Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:41:51 (2532)


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Þessi mál hafa verið til umfjöllunar alllengi á Alþingi og það er ekkert nýtt að við vitum það að íslenskir atvinnuvegir eiga við mikinn vanda að stríða og það er ekkert nýtt að menn viti það, þeir hafa lengi vitað að þörf var á að grípa til aðgerða.
    Hæstv. utanrrh. segir að einkenni þessara aðgerða sé sáttfýsi og samlyndi. En við hjótum að spyrja: Sáttfýsi við hverja og gott samlyndi við hverja? Ég lít þannig á að þessar aðgerðir miðist fyrst og fremst að því að ná sátt milli ríkisstjórnarflokkanna og reyna að koma þar á bærilega góðu samlyndi eða koma á siðaðra manna hagstjórn, eins og hæstv. utanrrh. orðaði það, og þá væntanlega siðaðra manna samstarfi milli ríkisstjórnarflokkanna. Það er allt saman gott og blessað og nauðsynlegt að góður andi ríki á stjórnarheimilinu svo mikilvægt sem það er almannahagsmunum.
    Umræðan hefur verið með öðrum hætti að undanförnu. Við sem höfum starfað í stjórnarandstöðu höfum lýst því yfir að við viljum taka með einum eða öðrum hætti þátt í þessum aðgerðum, ekki með beinum hætti heldur með óbeinum hætti og um það hefur nokkuð verið rætt. Það er hins vegar ljóst að ríkisstjórnin hefur hafnað því. Það lýsir ákveðnu hugarfari þegar ríkisstjórn tilkynnir aðgerðir með þessum hætti og lætur ekki svo mikið að láta stjórnarandstöðuna vita um þær nema nokkrum mínútum áður en þær eru birtar. Það lýsir því hugarfari að hæstv. ríkisstjórn lítur meira á það sem formsatriði að tilkynna þessar aðgerðir á Alþingi og vill ekki gefa okkur í stjórnarandstöðunni tækifæri til að undirbúa umræðuna. Ég vænti þess að ríkisstjórnin hafi komið fram með öðrum hætti við aðila vinnumarkaðarins en það er hins vegar alveg ljóst að aðgerðirnar tryggja ekki sáttfýsi og samlyndi við þá.
    Hæstv. utanrrh. sagði að engar kollsteypur væru teknar í þessu máli. Gengisfelling væri engin kollsteypa. Það er út af fyrir sig ekkert undrunarefni fyrir mig þótt gengið hafi látið undan síga og ég gagnrýni hæstv. ríkisstjórn ekki fyrir það. Ég tel það nokkuð augljóst að íslenska krónan fékk ekki staðist þann þrýsting sem var á hana, sérstaklega með tilliti til þess að ríkisstjórnin hafði ekki um langt skeið brugðist við þeim vanda sem var til staðar. Ríkisstjórnin er búin að vita það um margra ára skeið að aflabrögð verða mun minni á árunum 1992 og 1993. Ætli ríkisstjórnin hafi ekki vitað að það mundi hafa nokkur áhrif. Ríkisstjórnin er búin að vita það um margra mánaða skeið að verðlag hefur fallið á mikilvægum útflutningsvörum. Síðan kemur hæstv. utanrrh. og segir að það eina sem gerðist hafi verið óróleiki að því er varðaði sænsku krónuna og spánska pesetann. Nei, auðvitað var hæstv. utanrrh. að éta ofan í sig nauðsynlegan hlut en hann getur ekki gert það nema með því að skella því á sænsku krónuna og spánska pesetann. Þetta er ekki mjög karlmannlegt, hæstv. utanrrh. Það er einfaldlega staðreynd að tekjur hafa dregist saman. Kostnaðarlækkunarleiðin hefur ekki gengið upp og ef menn hefðu viljað fara þá leið af fullri einurð hefði þurft að ná fram meiri kostnaðarlækkunum og þá að skerða kjör launþega í landinu sem óhjákvæmilega munu skerðast með öðrum hætti.
