Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 14:44:21 (2279)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það sem varð þess valdandi að ég kveð mér hér hljóðs er hluti af ræðu hv. 10. þm. Reykv. áðan. Ég þekki þann hv. þm. ekki að öðru en vönduðum og málefnalegum málflutningi og þess vegna fannst mér skjóta nokkuð skökku við þegar kom að þeim kafla ræðunnar sem fjallaði um fjárfestingar í sjávarútvegi og fjárfestingar almennt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ein af ástæðunum fyrir því hvernig komið er fyrir okkar atvinnulífi í dag sé að fjárfestingar í atvinnulífinu allra síðustu árin eru komnar niður fyrir hættumörk. Við getum deilt um það hvað hafi verið fjárfest fyrr á árum en það hefur nákvæmlega ekkert að gera með þann vanda sem við stöndum frammi fyrir og verðum að leysa núna. Ég vil þó í því sambandi benda á að fjárfestingar í sjávarútvegi, þótt deila megi um einstaka þætti, hafa seinustu tvo áratugina verið þess valdandi að okkur hefur tekist að ná þeim lífskjörum sem við búum við í dag. Það þurfti fjárfestingar til þess að við gætum fylgt eftir útfærslu landhelginnar og sótt hámarksafrakstur til sjávarins. Það var ekki síst nauðsynlegt eftir þær breytingar sem urðu við inngöngu okkar í EFTA sem höfðu þær afleiðingar að iðnaður dróst því miður á mörgum sviðum saman, ekki vegna þess að fríverslunin hafi verið slæm heldur vegna þess að okkur tókst ekki á því sviði að huga nægilega vel að þeirri atvinnugrein.
    Ég held að við værum mjög illa stödd í dag ef ekki hefðu verið þær fjárfestingar sem verið hafa í sjávarútvegi á síðustu árum. Það getur vel verið að frystiskipaútgerðin hafi verið að ganga út í öfgar á síðustu mánuðum en guð hjálpi okkur ef við hefðum ekki fengið frystitogara sem náð hafa að hámarka afraksturinn af hluta af sjávarfanginu auk þess sem þeir hafa að mínu mati knúið landvinnsluna til breytinga. Þeir ruddu brautirnar fyrir flæðilínurnar þar. Flæðilínurnar eru aftur grundvöllurinn fyrir frekari fullvinnslu þar sem við eigum kannski fyrst og fremst vaxtarbrodd í sjávarútvegi núna. Fjárfestingar verða að eiga sér stað ef við ætlum að fylgjst með og taka þátt í því sem er að gerast í kringum okkur.
    Ég hygg að ég hafi á margan hátt átt við mína samvisku og mínar skoðanir hliðstæðar vangaveltur síðustu vikur og mánuði og hv. 10. þm. Reykv. gagnvart Evrópumálunum. Þar er eitt kristaltært í mínum huga. Ef við ætlum að fylgjast með og taka þátt í þeirri þróun sem opinn markaður knýr okkur til verðum við að auka fjárfestingar í atvinnulífi. Við getum velt því fyrir okkur hvar þær eiga sér stað. Við þurfum kannski ekki í sjávarútvegi að fjárfesta mikið í skipum. Við þurfum verulegar fjárfestingar í þróun og markaðsstarfi og þeim tæknibúnaði sem þarf til að sveigja sjávarútveginn yfir á þær brautir sem væntanlega geta gefið okkur mestan arð á næstu árum. Ég get átt viðræðu við hv. þm. á öðrum tíma og öðrum vettvangi um það hvert við erum að fara með þeirri stefnu sem leggur stöðugt áherslu á meiri hagvöxt og hvort við eigum ekki að reyna að nýta okkar auðlindir betur en byggja ekki allt saman á vextinum. Það er alveg sama þótt ég horfi til þeirrar áttar. Sú þróun til umhverfisvænni umsetningar í okkar atvinnuvegi, okkar auðlindum, hlýtur einnig að byggjast á tækniframförum og fjárfestingu. Það er eiginlega sama hvert ég lít, mín niðurstaða er sú að eitt mesta hættumerkið sem við sjáum í okkar þjóðarbúskap í dag er að fjárfestingar í atvinnulífinu eru komnar niður fyrir hættumörk eins og ég sagði hér áðan.
    Ég gæti á sömu forsendum og hv. 10. þm. Reykv. gerði hér áðan tekið fyrir annars konar fjárfestingar, í verslunarhúsnæði og öðru slíku. Ég ætla ekki að gera það hér og tel að það þjóni takmörkuðum tilgangi. Ég held að þjóðarsáttarumræðan undanfarið sýni að fleiri og fleiri eru að átta sig á því að við höldum ekki uppi góðum lífskjörum, við höldum ekki uppi öflugu velferðarkerfi öðruvísi en að atvinnulífið sé öflugt og geti staðið undir neyslunni, bæði samneyslunni og einkaneyslunni á hverjum tíma.
    Virðulegi forseti. Ég ætla svo að lokum, sem innlegg inn í þessa umræðu, að koma að því að mér finnst það eilítið áhyggjuefni að ekki skuli hafa á síðustu árum komið meira út úr okkar menntakerfi og þeim þó háa menntunarstandard sem við höfum byggt hér upp þegar kemur að nýsköpun í atvinnulífinu. Mér finnst skorta töluvert á að unga menntaða fólkið komi út á vinnumarkaðinn og spyrji: Hvað get ég gert til þess að byggja upp nýjungar í atvinnulífi? Mér finnst því miður miklu algengara að spurningin sé þessi: Hvað getur samfélagið, hvað getur atvinnulífið gert fyrir mig?

    Nú er langt frá því að ég sé að sakast við hið unga, vel menntaða fólk í þessu sambandi. Ég er miklu frekar að velta því fyrir mér hvar orsökin liggi. Er hún í eðli þeirrar menntunar sem við bjóðum upp á? Ég hygg að það ráði að einhverju leyti en kannski ræður miklu meira um þetta að við höfum ekki náð að skapa þann grundvöll, skapa þann jarðveg sem þarf til þess að þessi hugsunarháttur sé ráðandi.