Geymslufé

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:51:00 (2335)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 9/1978, um geymslufé. Þetta frv. er á þskj. 250. Ég vek athygli þingmanna á því að þetta frv. er nátengt frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði sem mælt var fyrir hér fyrr í dag.
    Samkvæmt 1. gr. laganna um geymslufé, nr. 9/1978, geta menn fullnægt greiðsluskyldu sinni með því að greiða skuld sína á geymslureikning í ríkisviðskiptabanka eða annarri þeirri innlánsstofnun sem heimild hefur lögum samkvæmt til þess að taka við geymslufé. Samkvæmt þessum lögum hafa því aðeins ríkisviðskiptabankar heimild til þess að taka við geymslufé með stoð í lögunum um geymslufé. Hins vegar hafa aðrir viðskiptabankar og sparisjóðir notið samsvarandi heimilda samkvæmt ákvæðum laga um viðskiptabanka og laga um sparisjóði.
    Breytingin sem tillaga er gerð um með þessu frv. felur í sér að viðskiptabankar og sparisjóðir sæki heimildir til að taka við geymslufé frá almenningi til laga um geymslufé í stað laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Breyting þessi er liður í lagahreinsun sem fylgir þeirri viðamiklu endurskoðun á bankalöggjöfinni sem nú stendur yfir.
    Í frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði er einmitt lagt til að ákvæði 1. mgr. 31. gr. laga um viðskiptabanka og ákvæði 35. gr. laga um sparisjóði um rétt þessara stofnana til að taka við geymslufé verði felld niður. Sú breyting er hér lögð til í trausti þess að frv. sem ég mæli nú fyrir nái fram að ganga, enda er alls ekki ætlunin að þrengja heimildir til að taka við geymslufé frá því sem nú er. Tilgangur frv. er hins vegar að jafnsetja sambærilegar stofnanir gagnvart þessari þjónustu, þ.e. að allar lánastofnanir geti veitt geymslufjárþjónustu.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. er ekki umfangsmikið og hefur þann tilgang einan að gera menn jafna fyrir lögunum í þessu tilliti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.