Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 18:28:19 (2094)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. samgrh. sagði að hann sæi enga hættu í því að breyta eignarheimildum yfir höfnum eða veita hlutafélögum eignarheimild að höfnum og síðan einkavæða þær, sem getur fylgt í kjölfarið, þar sem engin sérstök ákvæði eru í frv. um þau hlutafélög sem eignast hafnirnar.
    Nú vitum við að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vill breyta þjónustustofnunum í hlutafélög og selja t.d. banka og margt fleira. Þá er líklegt að bæjarstjórnir sem lúta einveldi núverandi stjórnarflokka, t.d. í Reykjavík og Hafnarfirði, vilji gera slíkt hið sama. Það mun a.m.k. vera í athugun hjá borgarstjórn á einhverjum sviðum.
    Nú eru hafnirnar í Reykjavík og Hafnarfirði mikilvægar fyrir flutninga í þjóðfélaginu og hafa lykilaðstöðu. Rekstur þeirra er því tryggur til að skila góðum arði til eigenda þeirra. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann óttist ekki að frv. opni leið til að einkavæða þessar hafnir og eigendurnir geti ákveðið gjöldin til þess að tryggja sér góðan arð af þeirri fjárfestingu.
    Ég vil jafnframt spyrja hæstv. ráðherra að því hvort aðild okkar að EES og frv. opni ekki leið til þess að t.d. þessar hafnir verði arðvænlegasti fjárfestingarkostur erlendra aðila á Íslandi og að innan einhvers tíma geti það orðið svo að útlendingar eigi þessar lífæðar þjóðfélagsins og tryggi sér ríflegar tekjur af þeim.