Fjarskipti

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 14:05:40 (1460)

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 73/1984. Frv. er samið af nefnd sem starfaði að endurskoðun á lögum um fjarskipti í heild sem ekki er lokið. Sú nefnd var skipuð hinn 27. apríl sl. og vinnur nefndin nú að heildarendurskoðun laganna. Vegna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði var hins vegar nauðsynlegt að lögfesta nokkur ákvæði í samræmi við hann.
    Með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði hafa EFTA-ríkin, þar á meðal Ísland, fallist á að taka inn í löggjöf sína ýmsar samþykktir Evrópubandalagsins um fjarskipti. Einna mikilvægastar þeirra samþykkta eru tilskipun um samkeppni á sviði fjarskiptaþjónustu, nr. 90/388, og tilskipun um að koma á frjálsum aðgangi að fjarskiptanetum, nr. 90/387. Meginmarkmið þessara samþykkta er að veita íbúum innan hins Evrópska efnahagssvæðis fjölbreyttari og betri fjarskiptaþjónustu á sem hagkvæmustu verði.
    Innan Evrópubandalagsins hefur verið unnið markvisst að því að auka samkeppni á sviði fjarskipta allt frá útgáfu svokallaðrar ,,grænbókar`` sem framkvæmdastjórn bandalagsins stóð að á árinu 1987. Í grænbókinni er áætlun bandalagsins um þróun innri markaðar fyrir fjarskiptaþjónustu lýst og er stefnt að því að hún nái fram að ganga fyrir árslok 1992. Áætlunin tekur ekki til farsíma- og boðkerfis né heldur fjölmiðlunar svo sem hljóðvarps og sjónvarps. Með áætluninni stefnir Evrópubandalagið að því að bæta fjarskipti innan bandalagsins, enda er það talin forsenda fyrir samstilltri þróun atvinnulífs og samkeppnisfærum markaði í bandalaginu, bæði frá sjónarmiði þeirra sem veita þjónustu og þeirra sem njóta hennar. Áætlunin miðar að því að tækniframfarir á sviði fjarskipta komi að fullum notum innan Evrópubandalagsins.
    Með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði ná helstu atriði framangreindrar áætlunar einnig til EFTA-ríkjanna. Frelsi á sviði fjarskiptaþjónustu mun því aukast verulega í þeim ríkjum og á svæðinu öllu. Má búast við að á allra næstu árum muni samkeppni verða innleidd á öllum sviðum fjarskiptaþjónustu nema talsímaþjónustu, farsímum, gervihnattaþjónustu, fjarritun og rekstri grunnetsins. Áðurnefndar tilskipanir Evrópubandalagsins fela auk þess í sér að aðgangur að hinu opinbera neti og þjónustu verði samræmdur innan svæðisins. Raunar má búast við að í framtíðinni muni samkeppni verða innleidd á einhverjum þeirra sviða sem tilskipanir Evrópubandalagsins ná ekki til. Þannig má benda á að þótt einkaréttur á talsímaþjónustu sé viðurkenndur innan Evrópsks efnahagssvæðis má reikna með breytingum í því efni, m.a. með tilkomu samnetsins, ISDN, Integrated Services Digital Network, þar sem ekki verður skilið á milli talsíma- og gagnaflutnings. Þá má gera ráð fyrir að væntanleg löggjöf Evrópubandalagsins muni auka frelsi á sviði farsíma- og gervihnattaþjónustu. Nokkur ríki hafa reyndar nú þegar heimilað fleiri en einum aðila að reka stafrænt fjarsímakerfi, t.d. Þýskaland, Bretland, Frakkland, Noregur, Svíþjóð og Finnland.
    Í greinargerð með frv. eru meginreglur um fjarskiptamál innan Evrópska efnahagssvæðisins raktar, en eins og áður segir gera þær það að verkum að nauðsynlegt er að breyta núgildandi lögum um fjarskipti.
