Gengismál

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:02:00 (2141)

     Fyrirspyrjandi (Karen Erla Erlingsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Kemur til greina að breyta þeirri myntkörfu sem gengi íslensku krónunnar er miðað við?
    Eins og kunnugt er miðast gengi íslensku krónunnar við ákveðna myntkörfu. Þetta fyrirkomulag hefur haft margvísleg áhrif á afkomu atvinnuvega, m.a. þar sem ég þekki best til en það er í ferðaþjónustu. Verst kom þetta út sumarið 1991. Sú ráðstöfun að skrá gengi lægra gagnvart þýsku marki og láta dollarann hafa slík áhrif til lækkunar er óskiljanleg þar sem vitað er að þýska markið er einn sterkasti gjaldmiðill í heimi. Ferðaskrifstofustjóri hefur sagt mér að á sama tíma og tekjur ferðaskrifstofunnar árið 1991 minnkuðu um 5% vegna þessarar röngu gengisskráningar óx kostnaður innan lands, m.a. á fólksflutningabifreiðum, um allt að 20% milli ára og alls ekkert var gert til að hamla gegn þeirri þróun.