Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 14:43:05 (1618)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 33 frá 26. apríl 1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun, en það er á þskj. 167 og er 146. mál þingsins. Frv. er samið til að uppfylla skyldur íslenska ríkisins vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.
    Í gildandi lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun eru ákvæði þess efnis að fuglaveiðar á afréttum og almenningum utan landareigna lögbýla og í íslenskri landhelgi utan netlaga lögbýla séu einungis heimilar íslenskum ríkisborgurum. Vafasamt er talið að ákvæði þetta samræmist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í álitsgerð Ólafs Walters Stefánssonar, Stefáns Más Stefánssonar og Tryggva Gunnarssonar, Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fasteignir á Íslandi, sem gefin var út í sumar, segir á bls. 108--109, með leyfi forseta:
    ,,Í 2. og 3. mgr. 5. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun nr. 33/1966 segir að öllum íslenskum ríkisborgurum séu heimilar fuglaveiðar í afréttum og almenningum utan landareigna lögbýla sem enginn getur sannað eignarrétt sinn til og í íslenskri landhelgi utan netlaga lögbýla. Öðrum en íslenskum ríkisborgurum er því óheimilt að stunda fuglaveiðar á þessum stöðum og á það m.a. við um erlenda aðila sem njóta EES-réttar.
    Sá fuglaveiðiréttur sem hér er fjallað um er ekki hluti af þeim rétti sem fylgir eignarhaldi á fasteign hér á landi andstætt því sem gildir t.d. um lax- og silungsveiði í vötnum á afréttum heldur er þetta sjálfstæður réttur til að nýta gæði sem eru hluti af svonefndum almannarétti. Veiðin fer fram á svæði sem samkvæmt gildandi rétti er ekki eign neins, þar með talið ríkisins, heldur fer ríkið með forræðisvald á þessum svæðum og getur í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um nýtingu þessara hlunninda.
    Nýting þessa fuglaveiðiréttar getur ekki orðið tilefni þess að reyni á stofnsetningarrétt samkvæmt EES-samningum að því marki að þessi réttindi séu sérstaklega keypt til að leigja þau út en hins vegar er ekki útilokað að erlendur aðili sem nyti EES-réttar stofnaði til atvinnustarfsemi sem fælist í að skipuleggja ferðir, þar sem þátttakendur færu til fuglaveiða á umræddum svæðum.
    Talið er að EB-réttur og þá EES-samningurinn girði ekki fyrir að áskilnaður sé gerður um sérstök tengsl við viðkomandi ríki til þess að hlutaðeigandi fái heimild til að nýta almannarétt, svo sem veiðirétt af því tagi sem hér er fjallað um. Þannig getur aðili sem nýtur EES-réttar og kemur til landsins sem ferðamaður væntanlega ekki gert kröfu um að fá sama rétt og innlendur aðili til fuglaveiða utan eignarlanda, en hér koma hins vegar upp markatilvik. Ef um er að ræða aðila sem nýtur EES-réttar og hefur fasta búsetu hér á landi á grundvelli launþegaréttar eða sem sjálfstæður atvinnurekandi er vafasamt að hægt sé að neita honum um heimild til að nýta slíka frjálsa veiðiheimild umfram þær takmarkanir sem einnig gilda gagnvart Íslendingum sem búsettir eru í landinu.
    Framangreind ákvæði 2. og 3. mgr. 5. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun þarf samkvæmt framansögðu að samræma þeim skuldbindingum sem Ísland hefur tekið á sig með EES-samningnum.``
    Til að uppfylla þær skyldur sem íslenska ríkið undirgengst með EES-samningnum er lagt til í frv. að ráðherra verði heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum um íslenskan ríkisborgararétt og binda undanþáguna því skilyrði að viðkomandi hafi fasta búsetu hér á landi. Þess vegna er lagt til að bætt verði nýrri mgr. aftan við 3. mgr. 5. gr. gildandi laga um fuglaveiðar og fuglafriðun sem hljóði svo:
    ,,Ráðherra er heimilt með reglugerð að veita undanþágu frá skilyrði 2. og 3. mgr. um íslenskan ríkisborgararétt og að binda réttinn búsetuskilyrði, í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.``
    Í frv. til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum öðrum en hvölum, sem lagt var fram á síðasta þingi en fékk þá ekki afgreiðslu, er samsvarandi ákvæði og varð það raunar ekki tilefni sérstakrar umræðu hér í þeim umræðum sem þá fóru fram um það mál. Þar er gert ráð fyrir að dýraveiðar og þar með taldar fuglaveiðar á afréttum, almenningum og í íslenskri landhelgi utan netlaga landareigna verði heimilar öllum íslenskum ríkisborgurum og mönnum með lögheimili hér á landi.
    Ég hef í hyggju að leggja frv. fram að nýju á næstunni og verði það að lögum munu gildandi lög um fuglaveiðar og fuglafriðun falla úr gildi. Þar sem ekki er ljóst hvenær það frv. verður afgreitt héðan frá Alþingi, hvort það verður áður en verður af aðild að EES-samningunum, þykir rétt að leggja til þá breytingu á gildandi lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun sem ég hef nú gert grein fyrir.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. umhvn.