    Samkvæmt núgildandi lögum fer Póst- og símamálastofnun með víðtækan einkarétt ríkisins á fjarskiptum og eru undanþáguheimildir fáar. Einkaréttur ríkisins nær þó ekki til notendabúnaðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einkaréttur ríkisins verði þrengdur verulega og nái framvegis eingöngu til talsímaþjónustu og til að eiga og reka almennt fjarskiptanet. Önnur þjónusta á sviði fjarskipta verður háð leyfum samgönguráðherra þar sem skilyrði verða að vera hlutlæg, skýr og þannig að gætt sé jafnræðis. Póst- og símamálastofnuninni er heimilt að veita þá þjónustu en verður að uppfylla sömu skilyrði og aðrir. Þá gerir frv. ráð fyrir heimild samgönguráðherra til að setja reglugerð um virðisaukandi þjónustu er tengist hinu almenna fjarskiptaneti og þurfa veitendur slíkrar þjónustu ekki að sækja um sérstakt leyfi enda uppfylli þeir ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt reglum um frjálsan aðgang að fjarskiptanetum innan EES má ekki mismuna fyrirtækjum eftir þjóðerni heldur verður að tryggja jafnræði þeirra að því er snertir aðgang að fjarskiptaþjónustu. Öll skilyrði verða því að hvíla á hlutlægum, almennum og skýrum grundvelli þar sem tryggt er að ekki sé verið að takmarka samkeppni eða misnota yfirburða stöðu fjarskiptafyrirtækis á tilteknum markaði.
     Ákvæði EES-samningsins taka ekki til ákveðinna fjarskipta, en eins og áður var rakið er þar um að ræða fjarrita, farsíma, boðkerfi og gervihnattaþjónustu. Þá ná samþykktir EB ekki til fjölmiðlunar, þ.e. flutnings hljóð- og sjónvarpsefnis í fjarskiptanetum. Ríkjum innan EES er þá í sjálfsvald sett hvort þau viðhalda einkaleyfi er tekur til þeirra þjónustusviða. Í Danmörku var farin sú leið að heimila veitingu einkaleyfa á þessum sviðum, en þó þannig að samgönguráðherra landsins er jafnframt heimilað að opna fyrir samkeppni enda hafi sérstök lög verið sett er heimili samkeppni á viðkomandi sviði. Þessi varnagli er sleginn í samræmi við líkur á því að áfram verði haldið á braut aukins frelsis og samkeppni í fjarskiptaþjónustu innan EB. Í þessu frv. er hins vegar farin sú leið að láta einkarétt ríkisins einvörðungu ná til talsímaþjónustu og hins almenna fjarskiptanets. Framkvæmdin verður þá einfaldari og auðveldara að bregðast við auknum kröfum um samkeppni. Einkaréttur ríkisins verður skýr og vel afmarkaður á þeim sviðum þar sem líklegt er að einkaréttur ríkisins verði viðurkenndur um alllangt skeið innan EES. Á hinn bóginn verður Póst- og símamálastofnun heimilt að veita sérhverja tegund fjarskiptaþjónustu, að uppfylltum sömu skilyrðum og gilda gagnvart öðrum aðilum. Einkaréttur Póst- og símamálastofnunar á framangreindri grunnþjónustu ætti og að nægja til að tryggja fjárhagslegan grundvöll stofnunarinnar þannig að hún geti á hverjum tíma boðið upp á öruggt fjarskiptanet sem er undirstaða samkeppni á öðrum sviðum fjarskipta.
     Samkvæmt gildandi lögum um fjarskipti fer Póst- og símamálastofnun bæði með eftirlitshlutverk er varðar fjarskipti og atvinnurekstur. Slík samþætting felur í sér margvíslegar hættur á hagsmunaárekstrum og misnotkun. Með tilkomu EES-samningsins verður nauðsynlegt að greina þarna á milli og því er í frv. gert ráð fyrir því að ný stofnun, Fjarskiptaeftirlit ríkisins, taki við hinu opinbera eftirlitshlutverki sem Póst- og símamálastofnun hefur gegnt fram til þessa. Fjarskiptaeftirlit ríkisins verður sjálfstæð stofnun undir yfirumsjón samgönguráðherra. Reyndar hafa fyrstu skrefin þegar verið stigin í þessa átt með því að sjálfstæði eftirlitsins hefur verið aukið með skipun sérstakrar stjórnar fjarskiptaeftirlits þar sem eiga sæti, auk fulltrúa Póst- og símamálastofnunar, fulltrúar samgönguráðuneytis og notenda þjónustunnar. Frv. felur í sér að Fjarskiptaeftirlit ríkisins annist útgáfu leyfisbréfa, hafi með höndum eftirlit með gerð búnaðar og lögboðuðum tækniforskriftum, úthluti tíðnum og annist önnur slík mál.
     Frv. felur þannig í sér að breytingar verði gerðar á þeim ramma sem stjórnvöld hafa sett starfsemi á sviði fjarskiptaþjónustu til samræmis við breytta tíma. Markmiðið er að stuðla að fjölbreyttari fjarskiptaþjónustu á sem lægstu verði en tryggja um leið öryggi þjónustunnar.
    Hæstv. forseti. Gert er ráð fyrir því að frv. verði að lögum um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.
    Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.