Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 14:07:19 (1712)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ræða hæstv. forsrh. varð mér sár vonbrigði og hlýtur að hafa orðið það líka fyrir aðra þá þingmenn Reyknesing sem hér hafa tekið til máls, líka sjálfstæðismennina. Við heyrum enn gömlu klisjurnar um almennar aðgerðir. Að vísu kom viðskrh. og viðurkenndi hér annað veifið að sértækra aðgerða væri þörf þó að hann slægi í og úr.
    Ég hlýt að hafna því að sértækar aðgerðir þurfi endilega að vera skammvinnar og veit ekki hvaðan sá fróðleikur er kominn og að sértækar aðgerðir séu plástrameðferð. Hvað þá með hinn risastóra plástur sem herinn hefur verið?
    Ég vil líka leiðrétta það að ástandið á Suðurnesjum nú sé sambærilegt við fyrri ár eða í versta falli aðeins verra. Atvinnuleysistölur frá janúar eru nefnilega ekki dæmigerðar. Það sem er nýtt núna er að það sem áður var árstíðabundið atvinnuleysi er nú orðið viðvarandi atvinnuleysi í heilt ár og þar á ég ekki síst við þær fjölmörgu konur sem hafa gengið atvinnulausar.
    Ég verð einnig núna að undrast að heyra það að atvinnustefna okkar kvennalistakvenna sem byggist á fjölbreytni og því að trúa ekki á eina patentlausn sé kennd við þröngsýni því að í mínum augum er það eitt þröngsýni að benda á einhverja eina allsherjarlausn og vona að hún bjargi öllu. Ég heyrði ekki betur en hér væri verið að kalla á eitthvert eitt stórt atvinnutækifæri eða fyrirtæki til þess að leysa allan vanda. Þetta gengur auðvitað ekki upp og ef stjórnvöld ætla að leggja upp með þessum hætti að finna annan her eða annað álver, þá er ekki á góðu von.