    Var verkalýðshreyfingin spurð um það hvort hún vildi fremur standa að launalækkunum, sérstaklega til þeirra sem hafa hæstu launin í þjóðfélaginu, ef fallið yrði frá gengisbreytingu? Ég spyr hæstv. utanrrh. Var sú leið reynd til þrautar? Ég held að það sé ljóst að málið snerist fyrst og fremst um það að skipta þeirri óhjákvæmilegu kjaraskerðingu, sem við höfum orðið fyrir, með réttlátum hætti. Ég held að það sé alveg ljóst að gengisfelling gerir það ekki og það var þess vegna sem forusta Alþýðusambandsins vildi koma í veg fyrir hana. Það var ástæðan fyrir því. Þeir vildu hlífa þeim sem minnstar hafa tekjurnar.
    Auðvitað hafa fleiri kollsteypur verið teknar í þessu máli. Sjálfstfl. hefur tekið miklar kollsteypur og sáttfýsin og samlyndið virðist fyrst og fremst ganga út á það að sætta sig við að geta ekki staðið við ýmislegt sem ráðherrarnir hafa sagt á undanförnum mánuðum og árum.
    Hæstv. ríkisstjórn segir að aðalmarkmið þessara aðgerða sé að styrkja undirstöður atvinnulífsins.

Það er ljóst að atvinnulífið þarf á því að halda. Ég fagna því að nú er búið að ákveða að fella aðstöðugjaldið niður og tel það mjög mikilvægt skref. Það er jafnframt ljóst að breyting á genginu styrkir undirstöðu atvinnulífsins ef það tekst að halda þeirri raungengisbreytingu sem þar kemur fram. Það er hins vegar nokkur mótsögn í því að ætla sér að styrkja undirstöðu mikilvægrar atvinnugreinar sem ferðaþjónustan er með því að leggja á hana sérstaka skatta. Hæstv. utanrrh. talaði um að þetta væri ósköp svipað. Það væri létt af greininni 500 millj. en ekki lagt á hana nema 600 millj. kr. Er hæstv. utanrrh. að tala um þessa atvinnugrein sem eitt fyrirtæki? Þetta eru að sjálfsögðu mjög mörg fyrirtæki með mismunandi aðstæður. Sum eru í hótelrekstri, önnur í veitingaþjónustu og enn önnur í samgöngum. Samkeppnisstaða þessara fyrirtækja verður mjög misjöfn og ekki hægt að líta á greinina sem eina heild. Þetta er óhjákvæmilega vandamál sem menn hljóta að þurfa að líta til.
    Ég viðurkenni það fúslega að það þurfti að dreifa þessum byrðum með réttlátum hætti á almenning. Ég mótmæli því hins vegar að það skuli eiga að leggja sérstakan skatt á húshitun og þá væntanlega mest á þá sem mest þurfa að borga fyrir húshitun. Hæstv. utanrrh. ýjaði að því að þar ætti að grípa til einhverra jöfnunaraðgerða. Það er þá a.m.k. ekki haft fyrir því að útskýra það í þessu plaggi sem ég fékk fyrir stuttu. ( Gripið fram í: Það er í fjárlagafrv.) Ég reikna ekki með því að við gerð fjárlagafrv. hafi menn verið svo framsýnir að taka sérstakt tillit til þessa skatts. Að vísu er ríkisstjórnin búin að rugla svo mikið um hann að undanförnu að vel má vera að þeim hafi tekist að rugla þann sem hér stendur og hefði það í sjálfu sér ekki talist til neinna sérstakra afreka miðað við hve margir hafa ruglast í því þegar menn eru að breyta málum á hinu ýmsu næturfundum.
    Það er tilkynnt að það eigi að lækka barnabætur. Er það sanngjarnt að hækka skatt enn einu sinni á þá sem eiga flest börnin? Var ekki nóg komið af því, hæstv. ráðherrar? Ég get hins vegar fallist á að tekjuskattshlutfall einstaklinga verði hækkað því auðvitað verða einhverjir skattar að breytast. En það skiptir máli að það sé gert með þeim hætti að annað hvort sé um almenna skattbreytingu að ræða og þá sérstaklega skattbreytingu á þá sem hafa mestu tekjurnar.
