Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 13:53:52 (2009)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Hér erum við að ræða till. til þál. um breytingu á vegáætlun. Hæstv. samgrh. sagði áðan að þetta snerist um að auka vegaframkvæmdir. Hvernig eru þessar vegaframkvæmdir auknar? Það sem við höfum séð í fjárlagafrv. er að í því eru skorin niður framlög til vegamála um 344 millj. kr. af lögbundnum framlögum, að ferjur og flóabátar eru flutt yfir til Vegagerðarinnar en þau kosta 330 millj. og hætt er við fyrirhugaðar lántökur til Vestfjarðaganga upp á 250 millj. Samtals eru þetta 924 millj.
    Svo er aftur á móti ákveðið að fara í 1.800 millj. kr. lántöku til aukningar á vegaframkvæmdum. Það út af fyrir sig ætla ég ekki að gagnrýna einfaldlega vegna þess að ég er sammála því að það eigi að halda uppi framkvæmdum í vegagerð á tímum eins og núna eru. Við fáum bæði hagstæðari tilboð í vegalagningar og höldum uppi atvinnu sem er mjög mikilvægt núna. Burt séð frá því hvað við viljum gera á öðrum sviðum til að auka atvinnu er skynsamlegt að halda uppi atvinnu í vegagerð þegar svona háttar til. Ég ætla ekki að gagnrýna það. En ég ætla að gagnrýna aðferðina. Mér finnst hún algerlega fráleit.
    Það hefði auðvitað mátt taka lán til vegagerðar en að nota tækifærið til þess að breyta framkvæmdaröð með þeim hætti sem hér er gert og slá sig til riddara á fölskum forsendum með þeim rökum að þarna sé verið að auka sérstaklega atvinnuskapandi framkvæmdir finnst mér forkastanlegt. Hvaða mat hefur farið fram á því hvaða vegagerðarfyrirætlanir eru atvinnuskapandi? Mig langar að vita það.
    Hvernig var staðið að þessu verki? Ég á að heita nefndarmaður í samgn. Á sama tíma og þær fyrirætlanir urðu til sem við erum hér að ræða hélt samgn. enga fundi. Frá því að þing kom saman 17. ágúst og þangað til 19. okt. hélt samgn. enga fundi. Hún hélt einn fund til þess að kjósa sér nýjan formann og eftir það engan fund fyrr en 19. okt. Á því tímabili urðu þessar hugmyndir að ákvörðun hjá ríkisstjórninni og voru kynntar. Þessar fyrirætlanir hafa ekki einu sinni verið lagðar fram í þinginu enn eða kynntar neins staðar fyrir þingmönnum svo ég viti til. Mig langar að spyrja hæstv. samgrh. hvernig að þessari ákvarðanatöku var staðið því ég veit að það var ekki haft samband við samgöngunefndarmenn, ég veit að það var ekki talað við Vegagerðina fyrr en daginn áður eða tveimur dögum áður en þessar ákvarðanir voru kynntar og ég veit að þingmenn kjördæmanna komu ekki að málinu. Var ákveðið á ríkisstjórnarfundum hvaða framkvæmdum ætti að flýta eða var það kannski ráðherra einn sem ákvað með hvaða hætti ætti að raða upp á nýtt í vegaframkvæmdum? Mér finnst þessi vinnubrögð vera forkastanleg og þinginu til vansæmdar að svona skuli vera hægt að standa að málum.
    Mig langar að fá svar við því hjá hæstv. samgrh. hvernig hann hafi gert þingmönnum kjördæmannna og samgn. grein fyrir málinu og hvernig hann hyggst standa að svona málum í framtíðinni. Finnst honum þetta eðlileg vinnubrögð? Ég hef heyrt að hann hafi verið gagnrýninn á vinnubrögð hér í þinginu áður en hann varð ráðherra og fundist að þingmenn ættu að hafa fullan rétt til þess að vita af því hvað stæði til. Svo langt hefur þetta mál gengið að það er búið að ákveða þessar framkvæmdir. Það er meira að segja búið að bjóða þær út án þess að ákveðið hafi verið að fara í þær. Frammi fyrir því stendur þingið. Ég tel að það sé óviðunandi fyrir nefndir þingsins og þetta er ekki fyrsta málið. Við erum búin að sjá það ítrekað frá því að þing kom saman að gengið er gersamlega fram hjá þingnefndunum í sambandi við fyrirhugaðar breytingar sem eiga að verða. Ég tel að þingnefndirnar þurfi að taka þessi mál til skoðunar og að þingið verði að ná einhvers konar samkomulagi um að ekki sé gengið fram hjá þingmönnum með þeim hætti sem hér er gert. En ég vil taka það fram svo það valdi ekki misskilningi að ég er síður en svo á móti því að hér sé aukið við í vegaframkvæmdum. Ég vil reyndar benda á að þegar verið var að ræða vegamál á síðasta þingi, þá var sérstök bókun minni hluta samgn. um þessi mál þar sem hvatt var til aukinnar vegagerðar. Við höfum því aldeilis ekki lagt það til að skorið væri niður með þeim hætti sem gert var á síðustu fjárlögum til vegagerðar.