Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:27:42 (2046)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :

    Hæstv. forseti. það er mikill misskilningur hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að með þessari þáltill. sé verið að brjóta lög. Þvert á móti blasir við að ekki er þörf á öllu því fé til snjómoksturs sem áður hafði verið til þess ætlað. Hér er gert ráð fyrir að verja því fé til annarra hluta. Jafnframt er nauðsynlegt og verður fjárln. skrifað um það að breyta fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár í samræmi við hvernig fjármunum Vegagerðar ríkisins verður varið. Auðvitað er það ekki brot á lögum að leggja fram á Alþingi brtt. við gildandi vegáætlun og allra síst þegar brtt. er svo hógvær að hún er innan þeirrar fjáröflunar sem er í gildandi vegáætlun. Þetta er svo augljóst að ekki þarf um það að fara mörgum orðum.
    Í öðru lagi er það skiljanlegt og rétt hjá hv. þm. að ástæða er til að hafa áhyggjur af því hversu miklir fjármunir þurfi á næstu árum að fara til flóabáta. Það er rétt sem hv. þm. sagði. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 330 millj. kr. í þessu skyni en það má búast við því að sú fjárhæð hækki jafnvel á næsta ári mjög verulega, í eitthvað á fimmta hundrað millj. kr. og fari svo í sjötta hundraðið eftir tvö ár vegna þess hversu vondur viðskilnaður síðustu ríkisstjórnar var í þessum efnum.
    Ég vil taka sem lítið dæmi Djúpbátinn fyrir vestan, Fagranesið. Ástandið er þannig að hann hefur hvergi bryggju að leggjast að. Til þess að bæta úr því þarf tæpar 100 millj. kr. ef inn í dæmið eru teknar nauðsynlegar vegaframkvæmdir og bifreiðastæði sem tengjast slíku.