Reiðvegaáætlun

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:02:56 (1894)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Í framhaldi af samþykkt á Alþingi hinn 7. febr. 1991 um reiðvegaáætlun skipaði samgrh. starfshóp til þess að vinna að fyrrgreindu verkefni. Í starfshópnum eru Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, Sigurður Þórhallsson, framkvæmdastjóri Landssambands hestamannafélaga, og Jón Birgir Jónsson aðstoðarvegamálastjóri sem jafnframt er formaður starfshópsins. Auk þess starfar Jón Rögnvaldsson, forstjóri tæknideildar Vegagerðarinnar, sem ritari hópsins.
    Áætlunargerð af því tagi sem hér um ræðir er nokkuð viðamikið verkefni, sérstaklega á það við um gerð áætlunarinnar í fyrsta sinn. Kemur þar hvort tveggja til að móta þarf stefnu reiðvegaáætlunar og svo hitt að safna þarf miklu magni af gögnum til að unnt sé að gera marktæka áætlun. Hafa verður samráð við ýmsa aðila en þó allra mest við samtök hestamanna og sveitarfélög.
    Nauðsyn þessa samráðs var raunar undirstrikuð í þál. þar sem tiltekið var að þessir aðilar skyldu taka þátt í þessu starfi.
    Áðurnefndur starfshópur er nú að störfum, hann hefur komið sér saman um tilhögun gagnasöfnunar og verklag við áætlunargerðina. Gagnasöfnun er komin vel á veg. Reiðvegaáætlun og stefnumótun hennar var á dagskrá landsfundar hestamanna sem haldinn var á Flúðum dagana 30.--31. okt. sl. Formaður starfshópsins hafði framsögu um málið og urðu miklar umræður um það.
    Samkvæmt því sem hér er rakið er vinna starfshópsins komin vel af stað, verkefnið er hins vegar viðamikið og ekki á þessu stigi unnt að segja til um hvenær því lýkur.