forseta að gerð dagskrár og ekki verið að halda til streitu hlutum sem ég veit að valda meiri háttar vandræðum. Ég hef þar af leiðandi oft orðið að víkja með mín mál. Þegar að þeim hefur síðan komið hefur hæstv. ráðherra ekki verið viðstaddur. Ég er ekki að bera það á borð við hið háa Alþingi að hæstv. ráðherra hafi ekki verið í hinum veglegustu erindagjörðum og með fulla afsökun fyrir fjarveru sinni. En þannig hefur þetta verið, þetta mál hefur ekki komist á dagskrá. Það er hins vegar á dagskrá núna og ég vildi bara leyfa mér að tryggja að það fari ekki svo, eins og svo oft áður, að þegar þingflokksfundum lýkur verði umræðu haldið áfram fram eftir kvöldi en hæstv. ráðherra einhvers staðar víðs fjarri. Það hefur ekki gerst oftar og sennilega sjaldnar varðandi hæstv. menntmrh. en aðra ráðherra. En þetta er hinn algengi háttur í þinginu sem ég vildi bara sjá um að ekki gerðist að þessu sinni því hér er ekki um mitt prívat áhugamál að ræða. Það varðar framtíð menntamanna á Íslandi og fyrir utan það að þetta varðar afkomu þeirra vesalings námsmanna sem lögðu út í nám í ákveðinni sátt við samfélagið sem nú hefur verið gengið á bak og menn settir í allt aðra stöðu en þegar af stað var lagt. Um þetta skulum við ræða á eftir ef hæstv. ráðherra ætlar að vera svo elskulegur að hlýða á mál okkar.