Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:04:32 (1838)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ef hv. 5. þm. Austurl. hefði hlustað á ræðu mína fyrr í umræðunni hefði hann heyrt að það er verið að skoða þessi mál í fjárln. Landhelgisgæslan hefur staðið sig vel í því að halda sig innan ramma fjárlaga yfirstandandi árs. Þá er ætlunin að ganga enn lengra fyrir næsta ár. Ég hef ekki látið þau orð falla í þessum umræðum að það sé verið að leggja Landhelgisgæsluna niður. Það voru aðrir hv. þm. sem gerðu það. En ég tek undir það að ef haldið verður áfram á þessari braut endar með því að það kemur niður á þjónustunni þótt þar séu dugandi menn og standi sig vel. Ég er alveg sammála því. En það raskar ekki því sem ég sagði að það stefnir í þá átt, þegar bæði er verið að taka frá gæslunni verkefni, skera niður til hennar fjármagn ár eftir ár, að auðvitað kemur það niður á þjónustunni. Það hlýtur að gera það og þá endar með því að Landhelgisgæslan getur ekki sinnt sínu mikilvæga hlutverki. Það getur ekki endað öðruvísi. Það er búið að skera niður til hennar um 80 millj. kr. á tveimur árum. Ef taka má mark á athugasemdum fjárlagafrv. er ætlunin að leggja einu skipi næsta ár. Forstjóri Landhelgisgæslunnar segir að það geti þýtt það, í undantekningartilvikum þó, að ekkert skip verði á sjó og langtímunum saman eitt

skip.