Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 18:00:33 (1636)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég mun þá halda áfram ræðu minni þar sem frá var horfið fyrr í dag og svara þeim spurningum sem til mín var beint. Það var einkum hv. 4. þm. Austurl. sem beindi til mín spurningum. Hann er ekki hér í salnum núna en ég geri fastlega ráð fyrir að honum hafi verið kunnugt, eins og öðrum þingmönnum, að þessum fundi yrði fram haldið kl. 6.

    Ég get tekið undir það sem hann sagði að margt væri óljóst um almenninga. Hann hafði raunar nefnt það hér áður. En hann vakti athygli á því, sem reyndar kemur fram í þeirri álitsgerð sem ég vitnaði til, að það gæti verið viss hætta á því að erlendur aðili, sem nyti EES-réttar, stofnaði til atvinnustarfsemi sem fælist í því að skipuleggja ferðir þar sem þátttakendur færu til fuglaveiða. Þessi hætta er kannski ekki mikil en í þessu sambandi ber að hafa í huga að í reglugerð, sem sett er samkvæmt lögum um skotvopn frá 1977 eða 1978, er kveðið á um að útlendingar verði að fá tímabundið leyfi fyrir skotvopn en það er bundið því skilyrði að Íslendingur ábyrgist viðkomandi aðila og sé honum kunnugur. Það er hætt við að þetta yrði svolítið erfitt í framkvæmdinni. Það er líklegt að erfitt sé að finna hér fólk sem væri kunnugt þeim útlendingum sem hingað kæmu og sem ferðaskrifstofa eða sambærilegur aðili kynni að fá hingað til veiða. Ég held að atvinnustarfsemi af þessu tagi sé heldur ólíkleg á meðan þessar reglur eru í gildi.
    Það er einnig rétt að benda á að samkvæmt gildandi lögum er óheimilt með öllu að flytja veidda fugla úr landi nema með sérstöku leyfi ráðherra. Þar er þó rjúpan undanskilin. Þessi hætta er þó auðvitað fyrir hendi. Það mun t.d. hafa gerst að Ítalir hafi leigt sér veiðirétt á allmörgum jörðum uppi á Héraði sl. sumar. Samkvæmt frétt sem birtist í einu dagblaðanna eru þess dæmi að hingað komi útlendir menn á vegum Íslendinga til veiða í atvinnuskyni. Þetta er auðvitað mál sem þarf að athuga. Hins vegar leiðir það náttúrlega hugann að því hver sé eðlismunurinn á því að útlendingar komi hingað til laxveiða í ám sem eru í flestum tilvikum í eigu íslenskra bænda. Það hefur þótt gott og gilt og þykir gott og gilt enn. Af þessu hafa bændur miklar tekjur sumir hverjir, þeir sem byggja hlunnindajarðir hafa feiknarlegar tekjur. Það er full ástæða til að velta því fyrir sér hvort í rauninni sé svo gífurlegur munur á því til hvers konar veiða útlendingar koma. Ég er ekki að segja að þessu sé alveg saman að jafna, alls ekki.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vísaði einnig í gömul ákvæði Jónsbókar og taldi að það gæti verið hætta á því að æfðir spörfuglaveiðimenn frá Evrópu kæmu hingað til slíkra veiða og hvort ríkisstjórnin hefði markað afstöðu til þessa máls. Því er auðvitað mjög fljótsvarað. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. viti svarið og þessi spurning hans hafi fremur verið í hótfyndnistíl en að spurt væri af mikilli alvöru. Samkvæmt gildandi lögum eru allar veiðar bannaðar á þeim fuglum sem hann gerði hér að umtalsefni og það eru engar breytingar fyrirhugaðar á því. Því er hægt að svara mjög skýrt. Hann nefndi einnig ákvæði Jónsbókar um merkingar á álftum og spurði um afstöðu til fuglamerkinga í ljósi þeirra ákvæða. Samkvæmt gildandi íslenskum lögum er Náttúrufræðistofnun einni heimilt að láta merkja villta fugla á Íslandi. Það eru ákvæði um það í 28. gr. gildandi laga.
    Varðandi þá spurningu hvort ekki felist hætta í því ákvæði að heimilt sé að skilja rétt til veiða við landareign um tiltekið tímabil, þá vísa ég til þess sem ég sagði áðan um heimild fyrir útlendinga til að bera skotvopn og flytja feng úr landi. Lagabreytingin sem hér er til umræðu breytir engu um það.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson taldi að eðlilegra væri að fara að dæmi Dana og flytja almennt frv. um veiðar og vernd dýra og lýsti yfir stuðningi við slíkt frv. ef það kæmi fram. Ég get í rauninni verið sammála honum enda var slíkt frv. flutt hér á Alþingi í fyrra en fékk þá ekki afgreiðslu. Það kom fram í minni framsöguræðu að ég mun leggja slíkt frv. fyrir að nýju. Þar eru m.a. ákvæði um veiðikort sem ættu að gera það verkum að það verði auðveldara að fylgjast með stærð, vexti og viðgangi þeirra stofna sem veitt er úr.
    Þá má líka geta þess að í því frv. er gert ráð fyrir að settar verði sérstakar reglur um veiði erlendra ferðamanna. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að amast við því ef t.d. bændur, þar sem víða kreppir nú að, geta haft aukatekjur af veiðum af þessu tagi, hvort sem þar er um innlenda eða erlenda ferðamenn að ræða á þeim löndum þar sem bændur eiga og ráða fyrir. Ég sé hreint ekkert athugavert við það.
    Varðandi þá ræðu sem hv. 6. þm. Vestf. flutti áðan verð ég að játa að mér er ekki alveg ljóst um hvað hún var að tala þegar hún fullyrti að með þessu frv. væri verið að koma aftan að fólki. Ég verð að játa að mér er ekki alveg ljóst við hvað hún átti, við

hvaða alþjóðasamninga aðra væri átt. Það er fyrst og fremst átt við þennan samning sem hér um ræðir og það er sjálfsagt álitaefni hvort tilgreina ætti hann sérstaklega í stað hinna tilvitnuðu orða um alþjóðasamninga. Ég hygg þó að ekkert sé athugavert við það orðalag sem notað er í frv.
    Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi þá svarað þeim spurningum velflestum sem til mín var beint. Ég legg áherslu á að hér er í rauninni um tiltölulega einfalt mál að ræða, þ.e. að gera það, sem íslenskum ríkisborgurum, samkvæmt laganna bókstaf, er nú einum heimilt, heimilt þeim öðrum sem hafa fasta búsetu á Íslandi eða með öðrum orðum þeim sem eiga lögheimili hér á landi. Hitt er náttúrlega auðskilið --- og verður kannski að horfa svolítið á umræðuna í ljósi þess að þeir sem eru mjög andvígir EES-samningnum, enda þótt þeir hafi áður tekið þátt í að koma honum fram, þeir eru auðvitað eðli málsins samkvæmt andvígir frv. líka og á það ber að líta þegar þessi umræða er skoðuð í heild.