Foreldrafræðsla

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 13:40:13 (1739)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson ):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um foreldrafræðslu sem er að finna á þskj. 134.

1. flm. þessarar tillögu er hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir en auk hennar Anna Ólafsdóttir Björnsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að beita sér fyrir því að tekin verði upp foreldrafræðsla í skólum landsins, í fjölmiðlum og í samráði við heilbrrh. á heilsugæslustöðvum. Skipaður verði vinnuhópur sem komi með tillögur um æskilegt inntak, form og umfang foreldrafræðslu á fyrrgreindum stöðum fyrir 1. nóv. 1993.``
    Tillaga þessi er endurflutt en hún var fyrst lögð fram undir lok 113. löggjafarþings og varð þá ekki útrædd. Efni tillögunnar er jafnviðeigandi nú, enda er uppeldi barna eitt af grundvallarviðfangsefnum hvers samfélags á hverjum tíma.
    Ég mun ekki endurtaka greinargerðina sem fylgir þáltill. en vísa í hana. Eins og fram kemur þar bera foreldrar mikla ábyrgð samkvæmt skipulagi uppeldismála í okkar þjóðfélagi og margt bendir til þess að þeir hafi erfiða stöðu til þess að sinna foreldraskyldum sínum. Þar er þá fyrst og fremst átt við langan vinnudag og mikla atvinnuþátttöku foreldra sem m.a. gerir foreldrum erfitt að sinna samstarfi við aðrar uppeldisstofnanir, svo sem leikskóla og skóla eða stofnun eins og kirkjuna.
    Þessi tillaga er flutt í þeim tilgangi að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu sem að mati flutningskvenna er mikilvægt til að núverandi uppeldisskipan fái staðist, auk þess sem fleiri aðgerðir þyrftu að koma til. Auk ofannefndra ástæðna fyrir fræðslu af þessu tagi er bent á eftirfarandi rök í greinargerðinni með tillögunni:
    1. Engin fræðsla um foreldrahlutverkið og barnauppeldi er í boði fyrir alla í skólakerfinu eða annars staðar í þjóðfélaginu. Ástæður þess eru margvíslegar. Þær tengjast m.a. skilgreiningum á hugtakinu menntun, því hvernig hefðbundin skólanámsskrá þróaðist á grunni kynskiptra skóla og ekki síst á hlutverkamun kynjanna í uppeldismálum.
    2. Bent er á þau rök að vísindaleg þekking á þroska og uppeldi barna hefur stóraukist á liðnum áratugum án þess að komast til foreldra almennt. Ætla má að það dragi úr öryggi foreldra í samskiptum við sérmenntað fólk á dagvistarheimilum og í skólum.
    3. Bent er á að þótt foreldrar hafi hingað til getað byggt á reynslu fyrri kynslóða eru aðstæður nútímaforeldra og barna, a.m.k. í þéttbýli, mjög breyttar frá því sem foreldrarnir sjálfir þekktu frá eigin uppvexti. Í þessu sambandi má benda á eftirfarandi: Mun takmarkaðri tími er til samskipta en áður. Börnin í hverri fjölskyldu eru að meðaltali færri. Foreldrar þurfa að hafa samskipti við æ fleiri aðila sem annast börn þeirra í leik, námi og starfi. Hjónaskilnaðir eru tíðir, nýjar fjölskyldugerðir að verða æ algengari, t.d. stjúpfjölskyldur, og mun fleiri foreldrar eru einstæðir nú en bjuggu við slíkar aðstæður sem börn. Fjölmiðlar keppa við foreldra um athygli á heimilinu. Þá má minna á staðreyndir um einelti sem við kvennalistakonur höfum raunar sérstaklega gert skil, fíkniefnaneyslu, kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, börn á vergangi og sjálfsvíg hjá ungu fólki sem dæmi um vandamál sem smám saman eru að koma upp á yfirborðið og þörf væri að fræða foreldra um. Einnig má benda á nýlega könnun á trúarlífi Íslendinga sem sýnir áhrifamátt foreldra, einkum mæðra, varðandi trúariðkun barna sinna síðar í lífinu.
    4. Nefna má sem rök að þegar boðið er upp á foreldrafræðslu eða námskeið um samskipti foreldra og barna, bæði hér og í nágrannalöndunum, hefur eftirspurn foreldra verið mikil. Því miður hefur þetta mest verið í formi einkanámskeiða sem ekki ná til allra.
    Í tillögunni er lagt til að foreldrafræðslu verði komið á í skólum landsins, í fjölmiðlum og á heilsugæslustöðvum samkvæmt nánari tillögum frá sérstökum vinnuhópi. Nú þegar samdráttur er í þjóðfélaginu er mikilvægt að gera átak í þessum málum. Samdrátturinn ætti að gefa foreldrum aukinn tíma fyrir slíka fræðslu og til barnauppeldis. Um leið má gera ráð fyrir að atvinnuleysi og erfiðleikar sem því eru samfara komi mjög niður á samskiptum foreldra og barna. Við þessar þjóðfélagsaðstæður tel ég raunar að þessi tillaga um foreldrafræðslu hafi sérstaka skírskotun.
    Það er von flutningskvenna að nú ríki þjóðarsátt um það að styrkja beri fjölskylduna og hennar mikilvæga hlutverk og að þetta mál fái farsæla meðferð hjá hv. menntmn. Það er ósk flutningskvenna að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og menntmn.
    Ég vil bæta því við að því miður gafst hv. 1. flm. ekki færi á að fylgja málinu úr hlaði að þessu sinni. Hins vegar hefur hún víðtæka þekkingu á þessum málum eins og fram kemur glögglega í greinargerðinni. Ég tel að í vinnu nefndarinnar muni að sjálfsögðu verða að leita álits og upplýsinga um hvernig þessum málum verði best fyrir komið. Það er fyrst og fremst ósk okkar flutningskvenna að þetta mál fái brautargengi því að ef þetta er ekki eitt af brýnustu málunum sem taka þarf á í samfélaginu, þá veit ég ekki hver þau eru. Og ég ítreka það að að lokinni þessari umræðu verði málin vísað til síðari umr. og hv. menntmn.