Vinnubrögð í umhverfisráðuneyti

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:42:25 (1546)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Þegar spurt er um einstök og bréfuð atriði væri æskilegra að það væri gert í öðrum fyrirspurnartíma en þeim þar sem enginn undirbúningur er til svarsins. Hins vegar skal ég segja hv. þm. það að bréf frá umræddum bréfritara sem barst ráðuneytinu hefur áreiðanlega verið sent til fuglafriðunarnefndar til umsagnar svo sem lög standa til vegna þess að hér var beðið um undanþágu frá gildandi reglum. Ég er ekki nákvæmlega kunnugur því og hef það ekki á takteinum hér og nú undirbúnings- og athugunarlaust, en dreg það ekki í efa að þær dagsetningar sem hér um ræðir séu réttar hjá hv. þm. Vera má að dráttur hafi orðið á að fuglafriðunarnefnd fjallaði um þetta sérstaka erindi og það skal alveg viðurkennt að æskilegt hefði verið að það hefði gerst fyrr. En athugunarlaust get ég ekki sagt öllu fleira um þetta mál.