Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 14:43:34 (1716)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka það að þessi skýrsla hefur verið unnin og umræður um hana skulu fara fram á Alþingi. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að þessi umræða skuli fara hér fram því sjaldan eða aldrei hefur verið jafnmikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með og hafa áhrif á mótun hinnar norrænu samvinnu.
    Þetta samstarf er á margan hátt einsdæmi í heiminum og hefur verið mikilvægur þáttur og ein mikilvægasta stoðin í utanríkismálum og utanríkisstefnu Íslendinga. Þessar fimm tiltölulega litlu þjóðir á heimsmælikvarða hafa þróað með sér samstarf um áratuga skeið og við höfum náð þar miklum árangri. Það er alveg ljóst að rödd Íslands hefur heyrst betur í heiminum vegna hins norræna samstarfs. Íslendingar sem þjóð og einstaklingar hafa notið sín betur í alþjóðasamskiptum vegna hins norræna samstarfs.
    Þetta samstarf hefur verið að þróast í gegnum áratugina en það má segja að á sviði efnahagsmála hafi það ekki verið mjög umfangsmikið þótt ítarlegar tilraunir hafi verið gerðar til að auka það. Við munum hvernig fór fyrir NORDEK fyrir um að bil 20 árum í Reykjavík. Alla tíð síðan hefur umræðan átt sér stað en nú hafa spurningarnar um efnahagssamstarfið og viðskiptasamstarfið flust að verulegu leyti inn á vettvang umræðunnar um Evrópskt efnahagssvæði og aðildar Norðurlandanna að Evrópubandalaginu.
    Að sjálfsögðu vakna við þetta áleitnar spurningar, spurningar sem við Íslendingar þurfum líka að spyrja og átta okkur á því hvernig við getum best haft áhrif á þessa samvinnu þannig að hún verði okkur í hag. Að mínu mati er alveg ljóst að breytingar á norrænni samvinnu munu taka mið af þeim staðreyndum sem nú blasa við í Evrópu. Þær munu taka mið af þeim staðreyndum að Norðurlöndin ætla sér að verða aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og sum að Evrópubandalaginu.
    Ég hef kosið að vinna að þessu máli í samræmi við þessar staðreyndir og vil leggja mig fram í samstarfi innan Norðurlandaráðs til að hafa áhrif á stöðu mála á þessum grundvelli. Ég geri mér ljóst að ekki verður hjá því komist en tel að við Íslendingar getum haft hér veruleg áhrif bæði sem þjóð og sem þingmenn. Ráðherrar geta að sjálfsögðu líka haft áhrif inn í þá flokkahópa þar sem þeir starfa. Það er staðreynd að flokkahóparnir gegna meira og meira hlutverki innan Norðurlandaráðs.
    Fyrst þegar skýrsla frá samstarfsráðherrum Norðurlandanna kom fram skömmu fyrir áramót var í henni sú almenna skoðun að draga ætti verulega úr norrænu samstarfi á þeim sviðum sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði yfirtekur. Það var a.m.k. skilið svo af flestum sem lásu þessa skýrslu þó að það hafi nokkuð verið dregið til baka síðar.
    Í þeirri skýrslu kom fram að nauðsynlegt væri að leggja sérstaka áherslu á önnur svið og þá sérstaklega menningarmál og umhverfismál. Það voru margir og ég var einn í þeim hópi sem hafði þau viðhorf að ekki mætti draga úr samvinnunni. Fremur væri ástæða til að styrkja samvinnu á þessum sviðum vegna tilkomu hins Evrópska efnahagssvæðis því að Norðurlöndin þyrftu á meiri sameiginlegum styrk þar að halda en alls ekki að draga úr samstarfinu.
    Næsta skref þessa máls var svo að það kom skýrsla frá forsætisráðherrum Norðurlandanna í byrjun mars. Sú skýrsla gaf þær vísbendingar að ekki skyldi dregið úr samstarfi á hinum ýmsu sviðum efnahagsmála og atvinnumála og því finnst mér mikilvægt að líta á þetta mál í þessu ljósi því mér finnst núverandi skýrsla gefa tilefni til þess að ætla að farið sé í þá átt sem samstarfsráðherrarnir lögðu til skömmu fyrir síðustu áramót jafnvel þótt mörg orð í skýrslunni bendi til annars.
