Aðstoð við íbúa fyrrum ríkja Júgóslavíu

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 12:20:36 (2431)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. þm. fyrir að vekja athygli á þessu vandamáli. Það er ekki lengra síðan en í gær að mér barst bréf frá starfsbróður mínum í Slóveníu sem var þá nýkominn heim eftir heimsókn um Bosníu-Hersegovínu og sérstaklega Sarajevo. Þetta er í reynd neyðarkall vegna þess að þrátt fyrir að Rubel, utanríkisráðherra Slóveníu, sé kunnugur á þessum slóðum og hafi átt þarna marga vini og kunningja frá fyrri tíð, þá er lýsing hans vægast sagt hrollvekja. Hann beinir því beinlínis til starfsbræðra sinna í Evrópu að hrista af sér slenið og sameinast um það beinlínis að koma á vettvang til að sjá með eigin augum það þjóðarmorð sem þarna fer fram. Þær hörmungar sem blasa alls staðar við þar sem annars vegar er um að ræða með öllu varnarlaust fólk og hins vegar skipulagðar og grimmilega hervæddar morðsveitir.
    Það er hverju orði sannara sem hér hefur verið sagt að mikið skortir á að samviska heimsins eða Evrópubúa hafi verið vakin í þessu máli. Það er vægast sagt dapurlegt að horfa á viðbrögð stjórnmálamanna sem kalla til ráðstefnu eftir ráðstefnu sem flestar hverjar renna út í sandinn. Ég tek undir með þeim sem segja: Það er nóg talað. Menn verða í alvöru að koma sér saman um til hvaða ráða skuli gripið til þess að stöðva þessar samviskulausu, tilgangslausu og hörmulegu blóðsúthellingar, enda er rík ástæða til að ætla, eins og Rubel getur um í þessu bréfi, að ef þetta heldur svona áfram, þá er þetta aðeins byrjunin á því sem í vændum er því að þetta mun breiðast út til Kosovo og Albaníu og verða með öllu gersamlega stjórnlaust.
    Það er ástæða til þess að þakka frumkvæði starfshópsins á Seyðisfirði og annarra sem látið hafa sig þetta mál varða. Sérstaklega er einnig ástæða til þess að geta þess að því er varðar hin munaðarlausu börn þrátt fyrir það hversu erfitt það mál er að við erum að reyna að koma á milligöngu við einhverja aðila sem geta a.m.k. haft milligöngu þegar um er að ræða óskir foreldra sem vilja ættleiða börn þegar búið er að ganga úr skugga um að þau hafi raunverulega misst foreldra sína.