Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:59:45 (2060)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra er ekki reiðubúinn að staðfesta yfirlýsingu hv. 3. þm. Vestf. að endurgreiðsla lána vegna flýtingu framkvæmda muni ekki bitna á þeim framkvæmdum sem dragast þannig aftur fyrir röðina. Þvert á móti gefur hæstv. ráðherra það berlega í skyn að Gilsfjarðarbrú bíði, að ekki eigi að fara í hana á tímabilinu 1991--1994. Með því að stjórnarþingmenn úr báðum þessum kjördæmum hafa fremur stutt ráðherrana í þessu máli í umræðunni en hitt er ljóst að hvorki núv. þingmenn Sjálfstfl. í þessum kjördæmum né hæstv. ráðherrar eru reiðubúnir að standa við yfirlýsingu þingmanna Sjálfstfl. fyrir kosningar um Gilsfjarðarbrú. Þeir eru að ganga á bak orða sinna í þessum efnum. Það sannast sem oft hefur komið fram að það er léttara að veita loforð og tala upp í eyrun á kjósendum fyrir kosningar á framboðsfundum en efna þau eftir kosningar.