Fræðsluefni um EES

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:38:02 (1652)

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og get að vissu leyti tekið undir að það er ekki eðlilegt og ekki gott að stjórnvöld fari að skipta sér almennt af dagskrárgerð ríkisfjölmiðlanna. Hins vegar er hér um mjög sérstakt og stórt mál að ræða. Hér er um að ræða samning sem á eftir að varða þjóðina svo miklu í framtíðinni ef hann verður samþykktur og reyndar hvort sem er. Það skiptir þjóðina afar miklu máli að hún sé mjög vel upplýst um innihald EES-samningsins.
    Við erum þessa dagana að fjalla um fjáraukalög fyrir þetta ár og þar hefði ríkisstjórninni verið í lófa lagið að koma inn fjárveitingu til gerðar fræðsluefnis um EES og beina því til Ríkissjónvarps og útvarps að slík þáttagerð ætti sér stað. Reyndar finnst mér það vera þannig að hæstv. ríkisstjórn beri skylda til þess að upplýsa almenning í landinu um innihald samningsins.