Hópuppsagnir

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:10:43 (2355)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þá umræðu sem hér fer fram af hálfu nefndarmanna í félmn. og sérstaklega taka fram hversu góð samvinna hefur verið í nefndinni um þetta frv. og reyndar þau markaðs- og vinnumálafrv. sem við erum með í nefnd okkar nú vegna EES-samningsins. Mér finnst það mjög jákvætt hvernig hefur verið staðið að vinnu og hver áhugi manna hefur verið á því að skoða þessi mál mjög grannt og algjörlega óháð afstöðu þeirra til EES-samningsins út af fyrir sig.
    Það er, held ég, alveg óumdeilt að það frv. sem er komið til 2. umr. er mikil réttarbót fyrir launþega. Þrátt fyrir að einhver áherslumunur sé á tölunum sem hafa verið nefndar hér af þeim sem hafa talað á undan mér er samt 2. gr. frv. mesta réttarbótin. Með leyfi forseta hefði ég áhuga á að lesa hana upp:     ,,Áformi atvinnurekandi uppsagnir skv. 1. gr. skal hann hafa samráð við trúnaðarmann starfsmanna eða annan fulltrúa, sem þeir hafa til þess valið, svo fljótt sem auðið er.
    Með samráðinu skal stefnt að því að ná samkomulagi til að komast hjá uppsögnum að svo miklu leyti sem mögulegt er og draga úr afleiðingum þeirra.
    Trúnaðarmenn eða aðrir fulltrúar starfsmanna skulu eiga rétt á að fá allar upplýsingar frá atvinnurekanda, sem máli skipta, um fyrirhugaðar uppsagnir. Tilgreina skal skriflega ástæður uppsagna, fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp, hve margir eru að jafnaði í vinnu og á hvaða tímabili uppsagnirnar eiga að taka gildi.
    Atvinnurekandi skal senda afrit af öllum skriflegum upplýsingum, sem um getur í 3. mgr., til stjórnar vinnumiðlunar í umdæminu. Sé vinnumiðlun ekki fyrir hendi í sveitarfélaginu skulu gögn send viðkomandi sveitarstjórn.``

    Hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, setti fram nokkur atriði, sem fylgt var eftir af þeim þingmönnum sem jafnframt hafa talað, en hann hefur einnig á vissan hátt svarað þeim álitamálum sem fram komu varðandi athugasemdir og þær breytingar sem rætt var um. Mér finnst mjög mikilvægt að taka það fram, eins og reyndar hefur komið fram í þeirra máli, að menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta frv. er ásættanlegt þó ekki sé breytt þeim tölum sem hefur verið talað um. Þá vísa ég í að þar sem um er að ræða a.m.k. tíu starfsmenn í fyrirtæki sem venjulega hefur fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu komu fram óskir um að 20 yrði fært niður í 16 og einnig að talan tíu yrði færð niður í fjóra. Mér finnst mikilvægt að það komi fram að í 6. gr. frv., sem hljóðar svo:
    ,,Leiði ráðgerður samdráttur eða aðrar ráðgerðar breytingar í fyrirtæki til uppsagnar fjögurra eða fleiri starfsmanna er atvinnurekanda skylt að tilkynna uppsagnir til Vinnumálaskrifstofu félmrn. og viðkomandi verkalýðsfélags með tveggja mánaða fyrirvara.`` Þessu ákvæði um tilkynningaskylduna er haldið óbreyttu um leið og starfsmenn eru orðnir fjórir eða fleiri þrátt fyrir að hinar viðamiklu aðgerðir sem fara á í gangi ekki í gildi fyrr en við uppsögn tíu starfsmanna í fyrirtækjum af þeirri stærð sem hér hefur verið nefnd.
    Það er líka mikilvægt að nefna varðandi nýtt ákvæði sem óskað var eftir varðandi framkvæmd hópuppsagna að að smíð frv. komu bæði fulltrúar ASÍ og VSÍ, þ.e. aðilar vinnumarkaðarins. Það er alveg ljóst að þarna átti sér stað ákveðin málamiðlun og er e.t.v. nokkuð viðkvæmt að fara þar inn í með tillögur sem komu á eftir frá öðrum aðilanum. Ég held að við höfum verið sammála um að það hefðu þá verið réttlát vinnubrögð að við settum okkur inn í hvað hafi verið á döfinni af hálfu beggja. Eins og ég segi er hér um sameiginlega niðurstöðu að ræða fyrir utan þá fyrirvara sem hér hafa komið fram.
    Varðandi áhafnir skipa sem eru undanskildar ákvæðum frv., og reyndar eru áhafnir skipa almennt undanskildar í frumvörpum sem varða vinnuréttarmál, hefur verið upplýst að mjög viðamiklir lagabálkar fjalla um þeirra mál og þeir hafa ekki samið um ákvæði af þessu tagi í sínum kjarasamningum enn þá. Hins vegar kom það fram að ASÍ samdi í apríl á sl. vori um ákvæði í sínu samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins varðandi tíu starfsmenn í fyrirtækjum með 16--100 starfsmenn. Það eru mjög margir aðrir sem ekki hafa samið um slíkt ákvæði og við fengum líka ábendingar um að það gæri verið viðkvæmt að fara inn í ákvæði sem í raun og veru eru samningsatriði þrátt fyrir að þarna sé verið að tryggja ákveðin lágmarksréttindi. Og það vil ég árétta að með þessu frv., sem er mikil réttarbót að mínu mati, er verið að tryggja lágmarksréttindi starfsfólks við hópuppsagnir.
    Líka var nokkuð rætt um eitt ákveðið atriði frv. Það var sá 30 daga aðdragandi sem átti að vera að uppsögnum. Sumir höfðu viljað skilja það þannig að þarna væri um að ræða 30 daga framlengingu á uppsagnarfresti, Svo er ekki. Við létum skoða þetta sérstaklega og þá hverjum það kæmi best til góða fyrir utan hinn almenna aðdraganda. Ákvæðið er um það að með 30 daga fyrirvara sé tilkynnt um að atvinnurekandi hyggist segja upp fólki. Þær tilkynningar eru ekki um nöfn heldur fyrst og fremst fjölda og þær upplýsingar sem frv. kveður á um. Það er alveg ljóst að þegar búið er að tilkynna um að segja eigi upp ákveðnum fjölda manna mun það kalla á aukinn þrýsting um frekari upplýsingar. Það er líka ljóst að þeir sem hafa styttri uppsagnarfrest en einn mánuð, t.d. allir þeir starfsmenn sem hafa viku uppsagnarfrest og þeirra trúnaðarmenn, hafa þá þriggja vikna aðlögun að því að kalla eftir upplýsingum sem skipta máli fyrir viðkomandi.
    Eins og ég sagði áðan komu fram í máli þingmanna í félmn. svör við þeim athugasemdum sem menn voru með. Þess vegna er í raun og veru ekki ástæða til að ég fylgi þessum málum frekar eftir að öðru leyti en að koma með þessar ábendingar mínar. Ég tek undir að það var mikil samstaða um að þetta mál skyldi ná fram að ganga alveg óháð samningnum um EES og þess vegna er fullt samkomulag um að frv. verði að lögum sem öðlast gildi 1. jan. Að sjálfsögðu geta komið fram brtt. í þessu máli sem einstakir nefndarmen áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja. En það er full samstaða um málið eins og það kemur núna úr nefndinni.