Hækkun farmgjalda skipafélaganna

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:50:05 (1533)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er reyndar svolítið skrýtið að upplifa það að fulltrúar ríkisstjórnarinnar eru í vandræðum með að standa við þau tímamörk í ræðustól sem þeir áttu þátt í að setja til að stemma stigu við málflutningi stjórnarandstöðunnar.
    En það er alveg greinilegt að skipafélögin ætla ekki að bíða eftir tillögum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem hv. 17. þm. Reykv. lagði áherslu á að væri verið að vinna. Það er ekki nægilegt að ræða um kostnaðarlækkanir til fyrirtækja, lækkun á tryggingagjaldi, niðurfellingu eða breytingu á aðstöðugjaldi þegar ekkert er framkvæmt. Menn taka þá bara til sinna ráða og það er ábending til ríkisstjórnarinnar. En kannski er það þetta sem hún vill. Fyrirtækin eiga að spjara sig. Markaðurinn á að ráða. En þá er nærtækt að spyrja: Hvaða markaður? Hefur ekki Eimskip yfirburðastöðu á markaðnum? Er með svo til alla flutninga til landsins. Þeir geta gert þetta í krafti þess að þeir ráða markaðnum. Þannig eru markaðslausnir ríkisstjórnarinnar í reynd.
    Það er líka allrar athygli vert að Eimskip er ekki enn rekið með tapi en hefur aftur á móti verið rekið með góðum hagnaði síðustu ár. Sama er þó ekki hægt að segja um Samskip. Það mætti hugsa sér að Eimskip gæti tekið á sig tímabundið tap eins og mörg önnur fyrirtæki verða að gera hér á landi ef þeir á annað borð vilja taka mið af því efnahagsástandi sem er og stöðugleikamarkmiði ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Þeir virðast hins vegar ekki gera það og það segir okkur að Eimskip er ríki í ríkinu og lætur sér fátt um áætlanir stjórnvalda finnast.
    Þessi hækkun mun að sjálfsögðu koma beint út í verðlag vörunnar og valda hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar, lánskjaravísitölu og byggingarvísitölu. Þar með fer boltinn að velta. Verðlag vöru á landsbyggðinni verður svo enn hærra þar sem hækkunin kemur með tvöföldum þunga á vöru sem flutt er

út á land.
    Ég tel að hér geti einnig verið um að ræða ólöglegt samráð milli fyrirtækja og sjálfsagt að viðskrh. skoði það í fullri alvöru.