    Hér hafa menn komið sér saman um svokallaðan hátekjuskatt. Og hátekjuskatturinn er 5% á mánaðartekjur yfir 200 þús. kr. hjá einstaklingi og 400 þús. kr. hjá hjónum. Við vitum það af fyrri umræðum um þessi mál að vandinn við að taka upp þennan skatt er að endanlegt uppgjör hans getur ekki verið nema eftir á. Það er öllum ljóst að aðili, sem hefur 200 þús. einn mánuðinn og 50 þús. næsta mánuð, getur ekki borið hátekjuskatt. Það verður að líta á meðallaun hans yfir árið. Þar af leiðandi fellur þessi skattbreyting illa að staðgreiðslukerfinu. En fyrst að þessi prósenta var ekki hærri en 5% þá hefði að sjálfsögðu verið mun einfaldara að hækka skattprósentuna og hækka síðan persónuafsláttinn þannig að þetta kæmi betur út fyrir þá sem lægstu tekjurnar hafa. Það að ætla að fara að taka upp eitt sérstakt skattprep til bráðabirgða vegna þessara 5% er að mínu mati fráleitt og hefði verið mun betri jöfnunaraðgerð að gera það með öðrum hætti. Ekki veit ég af hverju ríkisstjórnarflokkarnir gátu ekki náð saman um þetta. Mér skilst að Sjálfstfl. hafi ekki viljað fara út í þetta og mér skilst að Alþfl. hafi viljað fara út í mun hærra þrep. En fyrst ekki var farið út í hærra þrep af hverju í ósköpunum komu menn sér þá ekki saman um skynsamlegri tillögu?
    Síðan er gert ráð fyrir að taka upp sérstakt skattþrep í virðisaukaskatti eða 14%. Það verða þá ekki aðeins tvö skattþrep heldur verður áfram hátt skattþrep á matvælum með einhverjum niðurgreiðslum. Hér er t.d. ekki gert ráð fyrir að þessi sérstaki 14% skattur verði á matvælum. Ég skil það svo að áfram verði hærra þrepið á matvælum.
    Ég tel það mjög vafasamt svo ekki sé meira sagt að taka upp sérstakt skattþrep fyrir húshitun, útvarp og sjónvarp, bækur og blöð, hótelgistingu og fólksflutninga. Skatturinn vegna fólksflutninga leggst fyrst og fremst á íbúa landsbyggðarinnar og ferðaþjónustuna. Skatturinn á húshitun leggst í enn ríkara mæli á íbúa landsbyggðarinnar. Og jafnvel þótt einhver fyrirheit séu um það í fjárlögum þá hef ég ekki trú á að þar standi til að jafna þær byrðar að fullu.
    Það er vissulega umdeilt hvort taka á upp virðisaukaskatt á bækur, blöð og tímarit. En ég tel að þetta nýja 14% skattþrep séu mistök og ég sakna þess að hæstv. utanrrh. skuli ekki lengur verja þessi mikilvægu mál, þ.e. að hafa hér einfalt og traust virðisaukaskattskerfi. Það gerði hann í fyrri ríkisstjórn og gerði það nokkuð vel. Það er stundum sagt um okkur stjórnarandstæðinga að við skiptum um skoðun vegna þess að við erum ekki lengur í ríkisstjórn. En hæstv. utanrrh. virðist skipta um skoðun í hinum mikilvægustu málum við það að vera heldur lengi í ríkisstjórn. ( Utanrrh.: Ég hef ekki skipt um skoðun á þessu.) ( Gripið fram í: Jú, jú.) En það er kannski eitt af því sem utanrrh. kallar sáttfýsi og samlyndi, þ.e. sem sagt að gera einhverja óskynsamlega hluti í nafni sáttfýsi og samlyndi, væntanlega aðallega við sjálfan sig án þess að taka kollsteypur með almannahagsmuni í huga eins og hann orðaði það því Alþfl. gerði aldrei neitt annað en það sem almannahagsmuni skipti máli. ( Utanrrh.: Rétt.) Aldrei gert nokkurn skapaðan hlut, aldrei settur maður í eitt einasta embætti, hvorki innan lands eða erlendis nema almannahagsmunir séu þar í fyrirrúmi.
    Ég gef mikið fyrir slíkt hugarfar en hitt er svo annað mál að mér hefur stundum fundist þegar Alþfl. er að tala um almannahagsmuni og sérhagsmuni þar á móti að málefni atvinnulífsins séu einhverjir sérhagsmunir. Það að verja stöðu sjávarútvegsins og það að verja stöðu landbúnaðarins það sé að verja sérhagsmuni. Þannig hefur Alþfl. talað. En þannig skilgreini ég ekki almannahagsmuni. Og mér finnst því miður að hér vanti nokkuð á að hagsmunir þessara mikilvægu atvinnugreina séu varðir. Þar að auki eru veiktar þær stoðir sem eru undir ferðaþjónustunni í landinu.
