Hertar aðgerðir gegn skattsvikum

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:44:57 (1548)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég beini fsp. til hæstv. fjmrh. og það er smá forspjall að því. Mikil umræða er í gangi vegna fjárlagagerðar fyrir næsta ár, hvernig draga megi úr halla ríkissjóðs. Í því sambandi er staða fyrirtækja og vaxandi atvinnuleysi einnig í umræðunni. Eitt er það þó sem ekki hefur heyrst mikið um til að auka tekjur ríkissjóðs og það er betri skattheimta og það að koma í veg fyrir skattsvik. Heyrst hefur að hér geti verið um allt að 10 milljarða að ræða.
    Hvað hefur fjmrn. gert til að gera skattheimtu skilvirkari, ná tökum á skattsvikum og koma þannig í veg fyrir svokallaða svarta vinnu?