Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 13:34:23 (1917)

     Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 226 frá 2. minni hluta allshn. um till. til þál. um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í íslensku stjórnarskránni eru nokkur ákvæði um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, t.d. ef ágreiningur verður milli forseta og þings um staðfestingu laga. Alþingi getur tvímælalaust ákveðið hvenær sem er að leita álits þjóðarinnar og vísað málum til þjóðaratkvæðagreiðslu telji það sérstaka þörf á því.
    Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa farið nokkrum sinnum fram, m.a. tvisvar um breytingar á stjórnskipun landsins, árið 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki og við lýðveldisstofnunina árið 1944.
    Annar minni hluti allshn. telur sérstaka ástæðu til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Fyrir því er hægt að færa mörg rök en ég mun að þessu sinni aðeins nefna nokkur þar sem þau eru svo skýr að frekar þarf ekki vitnanna við.
    Þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn er í fullu samræmi við þróun síðustu ára og áratuga í öðrum löndum Vestur-Evrópu þar sem þjóðaratkvæðagreiðslum hefur í vaxandi mæli verið beitt, og þá sérstaklega í sambandi við samningana um nánara samstarf Evrópuríkja. Það er lýðræðislegt andsvar við vaxandi áhrifum stofnana og embættismanna. En sú þróun hefur ekki síst orðið áhyggjuefni innan Evrópubandalagsins vegna hins gífurlega miðstjórnarvalds í Brussel. Sú stefna kemur reyndar fram á Alþingi nú í hverju frv. af öðru frá hæstv. ríkisstjórn þar sem heimildir skal veita til að setja reglugerðir og taka ákvarðanir um mikilvæg mál samkvæmt þeim. Því hefur heldur ekki verið haldið fram að þjóðaratkvæðagreiðsla um Maastricht-samninginn í Danmörku og Frakklandi sl. sumar hafi ekki átt rétt á sér. Þvert á móti hafi þær breytt viðhorfi og leyst úr læðingi umræðu sem bæld hafði verið niður þannig að Evrópa verði ekki sú sama á eftir.
    Það kemur varla til greina að þeir sem mestan áhuga hafa á nánum tengslum Íslands við önnur Evrópulönd telji það ekki sjálfsagt að við fylgjum þessari lýðræðislegu þróun nágranna okkar heldur vilji halda sig í einhverjar steinrunnar kennisetningar. Það er líka athyglisvert fyrir okkur hér á Alþingi að þegar Danir breyttu fyrir nokkru skipan þjóðþings síns úr tveimur deildum í eina voru um leið sett inn ákvæði um rýmkaðar heimildir til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég veit ekki hvort þetta var rætt við undirbúninginn að breytingu á þingsköpum Alþingis nú fyrir skömmu.
    Allir eru sammála um að samningurinn er mjög umfangsmikill og fyrir Íslendinga hefur hann áhrif á flest svið þjóðlífsins frá öræfum landsins til ystu marka fiskveiðilögsögunnar. Yrði hann tvímælalaust víðtækasti fjölþjóðasamningur sem Íslendingar hefðu gert. Þegar um er að ræða svo örlagaríka ákvörðun er það lýðræðisleg krafa að þjóðin fái að segja álit sitt á samningnum áður en Alþingi afgreiðir hann með einföldum meiri hluta. Þá sanngjörnu kröfu hafa fjölmenn félagasamtök sett fram, svo sem Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarsamband bænda og Neytendasamtökin auk þess sem tugir þúsunda kjósenda hafa sent Alþingi áskorun um það.
    Það kom fram í gær við kynningu formanna þessara samtaka á afstöðu þeirra að þeir teldu sérstaka ástæðu til þjóðaratkvæðagreiðslu að þessu sinni þar sem horfur eru á að ekki fari fram alþingiskosningar fyrir endanlega afgreiðslu málsins eins og kveðið er á um í stjórnarskránni vegna beytinga á henni. Nauðsynlegur undanfari að þjóðaratkvæðagreiðslu er ítarleg kynning á efni samningsins. Slík kynning er besta andsvarið við fullyrðingu um að þjóðin hafi ekki næga þekkingu til að taka afstöðu til efnis samningsins. Að vísu er það rétt að mörg atriði samningsins eru enn þá óljós enda margt ófrágengið. Í samningaviðræðum sem nú standa yfir um slík atriði hefur komið fram að Evrópubandalagið vill ganga lengra en áður hefur komið fram í þá átt að láta sínar reglur gilda. En að sjálfsögðu er hægt að gera grein fyrir því um hvaða atriði er þar verið að deila og út í hvaða áhættu er lagt ef ákvörðun er tekin áður en þeim er ráðið til lykta. Því miður er vægt til orða tekið að ríkisstjórnin hafi vanrækt hlutlausa kynningu á efni og afleiðingum samningsins þótt slík kynning sé mjög mikilvæg, ekki síst í þeim tilgangi að gera það sem unnt er til að koma í veg fyrir hörð átök í þjóðfélaginu eftir afgreiðslu málsins hvort sem samningurinn verður samþykktur eða honum hafnað.
    Við undirritaðir nefndarmenn, Jón Helgason, Kristinn H. Gunnarsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Ólafur Þ. Þórðarson, sem skipum 2. minni hluta allshn. leggjum til að þáltill. verði samþykkt óbreytt. Það gera einnig nefndarmennirnir Eyjólfur Konráð Jónsson og Ingi Björn Albertsson sem skipa 3. minni hluta allshn. þó að þeir hafi kosið að skila séráliti.