Fréttamaður Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 11:44:22 (1485)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég er einn flm. tillögunnar og vil bæta við örfáum orðum. Ég tel að það þurfi einmitt að gerast að Ríkisútvarpið verði útvarp allra landsmanna með sem líkustum hætti hvar sem er á landinu. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að svipuð fréttaþjónusta verði frá öllum landsvæðunum.
    Það er kannski fleira sem þarf að skoða hjá Ríkisútvarpinu. Mér dettur í hug kostnaðurinn af því taka þátt í starfsemi Ríkisútvarpsins. Það er t.d. þessi nýja sveitalína sem búið er að opna og hefur verið mjög í tísku undanfarið, Þjóðarsálin. Það er búið að endurvekja sveitasímann og landsmenn hringja langtímum saman í útvarpið og tala yfir þjóðinni. Þetta kostar miklu meira fyrir þá sem búa úti á landi en þá sem búa á Reykjavíkursvæðinu. Ríkisútvarpið hefur ekki séð sér fært að kaupa númer með 99 formerki en það er orðið nokkuð um að opinberar stofnanir hafi græn númer. Auðvitað væri langeðlilegast að það væri grænt númer fyrir þá sem þurfa að hringja í þessa ríkisstofnun. Hún á að veita öllum sömu þjónustu og það er viðurkennt með því að hafa sama afnotagjald um allt land. Þó það kosti auðvitað mismunandi mikið fyrir útvarpið í stofnkostnaði og öðru að koma boðunum til skila er samt viðurkennt að menn eigi að borga sama afnotagjald. Þess vegna tel ég að Ríkisútvarpið ætti að taka á sig þann kostnað sem því fylgir að vera með grænt númer fyrir þá sem þurfa af einhverjum ástæðum eða vilja taka þátt í starfsemi Ríkisútvarpsins.
    Það var ekki fleira sem ég ætlaði að segja um þetta en ég vona að þetta mál fái góða og skjóta afgreiðslu og að Ríkisútvarpið reyni að jafna á milli landsmanna þessu hlutverki sínu eins og eðlilegt er.