    Ég vil fyrst gera að umtalsefni eina helstu tillögu þessarar skýrslu að mikilvægi. Það er sú tillaga að breyta allverulega áherslum í norrænu samstarfi með því að stofna sérstakan menningarsjóð undir sérstakri stjórn og menntmálaráðherrarnir setji þessum nýja sjóði starfsreglur. Eins og hæstv. forsrh. tók fram er gert ráð fyrir að þessi sjóður fái sem tillag um 200 millj. danskar á ári fram til næstu aldamóta eða þar til sjóðurinn hefur náð því að verða 1 milljarður kr. Nú geri ég ekki ráð fyrir því að reiknað sé með því að þessi sjóður einn komi til með að standa undir menningarsamstarfinu. Þó að hann verði orðinn 1 milljarður um árið 2000 er alveg ljóst að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hans ávöxtun sé meiri en 100 millj. danskra króna á ári og eitthvað kostar að reka hann sem má áreiðanlega áætla um 15 millj. kr. 85 millj. duga skammt í þessu samstarfi þegar tekið er mið af þeirri staðreynd að menningar- og rannsóknasamstarfið í dag samkvæmt fjárlögum fyrir 1993 er 238 millj. danskra króna.
    Ef litið er á þessar tölur eins og þær birtast þýðir það einfaldlega að ef rammi fjárlaganna á að vera óbreyttur, 650 millj., og síðan á að taka af þessum ramma 200 millj. í sjóðinn og halda áfram núverandi menningar- og rannsóknasamstarfi í svipaðri mynd, eða 250 millj. kr., er ekki mikið eftir, eða um 200 millj.
    Síðan er gert ráð fyrir því að samstarf á sviði umhverfismála verði aukið verulega sem þýðir væntanlega að það eigi að setja aukið fjármagn til þeirra hluta. Án þess að ég ætli að gefa mér neinar forsendur í því sambandi má gera ráð fyrir því að það verði einhvers staðar á bilinu 50--100 millj. kr. og það verður líka að taka mið af því að það kostar verulegar fjárhæðir að reka þetta samstarf. Þannig kostar ráðherranefndarskrifstofan í dag einar 70 millj. danskar. Mér sýnist því að ef þetta er sá rammi sem er til umfjöllunar verði lítið eftir til annarra hluta.
    Hins vegar kemur fram í skýrslunni að það eigi að leggja áherslu á önnur málefni t.d. byggðamál og einnig málefni norrænna borgara. Til þessara málaflokka er eytt verulegu fjármagni í dag. Ég fæ ekki séð hvernig nefndin hugsar sér að koma þessum forgangsverkefnum að með bærilegum hætti, mynda þennan sjóð og sinna jafnframt ýmsum öðrum málum sem er nauðsynlegt að sinna og ekki síst á sviði efnahagsmála. Og ég minni á að á sama tíma er búið að ákveða að hætta við það sérstaka fjármagn sem hefur verið varið til aðgerða á sviði efnahagsmála og hefur verið á bilinu 50--70 millj. á ári.
    Þetta er sú mynd sem blasir við þegar þessar tölur eru lesnar. Það er mikilvægt að menn skýri þetta betur og segi nákvæmlega fyrir um hvað hugmyndin er að gera en séu ekki að færa þetta mál í einhvern fallegan búning menningarsamstarfs, sem ég vil á engan hátt gera lítið úr, og síðan eigi að meira eða minna leyti að hætta við samstarf á öðrum sviðum. Þetta mundi að mínu mati eyðileggja hið norræna samstarf og veikja möguleikana til aukins samstarfs á öðrum sviðum sem ég tel að þurfi að styrkja að því er varðar hið Evrópska efnahagssvæði og hugsanlega að því er varðar aðra í sambandi við væntanlega inngöngu í Efnahagsbandalagið.
    Nú ætla ég ekkert að fullyrða um hvort það er svona sem á að skilja þetta mál en ég tel að nefndin og þá forsætisráðherrarnir skuldi skýringar á því á fundinum í Árósum á næstunni hvernig þeir líta á þessa skiptingu. Til þess að ég segi mína skoðun á því hvað þarna eigi að gera, þá er hún sú að það eigi að hætta að tala um þennan menningarsjóð. Ég tel að sú hugmynd að taka tvo þriðju af 300 millj. sem varið er til sérstakra verkefna og leggja í menningarsjóð sé ekkert annað en tillaga um að draga tímabundið úr umsvifum Norðurlandasamstarfsins. Það hljóta allir að sjá að ef á að leggja þriðjung af fjármagninu á bankabók um nokkurra ára skeið, þá er það tillaga um að draga úr samstarfinu nema það sé ætlunin að veita meira fjármagni til þess sem ég hef hvergi séð og ég hef vissar efasemdir um að muni verða að veruleika.
