Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:34:23 (2527)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því. Við skulum bíða eftir dómi Alþýðusambandsins. En hitt eru merkileg tíðindi að eftir að forsrh. er búinn að flytja hér sína tilkynningu, þar sem hvergi er að finna einn staf, hvað þá heldur eitt orð um þessar 4 þúsund millj. sem á að leggja á nýju ári inn í þennan nýja sjóð, komi hæstv. utanrrh. og segi: Þegar allir verða búnir að gleyma smáatriðunum í þessum tillögum --- og hver eru smáatriðin? Það er það sem forsrh. var að tilkynna hérna áðan --- þá mun hann rísa upp í sögunni, þessi nýi þróunarsjóður sem fær 4 þúsund millj. til sín með skuldabréfum á næsta ári.
    Hæstv. utanrrh. Samkvæmt því sem fram kom í síðustu viku í umræðum um fjáraukalagafrv. fyrir árið 1991 af hálfu talsmanna Sjálfstfl. og talsmanna fjárln. er alveg ljóst að þessar 4 þúsund millj. verða reiknaðar sem útgjöld hjá ríkinu og skuldbindandi greiðsla á árinu 1993 og koma þar með inn í hallatöluna. Ég get hins vegar verið sammála ráðherranum um það að þegar menn eru búnir að gleyma ýmsu smáu í þessum aðgerðum muna menn eftir þeim degi þegar hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hóf sjóðasukkið. Því munu menn örugglega muna eftir þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ákvað að stofna sértækan sjóð þar sem þriggja manna nefnd, þar af tveir, meiri hlutinn, valdir af sjútvrh., fá að úthluta ,,ganske pent`` 4 þúsund millj. til þeirra fyrirtækja sem þeim eru þóknanleg. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi frá Davíð Oddssyni og Sjálfstfl.