Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:53:02 (1514)

     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Það fer ekki á milli mála af því sem hefur komið fram í umræðunni að það var svo sannarlega kominn tími til þess að stjórnarskipti yrðu í þessu landi. Hér hafa komið fram yfirlýsingar um að það hafi ekkert verið að gerast í orkusölumálum árum saman, m.a. undir stjórn ríkisstjórnar hv. 7. þm. Reykn. ( Gripið fram í: Það hefur verið sami iðnrh.)
    Varðandi þáltill. sem er til umræðu þakka ég undirtektir hæstv. iðnrh. og hv. 6. þm. Vestf. við tillöguna. Þeir fluttu málefnalegar ræður og komu með góðar ábendingar varðandi tillöguna. Sama er hins vegar ekki hægt að segja um málflutning annarra stjórnarandstöðumanna en Kvennalistans í þessari umræðu.
    Hv. 3. þm. Vesturl. treysti sér ekki til að hafa uppi neinar málefnalegar umræður um þá mikilvægu tillögu sem hér er til umræðu heldur sneri sér að því að ræða fjárlögin og reyndi með því að draga athyglina frá tillögunni sem hér er til umræðu og draga athyglina frá því mikilvæga viðfangsefni sem er að beita öllum ráðum til þess að lækka raforkuverðið í landinu. Þetta er mjög athyglisvert og ég er alveg viss um að kjósendur á Vesturlandi munu taka eftir því og það mun vekja athygli á Vesturlandi að tillagan skuli ekki fá neinn stuðning frá 3. þm. Vesturl. Hann talar um að hér sé verið að óska eftir nefnd. Það kemur hvergi fram í tillögunni að óskað sé eftir því að setja á laggirnar nefnd heldur gengur tillagan út á það að iðnrh. sé falið að gera athugun á þessari verðlagningu. Það kom fram í umræðunum að ágreiningur er um verðlagningu Landsvirkjunar og við flm. tillögunnar teljum mikilvægt og nauðsynlegt að láta fara fram athugun á því. Eins og fram kom í máli hæstv. iðnrh. tekur hann undir það að iðnn. eigi að skoða málið. Tillagan leggur engan dóm á það að útreikningar eða forsendur Landsvirkjunar séu rangar en við þurfum að fá fram athugun á því. Ég vísa því alveg á bug sem hv. 4. þm. Austurl. segir að ekki þurfi eina athugunina enn. Ég tel að það þurfi að athuga þær forsendur sem Landsvirkjun byggir útreikninga á raforkuverði á og ég tel að það sé kominn tími til þess að sú athugun eigi sér stað.
    En það voru fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar sem reyndu að víkja sér undan málefnalegri umræðu um tillöguna. Það kom satt að segja nokkuð á óvart sem hv. 7. þm. Reykn. sagði þegar hann talaði um að allt magnaðasta afturhald landsins sé í Landsvirkjun og þar á meðal er hv. þm. Páll Pétursson væntanlega enda kom það mjög greinilega fram í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar að hann er ekki tilbúinn til að standa að neinum breytingum. Hann telur að forsendur Landsvirkjunar séu með eðlilegum hætti varðandi

útreikninga á raforkuverðinu. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að þetta veldur mér miklum vonbrigðum. Hann segir að nú sé hann tilbúinn til að beita sér fyrir lækkun á raforkuverði eða breytingum í stjórn Landsvirkjunar. Hann hefur væntanlega ekki gert það hingað til ef hann er nú tilbúinn til að beita sér fyrir einhverjum breytingum.
    Ég hef ekki fengið það upplýst, hv. 1. þm. Norðurl. v., að nokkrar breytingar hafi orðið á forsendum við útreikning Landsvirkjunar. Þau bréf sem eru í fskj. með þáltill. sýna að ekki hefur orðið nein breyting á þessum forsendum enda hefur ekki komið fram nein breyting á raforkuverði frá Landsvirkjun til dreifiveitnanna. Það verða að koma betri og fyllri rök fyrir þessum fullyrðingum þingmannsins en fram komu.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að blanda mér inn í þá umræðu sem kom hér upp um fortíðina, ágreining milli hv. 4. þm. Austurl. og hv. 1. þm. Norðurl. v. um Blöndu. Þetta er vandamál sem við búum við og þetta er vandamál sem Landsvirkjun býr við. Þeir verða að útkljá þau mál með einhverjum öðrum hætti en þeir geta gert við umræðu um þáltill. Enda heyrðist mér á hv. 4. þm. Austurl. að hann hefði fullan áhuga á því að reka það allt saman ofan í hv. þm. Pál Pétursson.
    Hv. þm. Páll Pétursson sagði að flm. tillögunnar væru að reka hornin sérstaklega í Landsvirkjun eða væru með ónot í garð Landsvirkjunar. Því fer fjarri. Við erum að flytja hér með málefnalegum hætti þáltill. og óskum eftir því að forsendur þeirrar stjórnar, sem þingmaðurinn situr í, verði skoðaðar. Er það óeðlilegt að stjórn Landsvirkjunar sé spurð að því hvernig hún reiknar dæmin sín? Hefur hv. þm. Páll Pétursson ekki spurt þeirrar spurningar eða tekur hann allt sem gefið sem kemur frá stjórn Landsvirkjunar? Það væri fróðlegt að heyra það þó síðar yrði.
    Ég held að nauðsynlegt sé, og það kom fram í máli mínu þegar ég mælti fyrir tillögunni, að skoða hvernig Landsvirkjun byggir upp sínar forsendur og útreikninga. Ég hef ekki fyrir fram sagt að þeir séu rangir eða óeðlilegir en ég vil að það verði skoðað og ég treysti hv. iðnn. og hv. iðnrh. mjög vel til að skoða og meta þær forsendur sem Landsvirkjun gefur sér við útreikninga á verði á raforku til dreifiveitna.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Það er von mín að sú umræða sem hér hefur farið fram leiði e.t.v. til þess að menn skoði tillöguna betur en annars hefði verið gert. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og vænti þess að þeir hv. þm. sem sitja í iðnn. skoði tillöguna rækilega og að hæstv. iðnrh. beiti sér fyrir athugun á verðlagningu raforku til dreifiveitna á grundvelli þáltill. sem ég vona að verði samþykkt á hinu háa Alþingi.