Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:16:57 (1989)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa yfir stuðningi við þá tillögu sem hér er til umræðu en umræðan hefur eins og vænta mátti beinst mjög að stöðu atvinnulífsins og efnahagslífsins í landinu og margt verið sagt sem þarf að svara.
    En ég vil byrja á því, virðulegi forseti, að minna á að það vill svo til að í dag eru 60 ár liðin frá því að svo harkalega var barist á götunum í nágrenni Alþingishússins að lögreglan var gjörsamlega yfirbuguð. Það var hinn svokallaði Gúttóslagur sem átti sér stað 9. nóv. 1932. Þá stóð til að lækka um þriðjung kaup þeirra manna sem unnu í atvinnubótavinnu á vegum Reykjavíkurbæjar. Verkalýðshreyfingin brást hart við, enda var mikið atvinnuleysi hér í bæ og heimskreppan mikla að komast í algleyming. Kauplækkunartilraunin var brotin á bak aftur og fólki var fjölgað í atvinnubótavinnunni.
    Áhrifa þessara miklu átaka gætti lengi í stjórnmálum í samskiptum verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda, svo og í samskiptum ríkisvaldsins við aðila vinnumarkaðarins og þetta mikla atvinnuleysistímabil setti mark sitt á þjóðina.
    Frá því að Ísland var hernumið af Bretum í maí 1940 hafa Íslendingar haft litla reynslu af atvinnuleysi ef undan er skilið staðbundið eða tímabundið atvinnuleysi, svo og tímabilið frá 1968--1970 er mikill samdráttur varð í efnahagslífinu hér á landi.
    Úti í Evrópu hefur atvinnuleysi verið viðvarandi um árabil og nægir þar að nefna reynslu Dana en þrátt fyrir uppgang í ýmsum atvinnugreinum hefur þeim ekki tekist að vinna bug á atvinnuleysinu. Þar í landi er að vaxa upp önnur kynslóð fólks sem aldrei hefur haft fasta atvinnu en fær bætur frá ríkinu í hverjum mánuði. Í Danmörku eru þúsundir karla og kvenna með sérmenntun sem engin þörf er fyrir og menn þurfa heldur betur að sýna hvað í þeim býr til að fá vinnu. Það gefur auga leið að hugarfar og sjálfsmynd fólks, sem fær stöðugt þau skilaboð að þjóðfélagið þurfi ekki á því að halda, hlýtur að brenglast og það kemur bæði niður á einstaklingunum og samfélaginu. Atvinnuleysi er því ekki vandamál þeirra einstaklinga sem það bitnar á heldur samfélagsins alls. Reyndar er sums staðar litið á atvinnuleysi sem hagstjórnartæki, hluta af fórnarkostnaði tæknibreytinga eða sem hluta af efnahagsstefnunni og þá ekki síst til að halda niðri launum og til að halda verkalýðshreyfingunni í skefjum.
    Virðulegi forseti. Það eru mannréttindi að geta séð sér og sínum farborða með vinnu sinni og hluti af sjálfsvirðingu hvers og eins að leggja sitt af mörkum til þjóðarbúsins. Því eigum við ekki og megum ekki sætta okkur við að atvinnuleysi verði viðvarandi en líklega verður ekki hjá því komist nú um sinn meðan uppstokkun á sér stað hjá íslenskum fyrirtækjum. En það sem skiptir mestu máli er það hvernig verður brugðist við og til hvaða aðgerða verður gripið til að koma í veg fyrir meira atvinnuleysi og til að skapa því fólki vinnu sem nú mælir göturnar.
