Sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:57:48 (1691)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. 18. þm. Reykv. spyr hvers vegna ráðherra hyggst leggja niður sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.
    Svarið gæti út af fyrir sig verið stutt og laggott. Það hefur ekki hvarflað að ráðherranum að leggja niður sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Fyrirspurnin er þess vegna á misskilningi byggð eins og hefði mátt upplýsa með stuttu símtali. Ísland hefur að vísu ekki sendiráð hjá Sameinuðu þjóðunum, það er þó ekki aðalatriðið, við höldum þar úti fastanefnd sem auk þess gegnir ræðisstörfum.
    Í frv. til fjárlaga 1993 áætlar utanrrn. útgjaldalækkun eins og fyrirspyrjandi vék að með því að skipa ekki um stundarsakir í stöðu fastafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum eða sameina starfið starfi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Í upphafi þátttöku Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum var þetta fyrirkomulag reyndar við haft. En eftir sem áður munu starfa við fastanefndina fjórir starfsmenn og það er yfirveguð skoðun ráðuneytisins að þessir starfsmenn geti sinnt öllu því starfi sem Íslendingar þurfa að taka þátt í og fylgjast með hjá Sameinuðu þjóðunum.