Meðferð og eftirlit sjávarafurða

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 14:07:33 (1862)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Vegna orða hv. 17. þm. Reykv. vil ég segja að hann sagði að í öllum grundvallaratriðum væru menn sammála. Ég tel það að vísu ofsagt einfaldlega vegna þess að menn voru ekki sammála um sjálfar skoðunarstofurnar og eru það ekki enn þá. Það sem fékk nefndarmenn til að skrifa undir nál. sameiginlega var að það tókst að fá þessar breytingar. En það er enginn vafi á því að þeir sem skrifa undir með fyrirvara voru allir á þeirri skoðun, að ég tel, að þessi hugmynd um skoðunarstofurnar væri ekki góð og menn ættu að fara aðrar leiðir í málinu. Til þess að fá fram breytingar þurfa menn stundum að ganga kannski lengra en þeim þykir gott og það var gert í þessu tilfelli.

    Það eru vissulega fleiri hnökrar á frv. sem ég ætla ekki að gera að sérstöku umræðuefni en voru til umræðu. Ég er t.d. dálítið hissa á því, svo ég nefni eitt dæmi samt, að í 12. gr. kemur fram hverjir eigi að fá vinnsluleyfi og þar er m.a. taldar fiskgeymslur sem eru ekki hlutar af fiskvinnslufyrirtækjum. Þetta var mjög til umræðu í nefndinni og sannleikurinn er sá að með þessu lagaákvæði eins og það lítur út núna þurfa flutningaskip sem flytja frystan fisk að fá sérstakt vinnsluleyfi. Það sjá allir að fyrir flutningaskip erlendra aðila t.d. sem gerir tilboð í flutninga að og frá landinu er nú dálítið umhendis að vera með þá skyldu á sér að hafa samning við skoðunarstofu.
    Ég tel að þetta komi til með að verða eitt af því sem þurfi breytinga við. Það er auðvitað fleira í þessu sem þarf örugglega endurskoðunar og ég vona að menn verði sammála um að skoða þessi mál nánar. En aðalástæðan fyrir því að ég tók til máls aftur var að mér fannst hv. 17. þm. Reykv. taka of djúpt í árinni þegar hann sagði að við værum sammála í öllum grundvallaratriðum. Ég svo sem fagna því að það skuli þó hafa náðst þetta samkomulag sem er um málið núna en vona að það fái meiri umfjöllun síðar.