Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 18:42:01 (2595)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin en heldur þótti mér óljóst svarið við því hvaða breytingum þessar tillögur tóku eftir að gengisfelling varð ljós. Má ég skilja svar hans þannig að fyrst og fremst hafi verið dregið úr sköttum á bifreiðir? Það hefði verið það eina sem breyttist eftir að gengisfellingin varð ljós? Þetta þykir mér dálítið magurt svar því að ég hef ekki getað komið auga á að þessar tillögur hafi tekið neinum meginbreytingum eftir að gengisfellingin varð ljós.
    Annað er og ég vil leyfa mér að andmæla hæstv. ráðherra. Trúir hann því virkilega í fyrsta lagi að norska krónan haldi velli? Ég held að það sé óhugsandi. Á ég að trúa því að hann sé sannfærður um að þessi gengisfelling nægi til að mæta því ef norska krónan fellur eitthvað verulega? Ef svarið er já, þá er gott að vita það. En ég verð að segja að í hjarta mínu er ég næstum því viss um að það yrði óhjákvæmilegt að fella krónuna aftur og þá held ég að við séum komin í ærið vond mál.
    Mér kom ekki á óvart að hæstv. ráðherra hefur ekki miklar áhyggjur af framtíðinni okkar, börnunum okkar. Hann sá ekki ástæðu til að taka neitt undir óskir mínar um að rýra ekki frekar kjör barnafjölskyldna en ég er vön því svo að ég held að það séu ekki margir bestu vinir barnanna í þessum virðulega sal.