    Hitt er svo annað mál að það ber að sjálfsögðu að fara á gagnrýninn hátt yfir hvert einasta verkefni sem nú er á vegum Norðurlandaráðs og í hinu norræna samstarfi, hvort sem það eru sérstök verkefni, sérstakar stofnanir o.s.frv. Ég er alveg viss um að út úr þessari endurskoðun getur komið allverulegur sparnaður. Ég hef að vísu efasemdir um að það gætu verið 200 millj. En margt er verið að gera sem má gera með öðrum hætti og ekkert á að vera heilagt í þeim efnum. Ég er alveg viss um að sú fjárhæð sem kæmi út úr slíkri yfirferð gæti nýst vel til annarra verkefna á sviði menningarmála, umhverfismála, efnahagsmála, byggðamála o.s.frv. Ég ætla ekki að hafa neinar fyrirfram skoðanir á því hvað þar eigi að skipta mestu máli. Ég minni hins vegar á það að við höfum nú þegar menningarsjóð sem hefur starfað ágætlega. Hann styrkir mörg verkefni en mjög mörgum umsóknum getur hann ekki sinnt. Að mínu mati hlýtur það að vera eitt af því sem til álita kemur að styrkja þann menningarsjóð betur með því fjármagni sem hugsanlega mundi sparast við slíka yfirferð.
    Annað atriði sem ég vildi gera að umtalsefni er hættan á því að það verði niðurskurður á verkefnum og stofnunum sem geta skipt okkur Íslendinga miklu máli. Ég teldi það t.d. mjög slæmt ef iðnaðarsjóðurinn yrði skorinn niður. Ég teldi það jafnframt mjög slæmt ef það samstarf, sem hefur tekist á undanförnum árum, á sviði fiskveiðimála svo ég nefni það dæmi, sem hefur nokkuð átt á brattann að sækja, yrði lagt niður og þannig gæti ég nefnt fjölmörg verkefni sem skipta miklu máli. Og eftir því sem minna fjármagn verður til ráðstöfunar á þessum sviðum og minna er um að vera þeim mun minni áhuga munu helstu embættismenn þjóðanna hafa á samstarfinu og þeim mun minni áhuga munu ráðherrar hafa á samstarfinu.
    Það er að vísu sagt og það kemur hér skýrt fram í skýrslunni að þetta samstarf eigi að færast í meira mæli yfir í óformlegt samstarf. Forsrh. eiga að hafa með sér óformlegt samstarf í auknum mæli, fagráðherrarnir o.s.frv. Ég er ekki og vil ekki gera lítið úr því að auka hið óformlega samstarf og ég get út af fyrir sig tekið undir margt sem hér er sagt. Það segir t.d. hér í skýrslunni, með leyfi forseta:
    ,,Starfshópurinn telur að óformlegt pólitískt samstarf Norðurlanda muni fá aukið vægi. Því verður enn brýnna en ella að stuðla að sameiginlegri stefnumótun hvað snertir jafnt hið óformlega og formlega samstarf. Þetta er sameiningarverkefni sem best fer á að sé í höndum forsætisráðherranna.``
    Þetta er út af fyrir sig ágætt svo langt sem það nær og það stendur hér einnig í skýrslunni á bls. 33, með leyfi forseta:
    ,,Meginhlutverk Norðurlandanna`` og þá er nú verið að tala um norrænt samráð innan Evrópubandalagsins, ,,innan Evrópubandalagsins er að stuðla að frekari þróun óformlegra samskipta hvert við annað.``
    Nú er mér alveg ljóst að margt af því samstarfi, sem menn hafa átt á sviði Norðurlandanna, mun færast að einhverju leyti yfir í samstarfið um EES og yfir í samstarfið um Efnahagsbandalagið fyrir þær þjóðir sem það gildir fyrir. En þótt óformlegt samstarf sé mikilvægt þá þarf það jafnframt að vera stutt formlegu samstarfi. Það má ekki fara svo að samstarfið gangi út á það að embættismenn og ráðherrar hittist svona kvöldið áður en þeir fara til fundar í Brussel eða einhvers staðar annars staðar. Ég held að það þurfi að undirbúa alla slíka fundi og þá er mikilvægt hver hefur þann undirbúning með höndum.
