Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 17:52:05 (2589)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. bar fram spurningu til mín þó að ég væri búinn að tala jafnoft og ég átti rétt á í andsvörum. Ég skal svara spurningunni: Svarið er mjög einfalt. Við erum enn sömu skoðunar og við vorum fyrir einum og hálfum mánuði síðan. Við erum reiðubúnir að taka upp samvinnu við ríkisstjórnina um skynsamlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Við erum reiðubúnir að gera það. Forseti Alþýðusambandsins spurði forsrh. að því í gær: Er hann reiðubúinn að endurskoða þessar ákvarðanir til að taka upp á ný samvinnu við Alþýðusambandið? Forseti Alþýðusambandsins spurði fjmrh. einnig í útvarpsþætti í gær: Er ríkisstjórnin reiðubúin að endurskoða þessar ákvarðanir til að taka upp samvinnu við Alþýðusambandið?
    Ég held að það væri skynsamlegast fyrir hæstv. forsrh. í stað þess að vera að hreyta einhverjum ónotum í mig að hugleiða hvort það væri ekki skynsamlegast fyrir hann að gera eins og einn fyrirrennari hans, formaður Sjálfstfl., gerði eitt sinn í erfiðu máli í þinginu gagnvart verkalýðshreyfingunni fyrir nokkrum áratugum síðan, að brjóta odd af oflæti sínu, breyta um stefnu og taka upp viðræður við verkalýðshreyfinguna og stjórnarandstöðuna um aðrar aðgerðir. Þá mun ekki standa á mér. Ég er reiðubúinn að styðja forsrh. í því.