    Þá ætla ég að koma að því sem hæstv. utanrrh. segir að sé langmikilvægasta málið í þessum pakka. Það er hinn nýi sjóður sem er undir fjárhagslegri endurskipulagningu í sjávarútvegi. Á að skilja það svo að það eigi ekkert annað að gerast í fjárhagslegri endurskipulagningu í sjávarútvegi en þessi sjóður? Eiga ekki að eiga sér neinar skuldbreytingar? Ætlar ríkisstjórnin ekki að hafa forustu um að slíkt eigi sér stað? Á það er ekki minnst í þessu plaggi. Hæstv. utanrrh. segir að þessi sjóður eigi að fá 4 milljarða í heimanmund og þar eigi engir jólasveinar að vera að störfum. Þar eiga væntanlega að vera vel siðaðir kratar sem hafa aldrei komið nálægt jólasveinum. ( Gripið fram í: Jónasveinum.) Þessi nýi sjóður á að heita Þróunarsjóður sjávarútvegsins. Og hæstv. utanrrh. lagði á það áherslu að nú væri fyrst verið að byrja á þessu verki. Þetta sýnir nú vel hvað hæstv. utanrrh. er fljótur að gleyma. Hann er ekki bara fljótur að gleyma því hvernig sparifé atvinnurekstrarins er skattlagt. Hann hefur gleymt því að í tíð fyrri ríkisstjórnar var stofnaður sjóður sem hét Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins. Og hæstv. utanrrh. taldi sér það mjög til gildis að hann átti mikinn þátt í stofnun þess sjóðs og það er rétt hjá honum. (Gripið fram í.) Það er rétt hjá honum. ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Nei, ekki ef ég fæ frið fyrir hv. þm. ( Forseti: Forseti tekur undir að það væri gott ef hv. þm. gæfu ræðumanni frið til að ljúka máli sínu. Það er komið að lokum þessa fundar ef hv. þm. á ekki mjög langt eftir þá mundi forseti leyfa honum að ljúka ræðunni, annars yrði að fresta henni.) Já, ég skal reyna að vera nokkuð fljótur, virðulegur forseti, að ljúka þessu. Ég vildi aðeins leggja áherslu á að Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins hafði heimild til að kaupa fiskiskip og úrelda þau. Hann hafði ákveðna tekjupósta. Hann hafði ekki heimild til að kaupa fiskvinnslufyrirtæki. Núv. ríkisstjórn lagði áherslu á það þegar hún var sett á stofn að það væri meginatriði að leggja þennan sjóð nánast niður og eyðileggja hann. Til hvers? Til þess að geta farið að innheimta tekjur í ríkissjóð til að þóknast Alþfl., almannahagsmunahugsjón Alþfl. sem er mjög svo misskilin. Þar með var þessi sjóður eyðilagður. Nú á að stofna nýjan sjóð sem á að fá nákvæmlega sama hlutverk. Og ég spyr: Á þá að fella niður gjaldið til Hafrannsóknastofnunar? Ætlar ríkisstjórnin virkilega að ganga frá því í lögum að ákveðinn skattur verði lagður á 1996 eða 1997? Ætlar ríkisstjórnin með því að lýsa því yfir að þessir flokkar ætli að starfa saman til aldamóta og halda ríkisstjórnarflokkarnir að þeir geti leyft sér slíkt í ljósi þess hvaða hljómgrunn þeir hafa meðal þjóðarinnar? Trúir hv. þm. Matthías Bjarnason t.d. að það sé rétt fyrir Sjálfstfl. að vera í þessu stjórnarsamstarfi fram yfir næstu aldamót? Það verður náttúrlega að svara þessari spurningu. Núv. ríkisstjórn getur ekki gert þetta. Mér er alveg sama þótt þetta sé skrifað hér á blað. Svona gera menn ekki með sama hætti og menn munu væntanlega ekki festa í lögum að tekjuskattur verði lækkaður eða hækkaður 1996 eða árið 2000. ( MB: Kannski aldamótunum verði frestað.) En væri þá ekki rétt að halda nýjan næturfund um það næstu nótt, hv. þm. Matthías Bjarnason?