Virðisaukaskattur og svört atvinnustarfsemi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:11:19 (2170)

     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Hér er hreyft stóru og miklu máli en það er lítið um svör og ekki í fyrsta sinn. Þessu máli hefur oft verið hreyft í þingsölum. Ég hef gert það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Á þinginu 1990 fluttum við Guðni Ágústsson till. þál. eins og hér hefur komið fram. Sú till. til þál. var samþykkt í febrúar 1991. Þar segir: ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna umfang virðisaukaskattssvika og ,,svartrar atvinnustarfsemi`` á Íslandi.``
    Ég verð að segja að miðað við grunsemdir um það hversu víðtæk þessi skattsvik eru er það með ólíkindum hversu fjármálaráðherrar, ekki bara þessi heldur þeir margir sem á undan honum hafa setið, hafa verið kærulausir og sinnulausir í þessum efnum.
    Það er óviðunandi að hæstv. ráðherrar komist upp með að vinna ekki eftir þeim samþykktum sem gerðar eru á Alþingi og ég heiti á núv. fjmrh. að duga í þessum efnum og standa við þá samþykkt sem gerð var á Alþingi í febrúar 1991. Hann skuldar þinginu þessa skýrslu.