Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 19:24:39 (1418)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Frv. sem hér er til umræðu tekur á einni af mörgum slæmum breytingum sem gerðar voru á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna á síðasta þingi. Þetta atriði skiptir verulegu máli og ég tel að það sé út af fyrir sig skiljanlegt að valið sé eitt mikilsvert atriði sem áfangi til þess að færa lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna í það horf sem við viljum sjá. Ég skil þá hugsun sem liggur að baki því að áfangaskipta þessu en engu að síður tel ég óhjákvæmilegt að leiða fleiri atriði inn í þessa umræðu þar sem ég tel að með því að breyta lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna á síðasta vetri hafi verið stigið stórt skref aftur á bak í menntastefnu þjóðarinnar. Þeim sé sérstaklega gert erfitt fyrir sem velja sér annað nám en hefðbundið háskólanám og er þó nógu erfitt fyrir þá sem fara í háskólanám.
    Ég er ekki farin að sjá það hvernig þessi ákvæði sem hér er verið að fjalla um, 6. gr. laganna, kemur við sérskólanema en ég man það úr greinargerðum og umsögnum þessara aðila að þar voru verulegar áhyggjur á ferðinni. Nú er þegar orðið ljóst að ákveðið aðfararnám eða byrjunarnám, t.d. hjá iðnnemum, er ekki lengur lánshæft. Það er varið með því að þar sé um að ræða nám sem sé e.t.v. ekki annað en nám til stúdentsprófsstigs og því sé ekki ástæða til að styrkja það sérstaklega eða lána til þess að gera fólki kleift að stunda það nám. Þetta þýðir einfaldlega að það er verið að gera fólki erfiðara fyrir að leita í annað nám en hreint bóknám og það er þó, ítreka ég enn og aftur, nógu erfitt.
    Varðandi þetta langar mig til að vitna í ummæli sem birtust núna um helgina og koma úr þeirri átt sem kannski gott er að vita af. Það er frá háskólarektor í viðtali við dagblaðið Tímann. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta: ,,Mesti ljóðurinn á okkar skólakerfi þykir mér það vera hve við höfum hér vanrækt verkmenntunina. Til eru hér margir ágætir verkmenntaskólar og iðnskólar, en einhvern veginn hafa þeir ekki verið nægilega áhugaverðir fyrir unga fólkið. Fremsta ósk þess er alltaf að komast í bóknámið, þótt störfin í verknáminu gætu verið fullt eins skemmtileg og átt betur við menn. Það tengist þessu að aldur fólks, sem stundar iðnskólanám, er orðinn ansi hár á Íslandi. Þar eru menn kannski orðnir 23--25 ára, er þeir hefja námið, og hafa verið að leita að sjálfum sér allt fram til þessa tíma. Það er ekki fyrr en þeir hafa unnið ýmis störf í allmörg ár, að þeir fara á samning og hefja iðnnám. Sem betur fer verða það oft ágætustu og bestu iðnaðarmennirnir sem koma út úr þessu. En eitthvað er að kerfinu ef fólk þarf að leita að sjálfu er í tíu ár áður en það finnur það sem það vill gera.``
    Ég lýk hér tilvitnun en bendi á að fyrir liggur, eins og kemur fram í máli háskólarektors, skýrsla sem styður þessar fullyrðingar tölfræðilegum upplýsingum. Þar kemur m.a. fram að það voru ekki nema 9% í þeim árangi sem þar er tekinn til könnunar sem fóru í iðnnám og einungis 5% luku því. Ég vil meina að þessi pottur sé brotinn á þann hátt að með stefnu Lánasjóðs ísl. námsmanna sé beinlínis verið að beina fólki frekar í bóknám en verknám.
    Ég vil taka sem dæmi gamla skólann minn, sem ég vil telja verknámsskóla. Það er Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Það hefur nefnilega komið á daginn að samkvæmt starfsreglum Lánasjóðs ísl. námsmanna er fólki gert mjög erfitt með að stunda nám þar vegna þess að svo lítið tillit er tekið til efniskostnaðar. Konur eru í miklum meiri hluta í þessum skóla og það er ekki um auðugan garð að gresja fyrir konur að sækja sér sumarvinnu. Þær koma því ekki hlaðnar fjármunum eftir sumarið með sumarhýruna sína. Í þessum skóla eru 186 nemendur nú í ár, 136 konur og 50 karlar. Efniskostnaður, sem er að vísu mjög misjafn eftir deildum, getur farið upp í 60--120 þús. kr. á vetri og til þessa er síður en svo tekið tillit. Þarna er ofan á annað, sem við höfum gagnrýnt í sambandi við nýskipan Lánasjóðs ísl. námsmanna, í rauninni verið að gera fólki ókleift að velja þessa námsbraut jafnvel þótt það sé viðurkennt að fólk þyrfti að velja sér fjölbreyttari menntun hér á landi en nú er raunin.
    Ég held að þarna hafi mjög slæmar ákvarðanir verið teknar og full ástæða til að taka á fleiru en 6. gr. við endurskoðun á ómögulegum lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er ekki auðvelt að svara því hvernig fólki verður frekar beint í verknám. Þarna er um vanda að ræða sem nær allt niður í barnaskóla en við erum ekki með þeirri stefnu sem lánasjóðurinn hefur fylgt að undanförnu að gera þessa stöðu auðveldari heldur þvert á móti erfiðari.
    Ég tek þetta sérstaka dæmi vegna þess að þetta er einn af fáum verknámsskólum þar sem konur hafa verið í miklum meiri hluta. Það er stundum talað með lítilsvirðingu um listnám og það talið óarðbært en ég held að okkar samfélag yrði mun snauðara ef við ættum ekki fólk sem legði stund á listnám og skilaði þeirri reynslu og þeirri þekkingu sem það býr yfir úti í samfélagið.
    Það er ýmislegt fleira sem varðar verknámið og vissulega væri ástæða til að gera að umtalsefni. Ég hef lagt þessa áherslu fyrst og fremst inn í umræðuna vegna þess að það hafa verið fleiri málssvarar Háskóla Íslands og annarra bóknámsskóla í umræðunni heldur en verknámsins. Ég held að öll sú gagnrýni sem þar hefur komið fram sé fyllilega réttmæt og ég tek undir hana.
    En ég vil bæta því við að ég sé ekki að við megum láta staðar numið við að breyta einungis 6. gr. laganna. Ég óttast það að 6. gr. laganna muni í sumum tilvikum reynast verknámsfólki jafnvel enn erfiðari en bóknámsfólki, ekki síst þeim sem leggja stund á verknám erlendis af einhverju tagi vegna þess að mat á því hvað telst full námsframvinda er afskaplega mismunandi. Í sumum tilvikum er verið að setja upp kröfur sem eru nánast út í hött, fullkomlega óraunsæjar og því miður staðreynd. Ég þekki nokkur dæmi þess að ætlast er til að fólk geti skilað af sér meiru í verknámsskólum erlendis en nokkurt raunsæi réttlætir. Þetta

fólk hlýtur óhjákvæmilega að flosna upp úr skólanum með háa efnisreikninga á bakinu ofan á reikningana fyrir skólagjöldin og framvindu sem telst ófullnægjandi en er samt mikil. Þetta er ekki til þess að hvetja fólk til þess að leita annarrar leiðar en þeirrar sem nú er einnig verið að gera ófæra en það er bóknámsleiðin.