Kaup á Hótel Valhöll

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 10:42:44 (2131)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. spyr: ,,Í hvaða tilgangi ætlar ríkisstjórnin að kaupa Hótel Valhöll á Þingvöllum?``
    Í 6. gr. fjárlagafrv. fyrir árið 1993 er að finna ákvæði sem heimilar ríkisstjórninni að kaupa Hótel Valhöll á Þingvöllum og taka til þess nauðsynleg lán. Heimildarákvæðið ber ekki að túlka svo að ríkisstjórnin hyggist kaupa þessa fasteign.
    Nokkur umræða hefur farið fram innan Þingvallanefndar á liðnum árum um hvort æskilegt væri að ríkið keypti Hótel Valhöll. Árið 1986 fór Þingvallanefnd fram á við fjárln. Alþingis að heimild yrði veitt til þessara kaupa í fjárlagafrv. árins 1987. Þá var hafin vinna að gerð skipulags fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum og var talið að örðugt gæti reynst að ljúka því starfi með viðunandi hætti nema ríkið ætti öll mannvirki á svæðinu.
    Í fundargerð Þingvallanefndar frá árinu 1986 kemur fram það mat lögmanns nefndarinnar að æskilegt væri að ríkið eignaðist umrædda fasteign, m.a. þar sem eiganda hennar væri frjálst að ráðstafa henni til allrar lögmætrar starfsemi án afskipta Þingvallanefndar. Æskilegt var talið að Þingvallanefnd gæti ráðstafað húsinu og umhverfi þess líkt og öðru hlutum þjóðgarðsins m.a. til að tryggja að starfsemin í því samræmdist þeim hugmyndum sem til umræðu hafa verið í nefndinni um uppbyggingu þjónustu í þinghelginni. Fyrirhugað var að nýta húsið áfram með sambærilegum hætti, þ.e. fyrst og fremst til veitingareksturs, en einnig til tilfallandi verkefna.
    Minna má á að í lögum nr. 59/1928 um friðun Þingvalla segir í 1. gr. að frá ársbyrjun 1930 skuli

Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Í 4. gr. sömu laga segir orðrétt:
    ,,Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinlega eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.``
    Sem kunnugt er var þetta heimildarákvæði ekki nýtt árið 1987. Samhljóða ákvæði er að finna á fjárlögum 1988, 1989, 1990, 1991 og á fjárlögum yfirstandandi árs en til þessa dags hefur heimildin ekki verið nýtt. Fullur vilji hefur verið meðal fyrri nefndarmanna í Þingvallanefnd til að eignast húsið en það verð sem eigandi hússins hefur krafist hefur verið talið of hátt. Talið var rétt að viðhalda umræddu heimildarákvæði á fjárlögum næsta árs, m.a. af þeim ástæðum sem hér hafa verið nefndar.
    Alþingi kaus nýja fulltrúa í Þingvallanefnd á síðasta þingi og kom hún saman í fyrsta sinn í ágústmánuði sl. Sú nefnd hefur enn sem komið er ekki rætt um hugsanleg kaup á Hótel Valhöll. Ítrekað skal að ríkisstjórnin hefur ekki uppi sérstök áform um að festa kaup á Hótel Valhöll á Þingvöllum en mun taka afstöðu til óskar þar að lútandi berist hún frá Þingvallanefnd.
    Út af spurningum sem fram komu hjá fyrirspyrjanda áðan vil ég segja sem mína persónulegu skoðun að hugmyndir um að flytja alla starfsemi frá þeim stað sem hún er nú út úr hinum eiginlega þjóðgarði og upp og vestur fyrir Almannagjá hafa ekki á þessu stigi minn stuðning. Ég tel nauðsynlegt að hafa á þessu svæði möguleika á þjónustu hvort sem það verður í því húsi sem þarna er um að ræða óbreyttu eða endurbættu eða nýju húsi. En ég tel nauðsynlegt að hafa þess konar þjónustu á þessum stað.
    Aðeins vegna þess sem fyrirspyrjandi nefndi um hátíðarhöldin á 50 ára afmæli lýðveldis, þá vænti ég þess að þáltill. um það efni verði af hálfu ríkisstjórnarinnar lögð fram á þinginu mjög fljótlega.