Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:50:37 (2485)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt sem fram kom hér í máli hv. 17. þm. Reykv. Ég er honum sammála að sumu leyti. Ég er honum hins vegar algerlega ósammála um það að skólagjöldin ráði þessum úrslitum. Ég segi fyrir mig sem þekki talsvert til í þessum hópum að ég þekki ekki dæmi um það að þau hafi ráðið úrslitum. Ég þekki dæmi um hitt að eftirágreiðsluákvæði laganna hafi ráðið úrslitum, þ.e. 6. gr. Hún hafi hrakið fólk í burtu. Ég þekki fjölda dæma um það. Annað atriði sem ég þekki sérstaklega mörg dæmi um eru námsframvindukröfur stjórnar lánasjóðsins. Þær eru t.d. með þeim hætti að það að hefja nám segjum í lögfræði sem skilar í raun og veru ekki niðurstöðum fyrr en eftir tvö misssiri er satt að segja alveg ógerningur fyrir fólk t.d. sem hefur vinnu og við þessar aðstæður atvinnuleysis vill ekki sleppa vinnunni, vill ekki taka þá áhættu að fara í skólann, falla og komast svo ekki í vinnu aftur. Ég held því að námsframvindukröfurnar séu í raun og veru það ljótasta í úthlutunarreglunum eins og þær eru auk þess sem ég tel að námsframvindukröfurnar standist heldur ekki af því að Háskóli Íslands hefur verið skorinn svo mikið niður að hann getur ekki veitt nemendunum þá þekkingu á þeim stutta tíma sem lánasjóðurinn krefst til þess að fólkið fái þessi lán. Þannig að þetta stenst ekki.
    Ég verð að segja að ég tel mikilvægt og ég finn það alveg greinilega að hv. 17. þm. Reykv. vill vel í þessu máli og það hygg ég að eigi við um flesta hv. þm. Ég segi samt við hann eða ég bið hann öllu heldur að vera ekki að plata okkur. Ég vona að það sé ærlegt sem hann er að segja og hann vilji í alvöru taka þátt í því að laga lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna því að þau eru slæm. Reynslan sýnir það nú þegar, virðulegi forseti.