    Það er víða talað hér um að formennskan eigi að vera virk eða ,,aktív`` eins og einhvers staðar stendur. Auðvitað er það mikilvægt að formennska sé virk á hverjum tíma. En eftir því sem samstarfið verður óformlegra þeim mun meira máli skiptir að þessi formennska sé virk alla tíð.
    Mismunandi persónur koma að þessum málum og í dag hafa menn e.t.v. utanrrh. sem hefur engan sérstakan áhuga á norrænu samstarfi hjá einhverri norrænu þjóðanna, en á morgun fá menn annan sem hefur mikinn áhuga á því og þar af leiðandi má þetta ekki byggja eingöngu á því hvað viðkomandi ráðherra vill á hverjum tíma þó að það skipti vissulega miklu máli. Það verða að vera einhverjir embættismenn sem undirbúa slíka fundi og halda utan um málið og ég held því að ráðherranefndarskrifstofan í Kaupmannahöfn komi til með að skipta miklu máli í sambandi við samstarfið á sviði hins Evrópska efnahagssvæðis og þá Efnahagsbandalagsins fyrir þá sem þangað ætla.
    Ég vil í þessu sambandi minna á það að þegar við fengum eina fyrstu skýrsluna um þetta mál, sem var skýrsla utanríkisstofnananna á Norðurlöndunum sem Háskóli Íslands átti aðild að og kom út 1991, þá var það eitt af meginefnum hennar að Norðurlandasamstarfið byggði á veikum stofnunum og að þeirra mati yrðu þessar veiku stofnanir vandamál og þess vegna þyrfti að styrkja stofnanaþáttinn í Norðurlandasamstarfinu. Ég tel að þessi skýrsla sem hér er komin gangi í aðra átt. Hún gangi í þá átt að veikja stofnanir Norðurlandasamstarfsins. Ég vil m.a. styðja það þeim rökum að það er ekki gert ráð fyrir því að auka starfið á ráðherranefndarskrifstofunni í Kaupmannahöfn, þvert á móti á að draga úr því og þar með að draga úr þeirri fagþekkingu sem þar kann að vera til staðar. Ég held að það sé alveg ljóst að ef hið Evrópska efnahagssvæði og samningurinn um það gerir alveg nýjar kröfur til norræna samstarfsins og það sé þörf á því að auka fjármuni til þess samstarfs á norrænum vettvangi og það þurfi að styrkja þær stofnanir sem þar eiga að starfa.
    Ég vil líka í þessu sambandi gagnrýna það hvernig hugmyndin er að svo miklu leyti sem hægt er að lesa út úr þessari skýrslu. Ekki verður annað séð en það sé hugmyndin að fækka embættismannanefndum mjög verulega. Nú vil ég taka fram að það er sjálfsagt að sameina eitthvað af embættismannanefndunum í þeim tilfellum að verkefni þeirra skarist eða þá embættismannanefndum sem ekki hafa unnið sérstaklega vel að mati þeirra sem þekkja til. Ég get ekki dæmt en ef á að fara að setja upp tiltölulega fáar embættismannanefndir sem vinna á stórum sviðum þá líst mér ekkert á það. Það er hægt að skilja skýrsluna svo að það skuli gert. Síðan geti þessar stóru embættismannanefndir komið verkefnunum í minni fagnefndir.
