Afstaða Landsvirkjunar til lækkunar orkuverðs

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:37:48 (1682)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig mjög þarft að fá umræðu sem dregur athyglina að afstöðu Landsvirkjunar til jöfnunar á orkuverði. Það er ljóst að við nokkuð ramman reip er að draga þar sem Landsvirkjun er varðandi sjónarmiðið jöfnun.
    Hins vegar vekur athygli mína að þeir sem fyrst og fremst skiptast á orðum í þessari umræðu eru tveir stjórnarliðar, annar hæstv. ráðherra og hinn hv. 3. þm. Vestf. Hvorugur þeirra minnist á svar við spurningunni: Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til lækkunar orkuverðs?
    Það sem við höfum fyrir framan okkur um afstöðu ríkisstjórnarinnar er að það á að hækka orkuverð á köldum svæðum á landinu og það er jafnaðarmannaráðherrann, hæstv. iðnrh., sem er forgöngumaður í þessari nýju stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.