Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:20:29 (1795)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þessi dagur er býsna merkilegur í starfi þingsins fyrir mér ef það er svo, virðulegi forseti, að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafna því að mæta til sjálfsagðra starfa á Alþingi á venjulegum þingtíma og gefa þingmönnum sjálfsagðar og eðlilegar upplýsingar um framgang samþykktrar tillögur á Alþingi. Svör sem við höfum fengið frá virðulegum forseta, þeim sem sat hér áður en hæstv. núv. forseti settist í þennan stól, voru á þann veg að ráðherrar sætu í herbergjum sínum og hlýddu á ræðumenn í hátalara. Ég spyr: Hvers konar túlkun og hvers konar skilaboð fengjum við venjulegir þingmenn ef við létum þau boð berast til þingsins að við mundum bíða úti í herbergjum okkar að morgni til þegar þingfundir væru settir og kæmum þannig í veg fyrir að hægt væri að setja þingfundi? Hvers konar vinnubrögð er verið að taka hér upp ef það á að duga að þingmenn geti bara setið í rólegheitum, ég tala ekki um ráðherra, og hlustað þar á glymskrattann? Því spyr ég og endurtek spurningu mína, virðulegi forseti: Liggur það klárt fyrir, virðulegi forseti, að ráðherrar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, að hæstv. forsrh. meðtöldum, hafi hafnað því að koma í þingsalinn og verða viðstaddir þá umræðu sem hér fer fram? Liggur það fyrir? Ég bið virðulegan forseta að svara þingmönnum sem hér eru skýrt og klárt, án mikilla málalenginga og helst engra um þetta mál, einfaldlega játandi eða neitandi: Hafa þeir hafnað því að koma hér upp og vera viðstaddur þessa umræðu?
    Ég tek undir orð hv. þm. Guðna Ágústssonar um að ráðherrarnir skulda ekki bara sjómönnum skýrslu um þetta mál. Þeir skulda þjóðinni allri skýrslu. Þeir skulda okkur þingmönnum hana. Ég gæti sagt mörg orð um þetta góða mál en ég ætla ekki að gera það nú. Hér hefur margt ágætt verið sagt. En ég vil fá svar af munni hæstv. forseta, já eða nei: Neita ráðherrar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og hæstv. forsrh. að vera viðstaddir þessa umræðu? Já eða nei?