    Ég ætla máli mínu til stuðnings að taka dæmi af embættismannanefnd sem ég þekki til. Fyrir nokkrum árum var sett á stofn embættismannanefnd um sjávarútvegsmál innan Norðurlandaráðs. Þessi embættismannanefnd hefur starfað prýðilega og á grundvelli starfs hennar hefur samstarf sjútvrh. Norðurlandanna verið aukið. Nú mætti hugsa sér að þessi nefnd yrði lögð niður og önnur nefnd yfirtæki hennar starf ásamt landbúnaðarmálum, jafnvel iðnaðarmálum og hugsanlega byggðamálum. Það hefur ekki komið fram hversu stórar þessar nefndir væru. Það liggur alveg ljóst fyrir að þessi stóra nefnd gæti ekki unnið þau verkefni sem t.d. nefndin um sjávarútvegsmál hefur unnið og því yrðu þau væntanlega sett í undirnefnd. Með þessu er búið að búa til nýtt stig í samstarfinu og ég held að þetta mundi allt gera það minna áhugavert og verða til þess að ráðherrar ræktu það ekki jafn vel og yrði líka til þess að bestu embættismennirnir í stjórnsýslunni á Norðurlöndunum mundu heldur ekki rækja það jafn vel og mundu þá senda einhverja fyrir sig til að sinna þessu starfi. Það má vel vera að ég sé að gera of mikið úr þessu máli en ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Mér finnst svo margt vera í mótsögn hvað við annað að ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að gefa sér betri tíma í þetta mál. Og þeir sem þetta hafa unnið þurfi að gera forsætisráðherrunum betur grein fyrir því þannig að ekki eigi sér stað neitt slys í þessu sambandi. En það er einmitt ástæðan fyrir umræðunni sem nú fer fram að við fáum tækifæri til þess að gagnrýna það sem þarna er sett fram, koma fram með okkar eigin hugmyndir og vara við því sem þarna gæti hugsanlega verið á ferðinni.
    Ég er t.d. alveg fullviss um að einhverjir þeir eru til sem vilja draga verulega úr þessu samstarfi og það má vel vera að áhrif þeirra séu nokkur. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hagsmunir okkar Íslendinga liggi ekki í því. Þeir liggi í því að efla þetta starf og gera það sterkara og árangursríkara. Hins vegar eigum við Íslendingar að sjálfsögðu að taka þátt í að endurskipuleggja það og breyta um áherslur. Það var kominn tími til þess alveg án tillits til þess að ekki hefðu farið af stað samningarnir um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Það er vissulega fleira sem er ástæða til að ræða. Hér er t.d. gert ráð fyrir að sett verði á stofn ný stjórn sem skuli stýra þessu starfi í umboði samstarfsráðherranna og spurningin er: Er hér verið að minnka áhrif hins pólitíska valds og auka vald embættismanna? Það er ekki beint hægt að lesa það út úr

þessu en það gæti verið, en þar á móti er það staðreynd að gert er ráð fyrir því að auka starf forsætisráðherranna og áhrif þeirra á samstarfið. Hins vegar er það alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að það vantar að skilgreina þetta betur og skilja í milli þess sem forsætisráðherrarnir bera ábyrgð á annars vegar og samstarfsráðherrarnir hins vegar.
    Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að hætta að hafa samstarfsráðherrana. En ég tel hins vegar mikilvægt að það sé alveg skýrt hvað þeir eigi að gera og þeir hafi óskoruð völd fyrir hönd sinna ríkisstjórna og í umboði sinna forsætisráðherra. Hins vegar ber það vott um aukna þýðingu þessa samstarfs að forsætisráðherrarnir komi meira þar inn, en það má þá ekki vera aðeins í orði heldur jafnframt á borði. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að forsætisráðherrar Norðurlandanna hafa um ýmislegt annað að hugsa og þurfa að sinna fleiri málum en þessum. Og ef það yrði niðurstaðan að aukið vægi forsætisráðherranna í þessu starfi kæmi fyrst og fremst fram í því að þeir sendu embættismenn sína til þess að vinna öll þau verk, sem samstarfsráðherrarnir hafa að einhverju leyti unnið áður, þá er verið á vissan hátt að draga úr pólitískum áhrifum innan Norðurlandaráðs. Þetta er hins vegar hlutur sem á eftir að ræða betur og fara betur í gegnum og ég tók eftir því að hæstv. forsrh. skýrði frá því hér áðan.
