Flugmálaáætlun og fjáröflun í flugmálum

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:54:51 (2337)

     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. þetta og birtist álit nefndarinnar á þskj. 261. Nefndin kvaddi til viðræðna á fundum sínum Ragnhildi Hjaltadóttur skrifstofustjóra, Þórhall Jósepsson, deildarstjóra frá samgrn., Þórhall Arason, skrifstofustjóra frá fjmrn.
    Frv. er ætlað að miða að því að taka af öll tvímæli um túlkun á gagnkvæmum samningi sem gerður var milli Íslendinga og Bandaríkjamanna á árinu 1967 um að fella niður tolla og skatta ef eldsneyti og

smurningsolíum fyrir flugvélar sem skráðar eru í landi annars samningsaðilans en hafa viðdvöl í landi hins. Þessi samningur var undirritaður og tók gildi þann 1. júní 1967.
    Á árinu 1987 voru sett lög nr. 31/1987 um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum sem ekki var þá talið að brytu í bága við þennan milliríkjasamning, en svo fór að tiltekin lagagrein í þeim lögum hefur verið túlkuð með mismunandi hætti. Þannig hafa Íslendingar innheimt af bandarískum flugvélum sem ekki eru í áætlunarflugi slík gjöld sem hér um ræðir en Bandaríkjamenn hafa á hinn bóginn ekki innheimt af íslenskum flugvélum í Bandaríkjunum sams konar gjöld þar, hvorki alríkið né einstök fylki.
    Í nefndinni kom fram að þeir hagsmunir sem hér er um að tefla eru allmiklir og auðvitað gagnkvæmir, en þó eru hagsmunir Íslendinga meiri en Bandaríkjamanna í þessum efnum.
    Í bráðabirgðaákvæði frv. er gert ráð fyrir heimild til þess að endurgreiða þau gjöld sem tekin hafa verið hér á landi frá því að lögunum var breytt 1987. Er talið að sú fjárhæð geti numið 20--30 millj. kr. Samgn. er sammála um að mæla með því að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir, en hv. 6. þm. Vestf., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, skrifar þó undir nál. með fyrirvara.