Kennsla í táknmálstúlkun

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:43:29 (2417)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt hve miklum fjármunum verði varið til kennslu í táknmálstúlkun við Háskóla Íslands á næsta ári samkvæmt tillögu menntmrn. Til kennslunnar verður á árinu 1993 varið um 2,4 millj. kr. Þar af verði 1 millj. kr. framlag af fjárveitingu til Samskiptamiðstöðvarinnar sem fæst með tilhliðrun í starfsemi hennar.
    Í öðru lagi er spurt hvenær kennsla hefjist í táknmálstúlkun. Kennslan mun hefjast haustið 1993 á grundvelli samnings við Háskóla Íslands. Með því móti fæst nægur tími til undirbúnings og skipulagsvinnu. En hér er um brautryðjendastarf að ræða.
    Í þriðja lagi er spurt hvað gert sé ráð fyrir að margir nemendur geti stundað nám í táknmálstúlkun á næsta ári. Miðað verður við að menntaðir verði tveir átta manna hópar táknmálstúlka að þessu sinni. Samkvæmt því mundu átta nemendur geta hafið nám í táknmálstúlkun næsta haust. Áætlað er að seinni hópurinn hefji nám ári síðar.
    Þessi áætlun miðast við að ekki þurfi að leggja fram sérstaklega fé úr ríkissjóði til tækjakaupa vegna kennslunnar a.m.k. á fyrsta kennsluári. Enda hefur Samskiptamiðstöðin gert sér vonir um að afla fjár til þess þáttar með öðrum hætti. Breytist sú forsenda þarf að endurskoða þessar fyrirætlanir í því ljósi.
    Ég vil svo bæta því við að það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að vandi heyrnarlausra til tjáskipta er mikill. Það hefur verið ríkjandi skilningsskortur á vanda þessa hóps í þjóðfélaginu. En ég held að það megi segja að augljósar breytingar séu að verða og menn séu samtaka um að reyna að greiða úr þessum vanda. Táknmálið er tungumál þessa hóps og eins og hv. fyrirspyrjandi rakti er ekki svo langt síðan að stefnubreyting varð í þessum efnum. Ég læt í ljós von um að af þessu muni verða og þessar áætlanir standist.