Kjör sjómanna á kaupskipum

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:30:00 (1907)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur beint til mín fsp. á þskj. 188 um það hvort ég hyggist beita mér fyrir því að Ísland fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 147 um lágmarkskröfur á kaupskipum.
    Eins og hv. þm. veit fer samgrn. með málefni sjómanna. Hins vegar hefur félmrh. annast samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina allt frá þeim tíma þegar aðild Íslands var samþykkt að stofnuninni á Alþjóðavinnumálaþinginu haustið 1945.
    Ég vil einnig taka fram að undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að fullgilda samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Sl. tvö ár hefur Ísland fullgilt fjórar alþjóðasamþykktir. Næstu 20 ár þar á undan var einungis ein samþykkt fullgilt og átti fyrirspyrjandi þar nokkurn hlut að máli.
    Ein þeirra samþykkta sem hefur komið til álita að fullgilda er alþjóðasamþykkt nr. 147. Ríki sem fullgilda þessa samþykkt skuldbinda sig til þess að hafa í lögum ákveðnar reglur um öryggi, vinnuskilyrði og aðbúnað um borð í skipum og að tryggja að slíkum reglum sé framfylgt. Þessar öryggisreglur varða m.a. vinnutíma, stærð áhafnar og hæfniskröfur. Þá krefst samþykktin ákveðins eftirlits með ráðningu eða skráningu í skiprúm og rannsókn á kærum sem upp kunna að koma í því sambandi. Eftir því sem við verður komið ber að fræða menn um hugsanleg vandamál í sambandi við skráningu á skip sem skráð eru í ríkjum sem ekki framfylgja sömu kröfum og gerðar eru í þessari samþykkt. Í samþykktinni felst einnig heimild til handa ríki til ákveðinna afskipta af erlendu skipi sem kemur til hafnar í landi þess ef vitneskja berst um að skipið fullnægi ekki kröfum samþykktar nr. 147.
    Fram hefur farið athugun á því hvort eitthvað sé í veginum fyrir fullgildingu þessarar samþykktar af hálfu félmrn. Þessi athugun fór fram árið 1989. Tilefnið var ákvörðun stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1987 um að gera úttekt á framkvæmd þessarar samþykktar. Samkvæmt 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar getur stofnunin krafið aðildarríkin um skýrslur um framkvæmd samþykktar sem þau hafa ekki fullgilt.
    Á grundvelli þessarar greinar var óskað eftir skýrslu frá íslenskum stjórnvöldum um framkvæmd þessarar tilteknu samþykktar. Nefnd á vegum félmrn. sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina samdi drög að skýrslunni og var hún byggð á gögnum frá Siglingamálastofnun og samgrn. Skýrslan var send Alþjóðavinnumálaskrifstofunni 24. nóv. 1989. Alþjóðavinnumálaskrifstofan tók síðan saman heildaryfirlit yfir helstu upplýsingar sem fram komu í skýrslu aðildarríkjanna sem var til sérstakrar umfjöllunar á 77. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1990. Félmrn. sendi þessa skýrslu í september 1990 til eftirtalinna samtaka: samgrn., Siglingamálastofnunar, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Sjómannafélags Reykjavíkur sem er aðili að Sjómannasambandi Íslands, Sambandi ísl. kaupskipaútgerða, Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Samtímis var vakin athygli á þeim tilmælum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til þeirra aðildarríkja sem ekki höfðu fullgilt samþykktina að gera það sem allra fyrst. Ekki bárust óskir um fullgildingu samþykktarinnar frá hagsmunaaðilum.
    Við þetta má bæta að við fyrstu athugun komu ekki fram neinar sérstakar ástæður sem hindra fullgildingu samþykktarinnar af hálfu Íslands og hefur verið fullgilt samtals af 23 aðildarríkjum. Það er þó samgrn. að kveða endanlega upp úr um það efni. Minna má á að fleiri alþjóðasamtök en ILO vinna að hagsmunamálum sjómanna, þar á meðal Alþjóðasiglingamálastofnunin.
    Á það ber að leggja áherslu að félmrn. hefur gert þó nokkuð í því að kynna þessa samþykkt fyrir þeim aðilum sem eiga hagsmuna að gæta. Afstaða félmrn. er jákvæð gagnvart því að samþykktin verði fullgilt en ég tel rétt að fá fram formlega afstöðu samgrn. og hagsmunasamtaka áður en endanleg afstaða er tekin. Hefur það verið ítrekað í bréfi til samgrn. og hagsmunaaðila og óskað er eftir svari þessara aðila í byrjun desember nk.