    Eitt af því sem menn ræða í sambandi við hina nýju skipan er hvernig hægt er að auka áhrif þingmanna í þessu samstarfi. Ég hef skilið það svo að það sé almennur vilji að svo verði, en það verður ekki ráðið af þessari skýrslu að svo muni verða en það er e.t.v. ekki verkefni þeirra sem hana sömdu að útfæra það heldur þingmannanna sjálfra. Ég tel að áhrif þingmanna á þetta samstarf verði ekki aukið í verulegum mæli nema þeir þurfi meira að fjalla um fjárlögin. Eins og málum er háttað í dag, þá eru það samstarfsráðherrarnir sem leggja fjárlagafrv. fram en það mætti hugsa sér að þeir ásamt forsætisnefndinni fyrir hönd ráðsins legðu fjárlagafrv. fram og síðan væri það samþykkt af ráðinu. Með því væri tryggara að ráðið hefði meiri áhrif á gerð fjárlaganna sem kæmi þá fram í því að sérhver nefnd þyrfti að vinna sína undirbúningsvinnu eins og gert er í dag, koma henni síðan áfram til forsætisnefndarinnar sem hefði með höndum lokastig samninga við samstarfsráðherrana. Auðvitað má líka hugsa sér að þetta fari fram með öðrum hætti, þ.e. að fjárlaganefndin hefði með það að gera þar sem sitja m.a. formenn nefnda. Þetta ætla ég ekki að fullyrða neitt um á þessu stigi, en ég bendi á að þetta er meginmál í sambandi við aukin áhrif þingmanna á samstarfið.
    Það er líka grundvallaratriði í sambandi við áhrif þingmanna að ráðherrar og þingmenn haldi áfram að mætast í Norðurlandasamstarfinu, bæði á Norðurlandaráðsþingum og með sameiginlegum fundum ráðherra og þingmanna. Með því að þingmenn og ráðherrar hittast hlýtur það að hafa pólitísk áhrif á það sem gert er og því væri það að mínu mati mikil afturför ef ráðherrarnir mundu að verulegu leyti hverfa af fundum Norðurlandaráðs. Það er að vísu ekki gert ráð fyrir því en eins og ég skil þessar tillögur þá er gert ráð fyrir að það muni verulega draga úr því.
    Nú má vel vera að stundum hafi verið lögð einum of mikil áhersla á mætingu ráðherranna og því er ekkert að leyna að manni finnst stundum að það mæti allt of stór hópur á Norðurlandaráðsþing og þá ekki síst hinn mikli fjöldi embættismanna sem fylgir ráðherrunum. Ég tel sjálfsagt að leita leiða til þess að draga úr þessum mikla fjölda og fækka e.t.v. eitthvað ráðherrum í sambandi við þingin. En ég tel að það væri mjög slæmt ef viðvera þeirra væri sáralítil, alveg á sama hátt og mönnum þætti það nokkuð skrýtið hér á Alþingi Íslendinga ef hér væru allt í einu engir ráðherrar til að skamma. Og ég býst við því að hæstv. núv. ráðherrar hafi orðið varir við að þeirra hefur stundum verið saknað hér í salnum. ( Gripið fram í: Af þeim ástæðum?) Ja, sérstaklega af þeim ástæðum og náttúrlega ekki síst vilja þingmenn nú gjarnan reyna að hafa vit fyrir ráðherrum og líka að koma tillögum til þeirra og hafa áhrif á þeirra gerðir ef þess er nokkur kostur. Þetta er nú eðli hins pólitíska starfs hverjir sem sitja í þessum ráðherrastólum og það sama á við um Norðurlandasamstarfið. Menn vilja hitta norræna ráðherra, ekki endilega til að skamma þá, það er nú kannski ástæðulaust að gera það að aðalatriði en til þess að ræða við þá um norræn mál og um áhugamál sem uppi eru og það er líka mikilvægt fyrir ráðherrana að hafa samskipti við ráðið og þingmennina sem þar eru. Ég er viss um að það gefur þeim betra jarðsamband í norrænu samstarfi með sama hætti og það gefur ráðherrum nokkurt jarðsamband að hlusta á tal þingmanna hér á Alþingi.
