Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 15:37:52 (2315)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna athugasemdar hv. 6. þm. Norðurl. e. um þann tíma sem frv. kemur fram á, þá get ég tekið undir það með honum að ég hefði kosið að frv. kæmi fyrr. Ég hefði líka sætt mig við það að það hefði ekki verið alveg jafnlangt fram gengið og raun ber vitni, þ.e. ég hef alltaf skilið orðið ,,frumvarp`` í frumlægri merkingu þess að það sé ekki hinn endanlegi hlutur. Að sjálfsögðu fjallar þingið efnislega um frumvörpin. Ég get tekið undir það með þingmanninum um þau mál sem hann vitnaði til og unnin höfðu verið í sumar þannig að frv. kom á frumstigi til nefndarinnar og síðan var það unnið milli nefndarmanna, aðila sem létu sig málið varða og ráðuneytisins. Það varð ekki í þessu máli en ég vona engu að síður að góð samvinna takist með nefndinni.
    Um seinna atriðið sem hreyft var þá er það réttur skilningur á okkar samningi um hið Evrópska efnahagssvæði sem hér bíður staðfestingar að kjósi Íslendingar að halda ríkisviðskiptabanka, þá er það þeirra mál, það geta þeir gert.