    Þjóðhagsstofnun spáir 3,5% atvinnuleysi á næsta ári en flestir aðrir eru þeirrar skoðunar að það verði mun meira. Reyndar er skráning atvinnuleysis mjög gölluð hér á landi þar sem aðeins þeir sem rétt eiga á bótum skrá sig. Það er brýnt að taka upp aðrar skráningaraðferðir eða gera oftar kannanir á atvinnuleysi til að við vitum hvernig ástandið er í raun og veru. Og þá er ekki síður brýnt að breyta lögunum um atvinnuleysisbætur, enda er algjörlega óviðunandi í því ástandi sem nú er komið upp að hópur fólks skuli vera utan þess kerfis og eiga ekki annarra kosta völ en að leita á náðir félagsmálastofnana, svo og að fólk skuli missa bætur í sextán vikur eftir að hafa verið atvinnulaust í heilt ár. Þetta kerfi er arfur frá gömlum tíma og ber þess vott að menn litu á atvinnuleysi sem einhvers konar aumingjaskap.
    Virðulegi forseti. Það þarf líka að skoða hvernig atvinnumiðlun á sér stað hér á landi en að mínum dómi er hún einnig afar gamaldags enda hefur hún verið að færast æ meira út í einkarekstur. Að mínum dómi þarf að efla samvinnu sveitarfélaga, ríkis, vinnuveitenda og samtaka launafólks til þess að atvinnumiðlun verði með eðlilegum og góðum hætti. En eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, þá er það mikilvægast hvernig verður brugðist við þessu ástandi sem upp er komið. Það er afar mikilvægt að hér fari fram sú rannsókn sem þessi tillaga gengur út á til þess að við getum betur áttað okkur á þeirri aðstoð sem þarf að veita atvinnulausu fólki. Hvaða endurmenntun sé hægt að skipuleggja, hvar atvinnuleysið er mest, hvernig það kemur niður á fólki, hvaða félagsleg vandamál skapast o.s.frv. Það er ömurlegt að horfa upp á hvernig ríkisstjórnin situr með hendur í skauti og bíður eftir tillögum frá atvinnumálanefndinni. Við höfum horft upp á ástandið versna mánuð eftir mánuð en ríkisstjórnin gerir ekki neitt. Hún hefur lagt fram tillögur um að leggja fram fé til framkvæmda á næsta ári en það verður ekki fyrr en upp úr miðju næsta ári, þ.e. 1993, sem sú vinna fer að skila sér. Ég get ekki annað en bent á það enn einu sinni að sú atvinnusköpun, sem ríkisstjórnin leggur til, kemur einkum körlum til góða. Það er mjög brýnt að samfélagið einbeiti sér að atvinnusköpun í þágu kvenna, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Það er eitt stærsta vandamál sem við stöndum frammi fyrir hve mikið atvinnuleysi kvenna er og þá ekki síst á Suðurnesjunum eins og við ræddum um daginn en það bólar enn ekkert á aðgerðum. Það sést hvorki tangur né tetur af aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Í umræðunni kom fram að sértækar aðgerðir af einhverju tagi kæmu til greina, en það gerist ekkert. Menn sitja bara og bíða.
    Ég vona svo sannarlega að tillögur atvinnumálanefndarinnar líti dagsins ljós en það er auðvitað ekkert sama hvernig þær tillögur verða eða hvað menn ætla sér að gera, en það verður að koma í ljóst þegar þær koma fram að hverju er stefnt.
    Landsfundur Kvennalistans sem haldinn var fyrir rúmri viku síðan ræddi stöðu atvinnumála og lagði fram ótal tillögur sem mega verða til úrbóta og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þær.
    Í fyrsta lagi er bent á að aukin samfélagsþjónusta við börn, aldraða og fatlaða geti orðið til þess að skapa vinnu og sé ekki síður arðbær en t.d. vegavinna. Bygging barnaheimila og félagslegra þjónustuíbúða fyrir aldraða er mjög hagkvæm núna vegna lækkandi byggingarkostnaðar. Endurskoða þarf lög um Lánasjóð ísl. námsmanna í ljósi efnahagskreppunnar þannig að fleira fólk eigi kost á að velja milli atvinnuleysis og menntunar. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég er hér í miðjum klíðum að lesa upp tillögur Kvennalistans en ég á auðvitað ekki annarra kosta völ en að hlýða forseta og setja mig bara aftur á mælendaskrá til þess að koma þeim á framfæri. Ég átti líka eftir að svara ýmsu úr máli utanrrh. og því bið ég forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.