    Eitt af því sem kemur fram í þessari skýrslu er sameining skrifstofanna í Stokkhólmi og í Kaupmannahöfn. Ég tel sjálfsagt að færa þessar skrifstofur á einn stað en legg hins vegar áherslu á að þær þurfa að halda sjálfstæði sínu. Það verður að vera alveg ljóst að það er annars vegar um að ræða skrifstofu ráðherranefndarinnar og hins vegar skrifstofu Norðurlandaráðs. Það má hins vegar sameina margt í þeirra starfi eins og fjármál og vissa stjórnun og margt fleira, en annars vegar er um starfsmenn þingmannanna að ræða og hins vegar er um starfsmenn ráðherranna að ræða og þessi aðskilnaður verður að vera skýr. Það er hins vegar mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað þessar skrifstofur eiga að gera og þá er mikilvægast hvort þær eiga að vinna á samnorrænum grundvelli eða ekki eða hvort starfið eigi að færast í meira mæli yfir til þjóðanna sjálfra, undirbúningsstarfið færist meira þangað eða hvort það eigi áfram að leggja áherslu á og e.t.v. auka það að reka það á samnorrænum grundvelli. Í þessu sambandi hefur t.d. komið fram sú tillaga að færa nefndarritarana til þjóðlands sem fer með formennsku í viðkomandi nefnd. Þessi tillaga er byggð á því að starf formannsins yrði virkara með því að færa nefndarformanninn til hans heimalands og á skrifstofu þjóðlandsins. Ég hef miklar efasemdir um þetta og það hefur komið fram að um það erum við sammála í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Og ég tel að þetta sé kannski sérstaklega varhugavert fyrir okkur Íslendinga sem höfum veikara embættismannakerfi en margar aðrar þjóðir af augljósum ástæðum, ekki vegna þess að við séum ekki með góða einstaklinga heldur vegna þess að við erum fámenn þjóð með miklu fámennara embættismannakerfi. Okkar fámenna embættismannakerfi mun eiga í erfiðleikum með að sinna þessari virku formennsku á öllum sviðum hvort sem er á sviði Norðurlandaráðs eða á sviði hins Evrópska efnahagssvæðis. Og þess vegna er okkur mikilvægara en flestum öðrum að stofnanir Norðurlandaráðs séu sterkari og við höfum okkar áhrif þar og getum treyst því að það er haldið á okkar hagsmunum. Ég vil ég sérstaklega leggja áherslu að þetta verði haft í huga í sambandi við sameiningu skrifstofanna.
    Ég vildi svo aðeins að lokum nefna vestnorræna samstarfið og sjálfstjórnarlöndin, Færeyjar, Grænland og Álandseyjar. Það er ekki beint tekin afstaða til vestnorræna samstarfsins í þessari skýrslu heldur eingöngu vísað til þeirra tillagna sem hafa komið fram í því máli án þess að það sé tekin afstaða til þeirra. Vestnorræna samstarfið skiptir miklu máli. En þá skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli að það sé mikill styrkur í því samstarfi sem snertir þetta vestnorræna samstarf eins og á sviði ferðamála, eins og á sviði byggðamála og á sviði sjávarútvegsmála. Það er mín skoðun að þeim mun meira almennt samstarf á þessum sviðum þeim mun sterkara verði vestnorræna samstarfið. Ég hef alltaf verið hræddur við að setja þetta samstarf of mikið á einn bás heldur hef ég verið þeirrar skoðunar að það væri mikilvægt að styrkja samstarf Norðurlandaþjóðanna sem styrkir þetta samstarf sérstaklega.
    Að því er varðar Færeyjar og Grænland, þá sýnist mér að staða þeirra verði veikari í hinu norræna samstarfi eftir þessar breytingar, það sé a.m.k. mikil hætta á því. Og aðalástæðan er að sjálfsögðu sú að það er ekki gert ráð fyrir því að Færeyjar og Grænland verði aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði og þess vegna er að sjálfsögðu hætt við því að margt sem snertir þær þjóðir verði út undan í sambandi við þetta samstarf. Ég tel þrátt fyrir að margt af því sem þarna muni fara fram muni snerta þessa þætti þá eigi að reyna að tryggja virka þátttöku þessara þjóða m.a. í samstarfi forsætisráðherranna og mikilvægustu embættismannanefnda, sérstaklega á þeim sviðum sem skipta meginmáli fyrir þessar þjóðir. Það er okkur Íslendingum mikilvægt að nágrannar okkar, Grænlendingar og Færeyingar, haldist með virkum hætti inni í þessu samstarfi og það skiptir ekki síst vestnorræna samstarfið miklu máli að staða Grænlendinga og Færeyinga sé trygg í sambandi við hið nýja samstarfsform.
