Sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:59:10 (1692)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því ef þessi fsp. er á misskilningi byggð. Það kann að vera að ég hafi ekki orðað þetta rétt, en ég skildi þetta þessum skilningi eins og segir í fjárlögunum að sendiherra Íslands í Bandaríkjunum gegnir jafnframt starfi fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York.
    Ég á sannast að segja erfitt með að skilja það og vil biðja hæstv. utanrrh. að skýra það betur hvernig þetta á að fara saman því þrátt fyrir það að fjórir starfsmenn verði áfram í New York þá gegnir sendiherrann miklu hlutverki líka í þeirri starfsemi og fundahöldum sem þarna fara fram. Það er hann sem ásamt sínu starfsliði fylgist með öllu því sem gerist hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég ítreka þá spurningu hvort utanrrh. telji að með þessum hætti verði þessum störfum sinnt á þann hátt sem nauðsyn ber til, sérstaklega með tilliti til þess ef pólitískt hlutverk Sameinuðu þjóðanna eflist frá því sem nú er. En eins og ég nefndi áðan þá er það sú þróun sem ég vil helst sjá.