Málefni Ríkisútvarpsins

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:44:49 (1656)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Svar mitt við fyrri spurningunni um hvað líði áformum um byggingu nýrrar langbylgjustöðvar sem næði til landsins alls er þetta:
    Við fall annars langbylgjumastursins við Vatnsenda í miklu óveðri 3. febr. 1991 varð langbylgjusendirinn þar óvirkur. Til bráðabirgða hafa verið reist möstur að Vatnsenda sem eru lægri en þau sem fyrir voru og draga því langbylgjusendingar þaðan ekki eins langt og fyrr en talið er að hægt verði að senda þaðan á langbylgju að óbreyttu í fimm til sjö ár í viðbót.
    Að Eiðum er annar langbylgjusendir. Þar eru möstrin í góðu lagi en sendirinn úreltur og hætt við að hann stöðvist innan eins til tveggja ára ef ekkert verður að gert. Mikilvægt er að forða því að svo fari. Kostnaður við endurnýjun sendisins að Eiðum er talinn munu nema á bilinu 30--50 millj. kr.
    Í svari við fsp. um svipað efni á síðasta þingi var greint frá því að í athugun væri að taka lóranstöðina á Gufuskálum í notkun sem langbylgjustöð þegar bandaríski herinn hættir að nota hana 1994. Við nánari athugun hefur komið í ljós að þessi kostur virðist ekki vera fyrir hendi og verður því að leita annarra leiða.
    Ein lausn sem nokkrar vonir eru bundnar við er gervihnattaútvarp sem er í mjög örri þróun. Margt virðist benda til að þegar fram líða stundir muni gervihnattaútvarp koma í stað langbylgju. Á þessari stundu er þó erfitt að segja fyrir um hvenær slíkt fyrirkomulag verður orðinn raunhæfur kostur.
    Kostnaður við að endurnýja varanlega langbylgjustöð á Vatnsenda er talinn munu nema a.m.k. 800 millj. kr. Í ljósi þess að bráðabirgðaaðstaðan þar virðist gefast sæmilega og að brýnasta verkefnið í sambandi við langbylgjuna á Íslandi er að endurnýja sendinn að Eiðum virðist skynsamlegt að láta Eiða hafa forgang og notast við bráðabirgðaaðstöðuna á Vatnsenda um sinn meðan fylgst er með tækninýjungum og þróun t.d. á sviði gervihnattaútvarps.
    Svarið við síðari spurningunni hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins geti staðið við þau verkefni sem honum eru falin samkvæmt lögum nr. 68/1985 er svohljóðandi:
    Framkvæmdasjóði Ríkisútvarpsins eru ætlaðar tekjur af aðflutningsgjöldum af útvarps- og sjónvarpstækjum. Sjóðnum er m.a. ætlað að tryggja viðunandi tækjakost og dreifikerfi. Á undanförnum árum hefur verið ákveðið með lánsfjárlögum að þessi tekjustofn renni beint í ríkissjóð og Ríkisútvarpið að sama skapi haft yfir minni fjármunum að ráða en ella. Það fé sem hefur árlega verið ráðstafað til uppbyggingar dreifikerfisins hefur verið á bilinu 15--20 millj. kr. á ári eða um 1% af brúttótekjum stofnunarinnar.
    Í frv. til fjárlaga er gert ráð fyrir að framkvæmdasjóðurinn hafi tekjur sem nema 10% af afnotagjöldum og auglýsingum hljóðvarps og sjónvarps og er áætlað að það verði 207 millj. kr. á næsta ári. Af þeirri fjárhæð verður 18 millj. varið til að greiða kostnað af þeim hluta útvarpshússins sem ekki er í notkun. Afborganir af lánum eru áætlaðar 17 millj. Eftir standa 172 millj. sem verða notaðar til að fjármagna alla fjárfestingu Ríkisútvarpsins, þar með talið endurnýjun tækjabúnaðar hljóðvarps og sjónvarps og er það 59 millj. kr. hærri fjárhæð en í fjárlögum 1992.
    Nú er verið að endurskoða útvarpslögin. Við þá endurskoðun verður m.a. athuguð staða Ríkisútvarpsins og fjáröflunarleiðir þess. Ég tel rétt að bíða með ákvarðanir um framkvæmdasjóðinn þar til þessari endurskoðun er lokið.