    Ég vildi síðan aðeins að lokum nefna samstarf við nágrannaríkin. Við þekkjum að það hefur verið stofnað Eystrasaltsráð fyrir forgöngu danska utanríkisráðherrans. Þessi stofnun Eystrasaltsráðsins hefur valdið okkur Íslendingum nokkrum áhyggjum og við höfum lent þar nokkuð utan gátta og ekki verið með meðan á undirbúningi stóð. Við höfum hins vegar fengið góðar undirtektir um að við gætum verið þátttakendur í þessu samstarfi sem ég vænti að verði, en hins vegar læðist stundum að manni sá grunur að það séu e.t.v. uppi hugmyndir um það að færa einhvern hluta af því fjármagni, sem er til ráðstöfunar innan Norðurlandaráðs, yfir í þetta samstarf sem ég tel fyrst og fremst vera pólitískt samstarf af allt öðrum toga en Norðurlandasamstarfið. Og það sama á við um tilraunir norska utanríkisráðherrans nú til að stofna Barentshafsráð og hefur hann lagt í það mjög mikla vinnu. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst Íslendingar vera hálfutangátta í sambandi við þann undirbúning og tek eftir því bæði í ræðum Thorvalds Stoltenbergs og Gro Harlem Brundtland um þetta mál að Ísland er þar ekki nefnt á nafn. Hins vegar eru önnur ríki nefnd með sama hætti og þegar danski utanríkisráðherrann var að vinna að undirbúningi Eystrasaltsráðsins, þá var Ísland þar ekki nefnt.
    Allar þessar hræringar skipta okkur miklu máli og við megum vara okkur á því að lenda ekki utan gátta í þessari þróun. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að sú hugsun, sem norski utanríkisráðherrann setur fram, sé of þröng. Það þurfi víðtækara samstarf á norðurslóð en hann ætlar sér en þá eigum við Íslendingar að taka þátt í þeirri vinnu sem unnin er af hans hálfu og reyna að hafa sem mest áhrif þar á. Það er að sjálfsögðu verkefni utanrrn. og utanrrh. og það minnir á að það er mjög mikilvægt að íslensk utanríkisþjónusta sé ávallt vakandi að því er varðar norræna samvinnu. Það er ekki nóg að leggja það verkefni á forsrh. og samstarfsráðherra. Það verður líka að vera verkefni utanrrn. vegna þess að utanrrn. hefur fleira starfsfólk til að sinna slíkum málum og samstarfsráðherra og forsrh. hljóta að verulegu leyti að þurfa að treysta á starf þess. Og ég get ekki að því gert og ég ætla að hafa það mín lokaorð að mér finnst íslensk utanríkisþjónusta ekki sinna því máli nægilega vel og ég tel að það þurfi að taka það til umræðu og endurskoðunar. Ég veit að utanríkisþjónustan er fámenn en mér finnst hún beina athygli sinni í of litlum mæli að málefnum norræns samstarfs og ég tel að þar þurfi að verða grundvallarbreyting á. Hæstv. utanrrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu. Það er mál sem ég hef áður rætt við hann en ég vænti þess að hæstv. forsrh. beiti áhrifum sínum til þess að utanríkisþjónustan sinni þessum málum í meira mæli.
    Ég vil taka það skýrt fram að með þessu er ég ekki sérstaklega að gagnrýna núv. ríkisstjórn því að þessar rætur liggja dýpra. En ég vil hins vegar gagnrýna ýmislegt af því sem hæstv. utanrrh. hefur sagt í gegnum tíðina um norrænt samstarf og hefur heldur verið í þá átt að gera lítið úr því því að það er einmitt hvað mikilvægast fyrir okkur Íslendinga nú í sambandi við aukið samstarf í Evrópu og í reynd alþjóðlegt samstarf á ýmsum sviðum að auka hið norræna samstarf. Þetta er í sjálfu sér ekkert flókið. Við erum lítil þjóð með takmarkaða möguleika til að hafa mikið af fólki á öllum sviðum og þess vegna verður samvinnan við Norðurlöndin okkur miklu mikilvægari í hinu vaxandi alþjóðlega samstarfi og þess vegna vænti ég þess að við Íslendingar getum náð um það samstöðu að beita öllum áhrifum okkar til þess að út úr þessari endurskoðun komi sterkara norrænt samstarf, virkara norrænt samstarf en ekki veikara og að

mestu leyti óformlegt. Ég hef vissan ótta í því sambandi en ég vona að okkur takist að afstýra því.