Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:06:06 (2322)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Búnaðarbankinn er ríkisbanki, ekki hlutafélagabanki. Á sama tíma og bankar í nágrannalöndunum, sem eru hliðstæð stærð við Búnaðarbankann í bankaheimi viðkomandi landa, hafa lent í miklum erfiðleikum, hafa sýnt slíkt aðgæsluleysi í útlánum að ríkissjóðir viðkomandi landa hafa þurft að hlaupa undir bagga til að bjarga þeim stendur Búnaðarbankinn íslenski nokkuð vel. Hann er nokkuð traustur. Hann er langt yfir viðmiðunarmörkum um eigið fé miðað við áhættugrunn. Þetta hefur honum tekist þó að hann sé ríkisbanki, þó að hann búi ekki við þetta fína hlutafélagaform. Bendir samanburður á Búnaðarbankanum íslenska, sem er ríkisbanki, og ýmsum álíka stórum bönkum að hlutfalli í fjármálaheiminum á hinum Norðurlöndunum til þess að hlutafélagaformið sé endanlegt svar eða endanleg lausn í þessum efnum? Ég segi nei.