Íbúðaverð á landsbyggðinni

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 12:17:34 (1493)

     Flm. (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær afar jákvæðu undirtektir sem þessi þáltill. hefur fengið. Ég tel að þær endurspegli í raun og veru þá miklu samstöðu sem er um þetta mál vítt og breitt úti í þjóðfélaginu. Ég vek athygli á því að flm. þessarar þáltill. eru úr fjórum mismunandi stjórnmálaflokkum og úr ýmsum kjördæmum. Þetta segir okkur auðvitað það, sem hefur komið fram og kristallaðist reyndar mjög vel í þessari umræðu, að þetta mál brennur mjög mikið á fólki og þess vegna er það krafa svo víða um landið að á því sé tekið með einum eða öðrum hætti.
    Hér er í fyrsta lagi lagt til að skipuð sé nefnd í málið. Það er vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Vesturl. að þetta mál er býsna margslungið. Það eru á því margir fletir og vissulega er það þannig, eins og fram kom í máli mínu, að það er ekki hægt að útskýra verðhrun á íbúðum og fasteignum úti á landi með einni einstakri skýringu. Við verðum auðvitað að leita miklu lengra og skoða miklu fleira í þessu sambandi. Þess vegna er það sem við leggjum til að nefnd fari ofan í þetta mál og skoði það frá öllum hliðum.
    En auðvitað er það líka hitt og það er kannski hinn grunnþráðurinn í málinu að við vekjum á því

athygli að það hafi orðið tiltekin þróun í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis úti á landi sem ef til vill á þátt í því, og það var það sem ég var að leiða rök að hér áðan, að breyta markaðsverði og lækka markaðsverð annarra eigna úti á landi. Með þessu er auðvitað verið að búa til nýtt vandamál um leið og annað vandamál er leyst.
    Þessi mál þarf að skoða mjög vel og fara mjög vel ofan í þau. Spurningin sem við þurfum þurfum fyrst og fremst að fá svarað er: Hvað veldur þessari þróun íbúðaverðsins? Er hugsanlegt að skipulag húsnæðismála í okkar landi eigi þátt í því að grafa undan eignum og eignamyndun fólks á landsbyggðinni? Ef svo er er auðvitað um að ræða mjög alvarlegt mál, alvarlegt þjóðfélagslegt misrétti sem við sem alþingismenn getum auðvitað ekki leitt hjá okkur.
    Þess vegna er það sem við flytjum þetta mál og þess vegna, held ég, á þetta mál svo mikinn hljómgrunn svo víða úti í þjóðfélaginu. Ég held nefnilega og það er dálítið athyglisverður punktur að þeir sem hafa verið að tala við okkur hv. flm. séu einmitt þetta venjulega íslenska fólk sem er ekkert að hafa hátt í fjölmiðlum, er ekkert á ráðstefnum, er ekkert á fundum með einhverjar ályktanir. Þetta er bara fólk sem stendur allt í einu í þessum sporum og er að velta nákvæmlega þessum hlutum fyrir sér sem við erum að velta upp í okkar umræðu og það er að spyrja nákvæmlega sömu spurninganna. Við værum að bregðast trúnaði þessa fólks ef við með sama hætti þegar við höfum sömu áhyggjur tækjum þetta mál ekki upp og reyndum að finna á því einhverjar lausnir. Það er um það sem þetta mál snýst og þess vegna þakka ég þennan góða stuðning og þennan jákvæða skilning sem mér finnst hafa komið fram í máli allra þeirra hv. þm. sem tóku til máls undir þessum dagskrárlið.